Skírnir - 01.01.1986, Blaðsíða 268
264
HANNES H. GISSURARSON
SKÍRNIR
sinni á áður ónumin gæði, þarf annar maður síður en svo að tapa
fyrir vikið, eins og ég reyndi að sýna fram á fyrr í þessari ritgerð.69
14. Mœlskubrögð Porsteins Gylfasonar
Margt það, sem Þorsteinn Gylfason segir um kenningu Nozicks,
er innan marka akademískrar rannsóknar og rökræðu. Hann er
ekki heldur einn um þær skilvillur, sem hann gerir: ýmsir virtir
fræðimenn hafa gert svipaðar villur. En hitt er líklega harla
óvenjulegt, að heimspekikennari í háskóla beiti mælskubrögðum
í ritgerð, er birtist í eins öldnu og virðulegu tímariti og Skírni, og
kemst ég ekki hjá því að gera þau hér að umtalsefni. Þessi
mælskubrögð eru einkum fólgin í því að líkja frjálshyggjumönn-
um okkar daga við alræðissinna á fjórða tug aldarinnar. Þorsteinn
segir á bls. 176-79, að alræðissinnar á fjórða tug aldarinnar hafi
aðhyllst þrjár meginkenningar: sögulega efnishyggju, vísindatrú
og þýhyggju. Sögulega efnishyggju og vísindatrú þekkja flestir,
en þýhyggju kallar Þorsteinn þá skoðun, að frelsisskerðing sé í
rauninni ekki frelsisskerðing, sé hún framkvæmd í nafni nægilega
göfugs málstaðar. Síðan fullyrðir Þorsteinn, að frjálshyggjumenn
okkar daga deili þessum þremur meginkenningum með alræðis-
sinnum. Þeir aðhyllist sögulega efnishyggju, þar sem þeir trúi því,
að hugmyndir manna ráðist af því hagkerfi, sem þeir búi við. Þeir
séu haldnir vísindatrú, þar sem þeir trúi í blindni á hugmyndir
sínar. Og þeir séu þýhyggjumenn, þar sem þeir telji, að skerða
megi frelsið í nafni séreignarréttar.
Tvennt verðum við að taka fram, áður en við víkjum efnislega
að þessum samanburði. Fyrst er það, að fáir hópar eða flokkar
eru svo ólíkir, að ekki megi finna neitt ættarmót með þeim, ef
menn vilja. Þeir Adolf Hitler og Gylfi Þ. Gíslason kalla sig til
dæmis báðir sósíalista: Hitler kennir sig við þjóðernis-sósíalisma,
Gylfi gengur undir merki lýðræðis-sósíalisma. Annar auðkennir
sig með hakakross, hinn með rauðri rós í krepptum hnefa.70 En
hvað höfum við sannað með slíkum samanburði? Síðan er hitt, að
nokkru máli skiptir, við hverja mönnum er líkt. Með hvaða rök-
um getur Þorsteinn Gylfason líkt friðsömum fræðimönnum, sem
aldrei hafa gert flugu mein, eins og Hayek, Nozick og Friedman,