Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2011, Blaðsíða 56
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 87. árg. 201152
þeirra. Ekki náðust viðunandi niðurstöður úr þeim aðgerðum.
Til að meta hvort fræðsla um ákveðin atriði hefði mátt vera betri
voru sjúklingarnir á spítalanum og heima beðnir um að merkja
við atriði sem þeir hefðu viljað fá betri upplýsingar um.
Á spítalanum og heima var spurt hver veitti fræðsluna
(hjúkrunarfræðingur, læknir, sjúkraþjálfari, næringarráðgjafi,
sjúkraliði, annar) og var á spítalanum spurt hversu gagnleg
fræðslan fyrir aðgerð hefði verið (1=mjög gagnleg, 2=frekar
gagnleg, 3=hvorki né, 4=lítið gagnleg, 5=gagnaðist ekki). Heima
var spurt hvort viðkomandi hefði fengið skriflegt fræðsluefni
með sér heim af sjúkrahúsinu um eftirmeðferð (já/nei) og um
gagnsemi þess (1=mjög gagnlegt, 5=gagnaðist ekki). Að lokum
var spurt á hvaða formi fræðslan hefði verið og hvort viðkomandi
hefði leitað annað en til heilbrigðisstarfsfólks um upplýsingar.
Kvíði og þunglyndi. Til að mæla kvíða og þunglyndi var notað
matstækið the Hospital Anxiety and Depression Scale (HADS)
en það skiptist í sjö fullyrðingar sem lýsa einkennum kvíða og
sjö fullyrðingar sem lýsa einkennum þunglyndis. Þátttakendur
eru beðnir um svar sem lýsir líðan þeirra síðastliðna viku út frá
fjórum svarmöguleikum og eru heildargildi hvors hluta á bilinu
0-21 (Herrmann, 1997; Snaith, 2003). Fleiri stig á kvarðanum
benda til fleiri einkenna þunglyndis/kvíða. Innra samræmi svara
(Chronbachs-alfa) við kvíðahlutanum var 0,89 á spítala en
0,87 þegar heim var komið og í þunglyndishlutanum 0,80 á
spítalanum en 0,81 heima.
Verkir og önnur einkenni. Á spítalanum og heima var spurt um
styrk verkja síðastliðna sólarhringa, hafi verkir verið til staðar,
og styrk núverandi verkja á tölukvarða frá 0-10 (0=enginn
verkur; 10=verkur gæti ekki verið verri). Tölukvarðasvörin tvö á
spítalanum annars vegar og heima hins vegar voru sameinuð
í sitt hvora breytuna sem kallast spítalasársauki (Chronbachs-
alfa=0,727) og heimasársauki (Chronbachs-alfa=0,874). Spurt
var hvort 12 önnur einkenni hefðu valdið vanlíðan annars vegar
síðastliðna 7 daga fyrir innlögn og hins vegar í vikunni áður
en heimalistanum var svarað. Einkennin voru valin á listann
á sambærilegan máta og ákveðið var hvaða upplýsinga var
aflað um fræðslu fyrir aðgerð og við útskrift. Jafnframt var
einkennalistinn þáttagreindur og einkennum raðað saman
efnislega en ekki fengust nógu góðar niðurstöður. Bestu
niðurstöður fengust með því að útbúa tvær breytur, aðra úr
einkennum á spítala, heildareinkenni á spítala (Chronbachs-alfa
=0,743) og hina úr einkennum heima heildareinkenni heima
(Chronbachs-alfa=0,702).
Aðdragandi sjúkrahúsvistar og sjúkrahúsdvöl. Spurt var hvort
sjúklingur hefði verið á biðlista eftir aðgerð (já/nei), hvort fresta
hefði þurft aðgerð (já/nei), hvort bið hefði verið eftir aðgerð á
aðgerðardegi (já/nei, veit ekki), hvort sjúklingi hefði verið sagt af
hugsanlegri bið (já/nei) og fjölda daga á sjúkrahúsi eftir aðgerð.
