Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Blaðsíða 55
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 87. árg. 2011 51
Ritrýnd fræðigrein
SCIENTIFIC PAPER
Af ofangreindu má sjá að skurðsjúklingar hafa yfirgripsmiklar
fræðsluþarfir og að uppfylling þeirra þarfa hefur jákvæð
áhrif á líðan og afkomu auk fjárhagslegs ávinnings. Athygli
vekja því rannsóknir sem sýna að skurðsjúklingar virðast oft
ekki fá viðhlítandi fræðslu (Suhonen og Leino-Kilpi, 2006;
Williams, 2008) og það þrátt fyrir lagalegan rétt sjúklinga. Lítið
er vitað um þessi mál meðal skurðsjúklinga á Íslandi. Tvær
íslenskar rannsóknir á fræðslu skurðsjúklinga fundust við leit
í Rannsóknargagnasafni Íslands og Gegni (Hafdís Skúladóttir,
2007; Þórgunnur Jóhannsdóttir og Margrét M. Arnardóttir,
2005). Úrtök rannsóknanna voru fremur lítil en niðurstöður
beggja benda til að bæta megi sjúklingafræðslu hér á landi.
Mikilvægt er að afla frekari upplýsinga um stöðu mála hérlendis
og skoða hversu ánægðir skurðsjúklingar eru með þá fræðslu
sem þeir fá svo hægt sé að ráðast í nauðsynlegar úrbætur.
Tilgangur rannsóknar
Megintilgangur þessarar lýsandi panelrannsóknar, þar sem
sami hópur þátttakenda svaraði spurningalistum á ákveðnum
tímapunktum í aðgerðarferlinu, var að lýsa fræðslu sem
skurðsjúklingar á Landspítala segjast fá meðan þeir liggja á
sjúkrahúsi og heima fjórum vikum síðar og meta hvað hefur
áhrif á ánægju þeirra með fræðsluna. Leitast var við að svara
eftirfarandi rannsóknaspurningum:
1. Hvernig er fræðslu til skurðsjúklinga á Landspítala háttað?
2. Hvaða þættir fræðslu til skurðsjúklinga á Landspítala hefðu
mátt vera betri að mati sjúklinganna?
3. Hversu ánægðir eru skurðsjúklingar á Landspítala með þá
fræðslu sem þeir fá?
4. Hvert er samband ánægju sjúklinga með fræðslu fyrir
aðgerð við a) tegund aðgerðar; b) fræðslu sem þeir fengu
fyrir aðgerð; c) kvíða og þunglyndi á spítalanum; d) verki
fyrir aðgerð og á spítalanum; e) einkenni fyrir aðgerð; f)
aðdraganda sjúkrahúsvistar og sjúkrahúsdvöl; g) heilsufar;
h) bakgrunn; i) ánægju með umönnun á spítalanum og
ánægju með stuðning vina og ættingja.
5. Hvert er samband ánægju sjúklinga með fræðslu, sem þeir
fengu á spítalanum um ferlið eftir að heim væri komið, við
a) tegund aðgerðar; b) tíma frá aðgerð; c) fræðslu sem
þeir fengu á spítalanum og fyrir heimferð; d) einkenni kvíða
og þunglyndis á spítala og heima; e) verki heima og á
spítala; f) einkenni heima og fyrir aðgerð; g) aðdraganda
sjúkrahúsvistar og sjúkrahúsdvöl; h) heilsufar og árangur
aðgerðar; i) bakgrunn; j) ánægju með umönnun á spítalanum
og ánægju með stuðning vina og ættingja.
AÐFERÐAFRÆÐI
Þýði og úrtak
Þýðið var sjúklingar innkallaðir á skurðdeildir Landspítala á
tímabilinu 15. janúar til 15. júlí 2007 til aðgerðar á brjóstholi
(hjarta, lungum), þvagfærum (nýrum, blöðruhálskirtli),
meltingarfærum (ristli, gallblöðru, þindarsliti), brjóstum
(brjóstauppbygging/minnkun), vegna aðgerðar á hrygg, eða
til hné- eða mjaðmaskipta. Úrtakið takmarkaðist við þá sem
gátu lesið og skilið íslensku, dvöldu á sjúkrahúsi að minnsta
kosti í sólarhring eftir aðgerð, og voru metnir andlega hæfir til
þátttöku af hjúkrunarfræðingi.
