Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 6. ÁRG. 2006 Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum að kosið verður til Alþingis í vor. Alþingi Íslendinga var sett 2. október sl. og stefnuræða forsætisráðherra flutt degi síðar með venjubundnum hætti og hefðbundnu karpi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Strax þá mátti greina ýmis merki þess að kosningar væru í vændum. Síður dagblaðanna bera þess og merki að prófkjör flokka séu framundan og sannanlega má merkja að þau geti orðið spenn- andi, ekki síst vegna þess hve margir sitjandi þingmenn hafa tilkynnt að þeir hyggist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Vissulega er mikilvægt að fá sem flesta hæfa einstaklinga til að gefa kost á sér, en ekki er síður mikilvægt að þeir sem bjóða sig fram gefi skýrt upp fyrir hvað þeir standa og standi svo við hugsjónir sínar eftir að þeir hafa náð kjöri en láti flokksaga ekki bera þær ofurliði eins og allt of algengt er. Það er hlutverk kjósenda að fylgjast með því sem frambjóð- endur hafa fram að færa en ekki síður að fylgja því eftir að þeir standi við loforð sín. Ekki má heldur gleyma að spyrja áleitinna spurninga þegar stjórnvöld grípa til þess strax eftir kosningar að hrinda í framkvæmd hlutum sem enginn hefur þorað að nefna í aðdraganda kosninga, samanber nýlega stofnun sérstaks Leikskólaráðs í Reykjavík. Ég lít svo á að stjórnmálamenn eigi að fylgja stefnuskrá sinni eftir að loknum kosningum og bregðast við óvæntum utanaðkomandi aðstæðum en ekki hrinda gæluverkefnum í framkvæmd í skjóli þess að ákvörðunin sé tekin af réttkjörnum fulltrúum fólksins. Með því er verið að hafa kjósendur að fíflum. Mörg spennandi mál sem tengjast skólastarfi í framtíðinni eru á dagskrá og mikilvægt að allir frambjóðendur geri skýra grein fyrir afstöðu sinni í skólamálum og fyrir hverju þeir ætla að berjast á þeim vettvangi. Enginn frambjóðandi hefur rétt á að sitja hjá þegar skólastefna framtíðarinnar er rædd og mótuð. Ég ætla hér einungis að fjalla um eitt atriði sem tengist skólamálum og er að mínu mati eitt af því markverðasta sem fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra. Hér á ég við að hann upplýsti þjóðina um að ný og breytt kennaramenntun ætti að hefjast árið 2007. Hér er um að ræða eitt af helstu baráttumálum Kennarasambandsins og Kennaraháskóla Íslands til margra ára. Ég minni þó á í þessu sambandi að þetta er ekki í fyrsta sinn sem lengja hefur átt kennaramenntunina en fyrir nokkrum árum komu stjórnvöld í veg fyrir að Kennaraháskólinn kæmi þeirri stefnu í framkvæmd. Það er því mikilvægt að allir frambjóðendur og allir flokkar upplýsi um stefnu sína í þessu máli þar sem hér er um að ræða eitt mikilvægasta mál í íslensku samfélagi í nútíð og framtíð. Allir eru sammála um að menntun er undirstaða framfara og velmegunar en menn gleyma því oft að menntun hér á landi getur ekki staðist samkeppni við menntun í öðrum löndum nema kennaramenntunin sé sambærileg við það sem gerist í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Fyrir liggja tillögur nefndar um að hrinda þessu í framkvæmd og forsætisráðherra hefur lýst yfir að það verði gert og því ber að fagna. Munum samt að kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið og skólafólk þarf því að halda vöku sinni og hamra járnið meðan það er heitt. Skólamál hafa stöðugt verið að færast ofar á forgangslista íslenskra stjórnmála, ekki síst vegna kröfu fagfólks og foreldra sem ekki mega sofna á verðinum því Mammon er sjaldan langt undan þegar ráðamenn forgangsraða verkefnum. Áhugafólk um skólamál þarf að leggjast á árarnar með það að markmiði að tryggja samstöðu meðal stjórnmálaflokka í þessu mikilvæga máli þannig að það komist heilt í höfn. Takist það er bjart framundan í íslenskum skólamálum. Eiríkur Jónsson Kosningar og kennaramenntun Ég lít svo á að stjórnmálamenn eigi að fylgja stefnuskrá sinni eftir að loknum kosningum og bregðast við óvæntum utanaðkomandi aðstæðum en ekki hrinda gæluverkefnum í framkvæmd í skjóli þess að ákvörðunin sé tekin af réttkjörnum fulltrúum fólksins. Með því er verið að hafa kjósendur að fíflum. Eiríkur Jónsson

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.