Heilsufar og árangur aðgerða. Leitað var upplýsinga um hvort
sjúklingur hefði hafið vinnu að nýju (já/nei/á ekki við), hversu
vel hann hefði náð sér (mjög vel, vel, sæmilega, illa, mjög illa),
hvort aðgerðin hefði borið þann árangur sem búist var við (já/
nei), hvort batinn væri í samræmi við væntingar fyrir aðgerð (já/
nei) og hvernig heilsan hefði verið áður en sjúklingur greindist
með núverandi sjúkdóm. Svarmöguleikar voru fimm, frá mjög
góð til mjög slæm.
Ánægja með umönnun og stuðning vina og ættingja. Á
spítalanum og heima var spurt um hversu ánægður sjúklingur
var með stuðning vina og/eða ættingja frá því sjúkdómur, sem
leiddi til aðgerðar, greindist og um ánægju með umönnun
sem sjúklingur fékk á spítala í tengslum við sjúkdóminn.
Svarmöguleikar voru fimm, frá mjög ánægður til mjög óánægður.
Bakgrunnsspurningar
Spurt var um hjúskaparstöðu, börn undir 18 ára aldri á
heimilinu, kyn, aldur, búsetu, hvort einhver annar á heimilinu
ætti við veikindi að stríða eða þyrfti aðstoð við dagleg verk.
Forprófun fór fram á 5 skurðdeildum og tóku 12 skurðsjúklingar
þátt. 5 þessara 12 sjúklinga svöruðu líka heimalista enda um
sjúklinga að ræða sem höfðu áður farið í aðgerð og þekktu ferlið
heima. Að auki var heimalistinn lagður fyrir 4 eldri einstaklinga
sem rannsakendur þekktu til og höfðu tiltölulega nýlega farið
í aðgerð og höfðu því innsæi í bataferlið heima. Nokkrar
athugasemdir komu fram og var listinn endurskoðaður út frá
þeim. Það tekur um það bil 20 mínútur að svara hvorum lista.
Framkvæmd og gagnasöfnun
Á innskriftarmiðstöð Landspítala var sjúklingi greint
frá rannsókninni og hann spurður hvort starfsmaður
rannsóknarinnar mætti hafa samband við hann á sjúkradeild.
Að fengnu samþykki var haft samband við sjúkling á deild,
rannsóknin kynnt, honum afhentur spítalalistinn og beðinn
um að svara honum fyrir útskrift af sjúkrahúsinu. Sjúklingar
voru beðnir að svara listanum sex vikum eftir útskrift en þeir
réðu því hvort þeir fengju hann afhentan við útskrift eða fengju
hann póstsendan sex vikum síðar. Hringt var í alla sjúklinga,
jafnt þá sem tóku listann með sér heim af spítalanum og hina
sem fengu hann sendan í pósti, og þeir minntir á að senda
inn listann. Í stöku tilfellum var hringt tvívegis í sjúklinga.
Samkvæmt framangreindu var ætlunin sú að sjúklingarnir
svöruðu seinni listanum sex vikum eftir útskrift. Raunin varð
hins vegar sú að hluti þeirra sem tóku listann með sér heim
svaraði honum fyrr en til stóð. Rannsakendur tóku þá ákvörðun
að greina einvörðungu þá lista sem svarað var að lágmarki
fjórum vikum frá útskrift.
Siðanefnd Landspítala veitti heimild fyrir rannsókninni (nr.
13/2006) svo og lækninga- og hjúkrunarforstjórar spítalans.
Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar (nr. S2969/2006).
Tölfræðileg úrvinnsla
Tölfræðiúrvinnsla fór fram með tölfræðiforritinu Statistical
Package for the Social Sciences (SPSS), 17. útgáfu. Notuð er
lýsandi tölfræði til að lýsa rannsóknaspurningum eitt til þrjú og
einhliða dreifigreining og kíkvaðratpróf til að svara spurningum
4 og 5. Notað var Bonferroni-próf til að greina marktækni
milli hópa ef einhliða dreifigreining sýndi marktækan mun.