Skírnir - 01.01.1986, Blaðsíða 386
382
HELGA KRESS
SKÍRNIR
Þuríður Guðmundsdóttir
ÞAÐ SAGÐI MÉR HAUSTIÐ
Skákprent, Reykjavík 1985.
Mamma og Salka litla hennar mömmu voru auðvitað eitt og áttu altaf
að vernda hvor aðra frá öllu iilu einsog þegar hægri höndin verndar
hina vinstri, þær eiga báðar sömu sök. Og hún ætlaði að halla sér uppað
brjósti móður sinnar að nýu. En brjóst móður hennar var horfið. Telp-
an reis uppvið dogg og þreifaði fyrir sér í rúminu við hlið sér, en rúmið
var tómt. Móðir hennar var farin. Stundarkorn horfði telpan útí
myrkrið slegin lömun, og ósjálfrátt mynduðu varir hennar sig til að
kalla: mamma, mamma. En þetta óskiljanlega orð fæddist andvana á
vörum hennar, sem betur fór. Því hver ansar þessu orði ef maður kallar
það útí myrkrið í skelfíngu sinni? Einginn.
Að verða fullorðin er að komast að raun um að maður á ekki móður,
heldur vakir einn í myrkri næturinnar.
(Halldór Laxness, Salka Valka, 7. kafli.)
I
Samkvæmt kenningum bókmenntafræðingsins Juliu Kristevu má í máli
skáldskaparins sjá tilraun mannsins til þess að fylla það tóm eða þá djúpu ein-
semd sem myndast við aðskilnað barnsins frá líkama móðurinnar.* Skáldlegt
mál er annað en almennt mál og það verður til í togstreitunni milli þess sem
Kristeva kallar lögmál móðurinnar og felst í orðlausri frumreynslu snertingar
og tilfinninga og þess samfélagssáttmála - lögmáls föðurins - sem barnið vígist
til og hefur tungumálið á valdi sínu. Þannig sér Kristeva beint samband milli
aðskilnaðarins við móðurina og máltöku barnsins. Þegar samlífið við móður-
ina rofnar grípur barnið til tungumálsins. Tákn þessa aðskilnaðar er orðið
mamma, það fyrsta sem barnið segir, en í því felst jafnt þrá eftir móðurinni
sem viðleitni barnsins til eigin lífs og sjálfsvitundar. Um leið og það er farið að
skilgreina móður sína sem það var áður hluti af, verður barnið til sem einstakl-
ingur og móðirin sem fyrirbæri utan þess. Þetta rofna samlífi snertingar og
hlýju leitast barnið síðan stöðugt við að bæta sér upp úti í hinu kalda samfélagi
og þá fyrst og fremst í ástinni með því að færa það yfir á annan einstakling. En
skortur á ást, segir Kristeva, er einmitt það sem þjakar nútímamanninn og er
orsök að óhamingju hans. Þessi tilfinning skorts er hættuleg samfélaginu og
því meira eða minna ómeðvituð, orðlaus og bæld. Hún verður því ekki sögð
öðruvísi en á máli skáldskaparins, þar sem hún kemur fram í myndum þess,
hrynjandi, brotnum setningum, þversögnum og þögnum. Skáldlegt mál er
þess vegna byltingarkennt að því leyti að það bendir á grundvallarkreppur í
mannlegu samfélagi sem hið almenna mál breiðir yfir og bælir.
*Sjá einkum Julia Kristeva, La Révolution du langage poétique, 1974, Poly-
logue, 1977 og Histoires d’amour, 1983.