Dagblaðið Vísir - DV - 07.11.2014, Side 30

Dagblaðið Vísir - DV - 07.11.2014, Side 30
Helgarblað 7.–10. nóvember 201430 Fólk Viðtal hana víðsýnni. „Auðvitað gera svona ferðalög mann forvitnari, maður sér að það er svo margt annað í tilver- unni en þetta litla svæði hér sem við hrærumst í og teljum vera miðdepill alheimsins. Svo er það þessi mikla einföldun sem við höfum á þessum menn- ingarheimum. Okkur finnst þetta spennandi menningarsamfélög en okkur finnst samt betra ef þau eru eins og okkar. Það er hentugra. Við viljum að þetta sé allt út frá okkar forsendum. Margir eru einsýnir og forstokkaðir í sínum hugmyndum. Og sérstaklega framsóknarmenn. Ég var náttúrlega framsóknarmaður einu sinni en sneri frá villu míns vegar. Eða pabbi – og ég fylgdi á eftir,“ segir hún en bætir við að hún reyni að láta fordóma ekki ergja sig. „En mér finnst leiðinlegt þegar maður finnur fyrir þröngsýni og áhugaleysi um annað en rétt radíus- inn í kring. Við erum gjörn á að setja öll þessi lönd undir sama hatt þótt þar séu við lýði ólíkar hefðir og siðir iðkað- ir á mismunandi máta.“ Trúarbrögð hættuleg „Fólk er hrætt við íslam en samt sem áður er íslam sú trú sem breiðist hraðast út. Hið upprunalega ís- lam er ákaflega falleg trú en getur, eins og dæmin sanna með kristn- ina, snúist á hvolf. Það hafa ansi ljót verk verið unnin í nafni kristninnar í gegn- um tíðina. Þetta eru svo flókin mál,“ segir Jóhanna sem hefur haldið fjölda fyrirlestra um þessa menningarheima bæði í skólum og á vegum ýmissa fé- lagasamtaka. „Það hefur mér fund- ist ákaflega gagn- legt og sérstaklega þegar ég hef fengið tækifæri til að tala við krakka. Þau spyrja stanslaust.“ Aðspurð segist hún aldrei hafa íhugað að taka upp íslam. „Það hefur aldrei hvarflað að mér. Ég er ekki sérstak- lega trúuð mann- eskja í minni kristni en það hefur mér aldrei dottið í hug. En ég ber virðingu fyr- ir íslam eins og fyrir öðrum trúarbrögðum. Trúar- brögð kalla fram það besta og versta í manninum. Þau geta verið hættu- leg.“ Þekkti Arafat og Hussein Jóhanna bjó um árabil í Sýrlandi og ber því einstaklega sterkar taugar til fólksins þar. Hún segir ástandið í landinu nú hryggja sig en nú hefur borgarastyrjöldin staðið í tæp fjögur ár. „Ég er sorgmædd og finn til þegar ég hugsa til vina minna. Sumir eru dánir, aðrir á flótta, enn aðrir týnd- ir. Það sama á við um Írak þar sem ég átti fjölda vina. Þetta er ömurlegt ástand og það ömurlegasta er að það er ekkert sem bendir til þess að eitthvað fari að lagast. Og þótt eitt- hvað gerist í betri átt tæki áratugi að reisa þessi þjóðfélög úr rústunum,“ segir hún og bætir við að framganga Bashar al Assad Sýrlandsforseta hafi komið henni á óvart þegar mótmæl- in hófust árið 2011. „Hann hegðaði sér óskynsamlega. Ég hefði svarið fyrir að hann brygðist svona við eins og hann gerði. Sýrlendingar voru í raun ekkert að móttmæla held- ur bara taka þátt í þessu partíi sem stóð yfir á öllu þessu svæði. Auðvit- að kraumaði ýmislegt undir niðri en þeir voru bara með fundi um allt þar sem lýst var yfir stuðningi við Assad, allt þar til einhver laumaði upp skilti sem á stóð: Assad, farðu að koma þessum umbótum í kring! Það þurfti ekki meira til. Þá var hann mættur með klærnar og kynti sjúklega und- ir þar til allt sprakk,“ segir Jóhanna sem komst í starfi sínu sem blaða- maður ansi nálægt efstu ráðamönn- um í Sýrlandi og hefur að sama skapi átt samskipti við bæði Yasser Arafat og Saddam Hussein og fleiri áhrifa- menn. Hún harðneitar hins vegar að gera mikið úr því. „Ég var hepp- in. Var blaðamaður frá Íslandi, það vakti athygli og veitti ákveðinn að- gang,“ segir hún og játar því að þess- ir menn hafi vitað um tilvist Íslands. „Þetta voru engir hálfvitar. Þeir voru ágætlega að sér í landafræði og Ís- land vakti forvitni. Blaðamaður frá Bandaríkjunum var svo hversdags, það tók því ekki að ræða við hann. Fólk vissi ekki mikið um