Tölvumál - 01.10.2013, Side 21
21
greiðSlur með biTcoin
Þegar greiðsla er framkvæmd er hún undirrituð með einkalykli
auðkennisins. Forrit greiðandans sendir þá upplýsingar um greiðsluna til
jafningjanetsins sem allir notendur Bitcoin deila. Á jafningjanetinu safna
síðan ákveðnir þjónar mörgum greiðslum í blokkir. Greiðslur í hverri
blokk eru yfirfarnar, athugað hvort þær séu fullgildar og síðan staðfestar.
Þegar nógu margir þjónar (yfirleitt 6) hafa staðfest greiðsluna getur
móttakandinn litið svo á að greiðslan hafi átt sér stað.
Til að staðfesta blokk þarf tölva að eyða umtalsverðu reikniafli í að leysa
„erfitt„ stærðfræðilegt vandamál . Sem hvati til að eyða tölvuafli í þessa
staðfestingu er hver lausn á blokk verðlaunuð með 25 BTC. Til viðbótar
getur greiðandinn einnig tilgreint hversu mikið hann vill borga í
færslugjöld. Þannig fær tölvan sem leysir stærðfræði vandamál blokkir
með tilteknum greiðslum einnig færslugjöld þessara greiðslna. Þessi
færslugjöld virka því sem hvati til að innihalda greiðsluna í blokk og
þannig greiðslur verða staðfestar fyrr en aðrar.
Eitt atriði sem aðgreinir Bitcoin greiðslur frá t.d. greiðslum með
hefðbundnum greiðslukortum er endanleiki greiðslnanna. Ef korthafi
hefðbundins greiðslukorts greiðir fyrir einhverja vöru eða þjónustu sem
síðar kemur í ljós að var gölluð eða um svik að ræða er oft hægt að
afturkalla greiðsluna með atbeina kortafyrirtækisins. Þar sem Bitcoin er
ekki með neitt miðlægt yfirvald er ekki um neitt slíkt að ræða. Þegar
greiðsla hefur verið gerð frá einu auðkenni til annars er ekkert sem getur
afturkallað hana. Að sjálfsögðu getur viðtakandi greiðslunnar endurgreitt
greiðandanum en það gerist bara með fullu samþykki. Þannig líkist
Bitcoin sem greiðslumáti frekar reiðufé heldur en greiðslukortum.
Sambærilegir dulmiðlar
Í kjölfar Bitcoin hafa nokkrar aðrar tegundir rafrænna gjaldmiðla komið
fram byggðar á sömu hugmyndum og Bitcoin. Þessi tegund gjaldmiðla
hefur verið kölluð „cryptocurrency„ á ensku þar sem dulkóðun er
lykiltæknin þar á bakvið (e.t.v. mætti þýða þetta með smá
orðaendurvinnslu og kalla „dulmiðill„). Litecoin er staðall sem þróaðist
frá Bitcoin staðlinum þar sem ákveðin tæknileg atriði voru endurskoðuð.
Annar slíkur staðall er Namecoin sem ekki var beinlínis ætlað að vera
gjaldmiðill heldur að koma á lénanafna-skipulagi án miðstýrðs yfirvalds.
Í þeim tilgangi hefur verkefnið yfir að ráða grunnléninu .bit og hafa
tæplega 80.000 þannig lén verið skráð. Einnig má nefna PPCoin (Peer-
to-peer Coin) sem hefur þá sérstöðu að inn í gjaldmiðilinn er af ásettu
ráði innbyggð u.þ.b. 1% verðbólga á ári.
markaður með biTcoin
Í dag eru þó nokkrir opnir markaðir þar sem hægt er að kaupa og selja
BTC fyrir hefðbundna gjaldmiðla. Þegar þetta er skrifað er gengi BTC á
þessum mörkuðum u.þ.b. 1 BTC = 140 USD. Gengið hefur sveiflast
mikið, í upphafi þ.e. byrjun árs 2009 var það 1 BTC = u.þ.b. 10 USD.
Hæst hefur það farið í 1 BTC = 230 USD í apríl á þessu ári. Verðin eru
eðli málsins samkvæmt fljótandi og raunar mismunandi milli markaða. Í
dag hafa 11,6 milljón BTC verið búin til sem m.v. ofangreint gengi gerir
1,6 milljarð USD eða rétt tæplega 200 milljarða króna.
Fyrir þá sem hafa misst trú á fjármálakerfi byggðu á hefðbundnum
gjaldmiðlum hljómar BTC sem himnasending. Gengisfellingar,
gjaldeyrishöft eða önnur inngrip stjórnvalda í hagkerfið eru ekki möguleg
í því kerfi. Seðlabankar, bankar og fjármálastofnanir hafa í þannig kerfi
ekki einkarétt á að búa til nýtt fjármagn. Þá er stjórn fjármagnsflutninga
yfir landamæri illmöguleg og eftirlit frekar erfitt í framkvæmd. Það er
síðan allt önnur spurning hvort þannig kerfi sé jákvætt eða neikvætt
samfélagslega, hagfræðilega eða pólitískt séð.
Þegar upp er staðið hlýtur framtíð gjaldmiðils eins og Bitcoin að snúast
um traust. Þ.e. um það hvort einhverjir treysti gjaldmiðlinum nógu mikið
til að taka við honum sem greiðslu og nota áfram. Hinir virku markaðir
með BTC benda til þess að töluverður hópur fólks ber þannig traust til
hans í dag. Hins vegar verður tíminn að leiða í ljós hvort um er að ræða
bólu eða bjarta framtíð.
1 Vandamálið sem um ræðir felst í því að í gefinni 80 bæta blokk þarf að finna gildi á 4 þeirra bæta þannig að SHA-256 hakk gildi blokkarinnar sé undir ákveðnu
markgildi. Þetta tekur yfirleitt dágóða stund.
Til þess að stýra erfiðleika þessa verkefnis er markgildinu reglulega breytt þannig að það taki að meðaltali 10 mínútur fyrir jafningjanetið í heild að búa til nýja
blokk. Breytingin er byggð á fyrirfram skilgreindri reglu í BTC staðlinum, ekki er um neina miðstýringu að ræða. Þetta fer þannig fram að eftir 2016 blokkir er
reiknað út hvert markgildið þyrfti að vera til að hver blokk taki að meðaltali 10 mínútur.