Á rannsóknatímanum fóru 845 sjúklingar í aðgerð. Af
þeim náðist ekki í 50 sjúklinga og 62 uppfylltu ekki skilyrði
rannsóknarinnar. Ástæða þess að hjúkrunarfræðingar á
deildinni mátu sjúklingana ekki hæfa til þátttöku var oftast aldur
þeirra eða sjúkdómsástand. Í mörgum tilvikum var um að ræða
mjög fullorðið fólk sem heyrði eða sá mjög illa eða var svo veikt
að ekki var talið ráðlegt að æskja þátttöku þess.
Mælitæki
Gagna var aflað með tveim spurningalistum, annar var lagður
fyrir á sjúkrahúsinu (spítalalisti) og hinn heima (heimalisti).
Spurt var um einkenni kvíða og þunglyndis, almenn einkenni,
sjúklingafræðslu, ánægju með meðferð, þætti tengda sjúkdómi
og aðgerðarferli, ástand heima fyrir og bakgrunnsspurningar.
Listarnir voru frábrugðnir að því leyti að á spítalanum var spurt
um þætti tengda sjúkdómi og aðgerðarferli, ástand heima fyrir
og bakgrunn og heima var ítarlega spurt um þætti varðandi
spítaladvöl, árangur aðgerðar, svefn og svefnvenjur (sjá frekari
skýringar síðar). Í báðum listunum í þessari rannsókn var
matstækið the Hospital Anxiety and Depression Scale (HADS)
auk þess sem verkjaspurningar byggjast á American Pain
Society (1995). Síðari listinn innihélt jafnframt spurningar um
svefn unnar af Bryndísi Benediktsdóttur o.fl. (2000). Að öðru
leyti voru spurningar samdar af reyndum hjúkrunarfræðingum
starfandi á skurðdeildum Landspítala og höfundum.
Ánægja með fræðslu. Ein spurning laut að ánægju með fræðslu
veitta fyrir aðgerð og önnur ánægju með fræðslu um ferlið eftir
að heim var komið. Á spítalanum var spurt hversu ánægður
eða óánægður sjúklingurinn hefði verið með fræðslu sem hann
fékk fyrir aðgerð. Heima var spurt um ánægju og óánægju með
fræðslu sem viðkomandi fékk á sjúkrahúsinu um ferlið eftir að
heim var komið. Svarmöguleikar lágu á bilinu 1 til 5 þar sem 1
þýddi mjög ánægður og 5 mjög óánægður.
Fræðsla. Til að meta í hverju fræðsla til skurðsjúklinga felst var
á spítalanum spurt hvort sjúklingar hefðu fengið upplýsingar
um 17 atriði fyrir aðgerðina og heima var spurt um hvort þeir
hefðu fengið fræðslu um 23 atriði á spítalanum eða við útskrift.
Þátttakendur í þessari rannsókn fóru í mismunandi tegundir
aðgerða og ljóst þótti að áhersla í fræðslu væri mismunandi
eftir sjúklingahópum. Því var ákveðið að áhersla skyldi lögð á
að afla upplýsinga um atriði tengd almennri fræðslu til sjúklinga
sem fara í skurðaðgerð. Hópur hjúkrunarfræðinga, sem starfa á
mismunandi deildum skurðsviðs Landspítala, valdi í samvinnu
við rannsakendur þessi atriði. Atriðin eru ekki talin upp hér en
snúa að fræðslu um verki og verkjameðferð, hreyfingu, svefn,
útskilnað, aðgerðina, aðdraganda að aðgerð, afturbatann og
daglegt líf. Athugað var innra samræmi í svörum sjúklinganna
við atriðunum 17 sem spurt var um fyrir aðgerð og þeirra 23
sem spurt var um heima. Innra samræmið var vel viðunandi
(Chronbachs-alfa fyrir 17 atriði 0,890 og fyrir atriðin 23
0,941) og voru því útbúnar tvær breytur sem notaðar eru
við greininguna Upplýsingar fyrir aðgerð og Upplýsingar á
spítalanum og við útskrift. Áður en ákveðið var að útbúa þessar
tvær breytur voru atriðalistarnir tveir þáttagreindir, auk þess
að atriðum var raðað saman út frá efnislegum sambærileika