Ísland en flestir áttuðu sig á því að Ísland væri partur af Norðurlöndunum og Norðurlöndin höfðu gott orð á sér og ekki síst Svíþjóð um fram allt vegna Olafs Palme. Hann var miklu frægari í þessum heimshluta en menn gera sér grein fyrir og það ríkti þjóðar- sorg í mörgum þessara landa þegar hann var myrtur,“ segir Jóhanna og bætir við að henni hafi tekist að ná Gísla Sigurðssyni lækni úr haldi í Írak árið 1990 af því að Ísland hafi þótt spennandi. „Við vorum hluti af heild sem hafði gott orð á sér og það var mark á okkur tekið. Áður en við Gísli fórum frá Bagdad hringdi ég í Saddam Hussein og þakkaði hon- um fyrir að hafa sleppt honum. Ég hef heyrt að fólki finnist þetta skrítið en sjálfri finnst mér það ekki. Þetta minnir mig á þessa litlu stelpu sem kom sér undarlega á framfæri alls staðar án þess að finnast það nokkuð merkilegt,“ segir hún og vitnar þar í nýju bókina sína. Erfitt að vera bjartsýn Hún segist bera þá von í brjósti að þessir tveir menningarheimar, sá sem kenndur er við Vesturlönd og svo hinn íslamski, geti lifað í sátt og samlyndi. „Og ekki bara þessir tveir menningarheimar. Ef mannkynið ætlar ekki að viðurkenna annað en sín eigin trúarbrögð og þolir ekki framandi hefðir getum við aldrei búið í friði á þessari jörð. Fólk þarf að afla sér þekkingar og skilnings og ferðalög eru partur af því. Við þurf- um að læra að það eru ekki allir eins og við verðum að virða hugsanir, skoðanir og lífsmáta annars fólks. Það þýðir ekkert annað en að reyna að vera jákvæður en samtímis verð- ur maður að hafa raunsæja sýn og ég verð að viðurkenna að það er af- skaplega erfitt að vera mjög bjartsýn í augnablikinu.“ Langömmubörnin komin fjær Jóhanna á fjögur börn, ellefu ömmu- börn og sjö langömmubörn en hún var ekki nema 56 ára þegar hún var orðin langamma. „Mér finnst þessir afkomendur afskaplega skemmileg- ir. Barnabörnin eru áhugasöm um að fræðast um gamla tíma og ef þau eru það ekki hef ég troðið því upp á þau. Ég var áreiðanlega ekki nógu dugleg að spyrja foreldra mína um þeirra bernsku og þess vegna hef ég reynt að koma þessu inn hjá mínum barnabörnum. Flest ömmubörnin hafa farið með mér í eitthverja af þessum ferðum og hafa vonandi fengið fyrir vikið nýja sýn og reynslu. Það hefur verið mjög gaman að hafa þau með.“ Aðspurð segir hún sam- bandið við langömmubörnin af öðr- um toga. „Þau eru komin lengra í burtu, eiga svo margt fólk sem er þeim nær, margar ömmur og afa. Maður kynnist þeim á annan hátt en ömmubörnunum. En auðvitað er það misjafnt eftir aðstæðum og einstaklingum. Mér finnst óskaplega spennandi að spá í þetta fólk, karakt- erana, reikna það út og velta fyrir mér. Þau eru gerð úr svo mörgu, það eru ekki bara tveir einstak- lingar sem standa að þeim held- ur óramargar kynslóðir sem hafa lagt þarna í púkk. Svo er misjafnt hvað maður á sameiginlegt með þessu fólki.“ Glöð en grautfúl á milli Hún segist að sama skapi eiga í góðu sambandi við börnin sín sem séu hennar helsta stuðn- ingsfólk. „Þau leggja oft hönd á plóg ef mér dettur í hug að gera eitthvað eða ferðast eitthvert. Það er afskaplega mikils virði. Þau hafa alltaf staðið voðalega mik- ið með mér og fyrir það er ég þakklát. Það er ekkert sjálfgef- ið. Þau skilja þessa ákveðnu æð í mér gagnvart þessum heimi, múslímaheimi, þótt þau hafi ekkert endilega komið þarna, fyrr en löngu seinna. Ég er einstaklega heppin með það hvað krakkarnir og barnabörnin hafa sýnt mér mikinn skilning og um- burðarlyndi. Það er margt sem mað- ur getur verið glaður yfir og ég er það – þótt ég sé grautfúl inn á milli. Mér finnst ég bara hafa lifað frekar skemmtilegu lífi og verið heppin með mjög margt og oft ver- ið heppin að vera á réttum stað á réttri stundu fyrir tilviljun. Maður býr að uppeldinu og að mínu mati getur maður aldrei gert nógu mik- ið úr uppeldi sínu; að eiga þetta fólk sem að mér stendur, ég fann þegar ég skrifaði þessa bók hvað ég er af- skaplega rík manneskja. Allt þetta fólk var örlátt við mig á svo margan hátt, þótt maður væri ekki alltaf dús við foreldra sína. Það var ekki alltaf allt í ljóma og smjöri. Maður var að heyja sína lífsbaráttu og allt það. En ég er engin alsæl manneskja, mað- ur á sínar stundir þar sem maður er að kljást við allt mögulegt. En það er bara lífið, partur af programmet.