Tölvumál - 01.10.2013, Side 11
fjármagn til að þýða notendaviðmótið yfir á íslensku til þess að það sé
yfir höfuð nothæft.
punkTaleTur
Punktaletursskjár er mjög góð lausn fyrir albindan tölvunotanda.
Skjárinn gefur frelsi til að lesa og skrifa á tölvuna án þess að þurfa alltaf
að hlusta og vera bundinn við talgervil. Þá er til að mynda hægt að
hlusta á eitthvað annað á meðan unnið er við tölvuna, eða jafnvel notast
við hvoru tveggja, t.d. yfirlestri eða öðru slíku.
Skjárinn er á stærð við lítið lyklaborð með punktaletursrönd yfir hann
þveran, á henni er hægt að lesa það svæði sem virkt er á tölvunni. Þar
að auki er einfalt lyklaborð og stýritakkar sem gera notanda kleift að fara
um forritin. Þessi tækni er í mikilli þróun, hún er dýr í framleiðslu vegna
þess hversu vandaðar punkta leturs sellurnar þurfa að vera til þess að
standast álag frá daglegri notkun en tæknin er það vönduð að fyrir
vanan punktaleturs notanda gefur hún algjört aðgengi að vélinni og
eykur ekki álagið á vélina á sama hátt og t.d. stækkunarforrit. Þessi
tækni þarf líka umbúnað og þar eru notuð forrit eins og SuperNova,
JAWS og NVDA. Mjög spennandi er að fylgjast með allri þróun varðandi
snjallsíma og litla punktaleturskjái, sem gera notanda kleift að senda
smáskilaboð og fara á netið í símanum án þess að hann sé síblaðrandi
og er óháð tungumáli. Þar að auki er mikil þróun í Notetakers, sem eru
í raun skjálausar fartölvur sem hafa punktaleturskjá í stað venjulegs
skjás, þannig þarf blindur notandi ekki að burðast með tækni sem hann
notar ekki og allt viðmótið er hugsað út frá punktaletursskjám.
epli og appelSínur
Eins og áður sagði tók aðgengismál blindra og sjónskertra
stökkbreytingu eftir að félagarnir í Epli komu til. Ákvörðun þeirra um
aðgengi sem innbyggðan hluta af öllum vörum frá Apple hefur haft
ótrúleg áhrif á allan aðgengismarkaðinn og æ fleiri almennir
framleiðendur sjá nú sóma sinn í því að bjóða upp á aðgengi sem
sjálfsagðan hluta af stýrikerfum. Bæði nýja Android kerfið og Windows
8 eru kynnt með loforðum um gott aðgengi. Sú loforð standast
hinsvegar ekki við nánari athugun, eru bæði flókin og sein í notkun eins
og Windows Narrator og hjá Android vantar enn möguleikann á að nota
stækkun á heimaskjá, svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir virðingarverðar
tilraunir virðast þessar lausnir enn flækjast fyrir fyrirtækjunum. Hins
vegar eru íslenskir notendur ekki nógu vel settir með Apple sem hafa
ekki ennþá sett íslenska rödd inn í talgervilinn sinn þrátt fyrir að státa af
nánast öllum öðrum tungumálum í veröldinni. Einnig er óvíst með
íslenskar viðmótsþýðingar og það er deginum ljósara að markaðurinn
getur ekki sjálfur staðið undir því verkefni að tryggja framtíð íslenskrar
tungu í rafrænum heimi. Það er því löngu tímabært að mennta- og
menningarmálaráðuneytið komi að þessum málum með styrkjum,
stöðlum og íð-orðavinnu. Þetta snýst bæði um aðgengi og verndun
íslenskrar tungu, en bæði verkefnin eru á ábyrgð ráðuneytisins.
SérTæk eða almenn úrræði
Það er metnaður og draumur fatlaðra að aðgengislausnir verði eðlilegur
hluti af almennu vöruúrvali. Það er miklu skemmtilegra að geta keypt
sömu flottu græjur og allir aðrir og þurfa ekki endalaust að burðast með
sérhannað dót sem oft er hannað eftir þeirri stefnu sem Wolfgang Baum
kallar „FischerPrice-isme“. Það er hinsvegar augljóst eins og þróunin er
í dag að það er betra að hafa líka aðgengi að framleiðendum. Þegar
upp koma samhæfingarvandamál og allt fer i klessu er nauðsynlegt að
geta snúið sér að framleið andanum, sérstaklega fyrir fatlaða sem hafa
takmarkaða möguleika til þess að vinna án tölvu. Reynslan sýnir
hinsvegar að stóru fyrirtækin, jafnvel þau sem eru þekkt fyrir gott
notendaviðmót í vörum sínum, hafa lítil samskipti við notendur í
veruleikanum. Það eru endalausar herferðir á netinu þar sem menn eru
að reyna að fá Microsoft til að breyta þessu eða Apple til að breyta hinu.
Svoleiðis herferðir eru upp á von og óvon, eins og sést með ítrekaðar
tilraunir til þess að fá íslenska rödd í Apple vörurnar. Þegar kemur að
sértækum lausnum eru framleiðendur allt öðruvísi í viðmóti og þar geta
notendur fengið úrlausn og ábendingar sem geta skipt sköpum
varðandi atvinnuþátttöku og lífsgæði almennt. Þetta er því ekki eins
einfalt og það virðist og þó að það beri að fagna almennum lausnum þá
fylgir einnig kvíði fyrir þeirri framtíð þar sem aðgengisþarfir einstaklingaeru
jafn mikilvægar og óskir þeirra sem vilja fá gamla Solitare kapalinn inn í
Windows 8, eða eitthvað álíka.
ólíkindaTól
Með tölvu við hönd geta blindri og sjónskertir leyst úr flestu sem snertir
vinnu þeirra og tómstundalíf. Þeir geta náð sér í afþreyingu og jafnvel
pantað mat, það er í raun bara buddan og ímyndunaraflið sem setja
mörkin. Hins vegar er stærsti hluti þeirra sem missa sjón eldri en 67 og
þau vandamál sem sá hópur stríðir við er almennt tölvulæsi. Það er
vandamál langt út fyrir raðir blindra og sjónskertra. Tæknin er orðin svo
fáguð og væntingarnar svo miklar en á sama tíma er stór hluti fólksins í
landinu sem á í erfiðleikum með einföldustu aðgerðir. Fólk upplifir að
það verði erfiðara að lifa án tölvu en það á einnig erfitt með að kynna sér
tæknina. Þannig verður það kunnátta einstaklingsins sem takmarkar
aðgengi miklu frekar en tæknin sjálf.