“ Frekar Íran en Frakkland Þrátt fyrir að vera orðin 74 ára hefur Jóhanna enn jafn gaman af ferðalög- um og vonast til þess að geta haldið áfram eins lengi og guð lofar. „Ég er þreytt svona rétt eftir að ég kem heim, á meðan sálin er að komast aft- ur heim. Sálin ferðast ekki eins hratt og líkaminn og fyrstu dagana eft- ir ferðalag er ég með hnút í magan- um og tómleikatilfinningu. Ég þarf nokkra daga til að jafna mig á því,“ segir hún og bætir aðspurð við að það sé lítið mál að vera kona á þess- um aldri í þessum menningarsamfé- lögum. „Ef eitthvað er býst ég við að ég njóti meiri virðingar nú en áður. Það er mun auðveldara að ferðast um múslímalönd 67 ára en 24 ára. Aldri fylgir virðing í þessum löndum, það er mjög áberandi. Það hjálpar að vera eldri kona.“ Hún segist ekki eiga sér neitt draumaland sem hún eigi eftir að heimsækja. „Ég hef heimsótt svo mörg lönd og farið óskaplega oft til sömu landanna að það væri dálítil tilætlunarsemi ef ég færi að þylja upp þau lönd sem ég þarf nauðsyn- lega að heimsækja. Annars á ég eft- ir alla Suður-Ameríku en mig langar ekkert þangað. Kannski pínu til Chile. Ég myndi miklu frekar fara enn einu sinni til Írans en til Frakk- lands en þangað hef ég aldrei kom- ið. Ég hugsaði alltaf með mér að ég færi með eldri borgurum í rútuferð um Evrópu þegar ég yrði fullorðin en hingað til hef ég ekki haft tíma í það. Ég hef frekar valið þessi fram- andi lönd. Enda, þegar maður hefur farið 14 eða 15 sinnum til Írans getur maður afþakkað slíkt, sagt nei takk, þetta er orðið ágætt.“ Krabbamein ógnvænlegt orð Lífshlaup Jóhönnu minnir helst á ævin týri og þyrfti mörg viðtöl til að gera því þokkaleg skil. Sjálf hefur hún tekið kafla og kafla og gefið út í bókar- formi en enn er af nógu að taka. Þessa dagana fer mestöll orka hennar í að ná heilsunni sem hún býst fastlega við að muni takast. Og ítrekar að þrátt fyrir veikindin sé hún heppin. „Þetta kom upp frekar skyndilega en meinið hafði búið um sig í einhvern tíma,“ segir hún en neitar að hafa orðið smeyk þegar hún fékk greininguna. „Auðvitað er þetta ógnvænlegt orð, krabbamein, en ég varð ekki beint hrædd. Mér hnykkti við en ég fékk ekkert kast af tryllingi eða skelfingu,“ segir hún og hváir þegar hún er innt eftir því hvort þetta verði ekki til þess að hún hætti að reykja. „Mínar reyk- ingar eru nú bara mitt einkamál,“ segir hún snöggt en bætir svo við: „Ég býst við að veikindin hafi einhver áhrif en hvort ég hætti alveg veit ég ekki. Auð- vitað þyrfti ég að gera það.“ Jóhanna lætur engan bilbug á sér finna og ótt- ast ekki að veikindin muni taka sig upp aftur. „Ég reikna með að það hafi náðst fyrir þetta, að allur óþverri sé bú- inn. Ég einbeiti mér að því að líta svo á að þetta hafi tekist og vonast til að verða góð. Þetta var heilmikil skurðað- gerð og ekki skrítið að það taki nokkra mánuði að jafna sig. En ég þarf ekki að fara í lyfja- eða geislameðferð. Þetta er eins gott og það getur verið fyrst það þurfti að gerast. Ég er mjög heppin að þetta skyldi fara vel.“ n „Auðvitað er þetta ógnvænlegt orð, krabbamein, en ég varð ekki beint hrædd. Elskar Íran Jóhanna myndi frekar fara enn einu sinni til Írans en til Frakklands en þangað hefur hún aldrei komið. Mynd SiGTryGGur Ari Með pabba Jóhanna og Bragi með föður sínum. Mynd Úr EinKASAFni Systkinin Jóhanna 15 ára, Bragi bróðir hennar 17 og Valgerður litla systir þeirra 10 ára. Myndin var jólagjöf til foreldra þeirra árið 1955. Mynd Úr EinKASAFni

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.