Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 15

Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 15
15 SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 6. ÁRG. 2006 gossins í hugarlund þegar jökulkerið er skoðað. Rölt um þjóðgarðinn Í Skaftafelli tekur þjóðgarðsvörður jafnan á móti hópunum og fylgir þeim um svæð- ið. Það er orðin hefð að fara í tvær góðar gönguferðir þar sem ýmislegt ber á góma. Fyrri daginn hefur verið byrjað á því að ganga inn með tjaldsvæðinu og upp í hæðirnar. Á leiðinni er saga þjóðgarðsins kynnt, komið er við í Hæðum sem er einn bæjanna í Skaftafelli og fjósbaðstofan þar skoðuð. Þaðan er líka gott að virða fyrir sér Skeiðarársand, breytingar á farvegi árinnar og mannvirki, s.s. vegi og varnargarða. Á þessum fyrsta spotta gefst líka gott tækifæri til að virða fyrir sér gróður þjóðgarðsins. Í Lambhaga, sem er einn áningarstaðanna, var eitt sinn plantað nokkrum trjám til að sjá hvernig aðkomu- gróður þrifist á svæðinu. Tré þessi eru nú með þeim hæstu á landinu og hafa yfirgnæft þann trjágróður sem fyrir var. Vel er hægt að ímynda sér hvernig svæðið liti út ef trjám hefði verið plantað þar í miklum mæli. Á leiðinni upp að Svartafossi er jafnan staldrað við rofabarð þar sem góð aðstaða er til að skoða mismunandi gjóskulög. Svartifoss er alltaf jafnvinsæll áningarstaður og margir nota tækifærið og fara á bakvið fossinn. Ummerki jökuls skoðuð Seinni daginn hefur svo verið gengið frá þjónustumiðstöðinni og inn að jökli. Þar gefst einstakt tækifæri til að lesa í landið. Næst þjónustumiðstöðinni er að finna margar tegundir gróðurs en eftir því sem nær dregur jökli verður flóran fábreyttari. Þá sést vel hvernig jökullinn vinnur sitt verk þegar hann skríður yfir landið. Á þessari stuttu leið má til dæmis sjá gamla árfarvegi, dældir sem eitt sinn voru jökulker, grettistök og svo jökulruðninga sem sýna stöðu jökulsins á mismunandi tímum. Á þessari leið er jafnan mikið um smáfugla og ekki er óalgengt að rekast á bú holugeitunga. Nóg að skoða Auk þess að fara í gönguferðir er ágæt aðstaða til að fræðast í gestastofunni í Skaftafelli, bæði hægt að skoða mynd- bönd og fræðsluspjöld. Þar að auki hefur verið keyrt niður á sandinn þar sem hægt er að skoða menjar um gosið í Gjálp 1996. Þá hafa Svínafellslögin verið skoðuð ef tími gefst til, en það eru sandsteinslög úr stöðuvatni sem í má stundum finna steingerð blaðför ýmissa plantna sem eru frá hlýskeiði ísaldar. Eins og minnst var á í upphafi þarf að velja vandlega þá staði sem eru heimsóttir. Ef meiri tími gæfist væri áhugavert að fara út í Ingólfshöfða en þar er jafnan mikið fuglalíf og eins væri Þórbergssetur á Hala áhugaverður kostur. Náttúruskóli við jökulinn Nú er á döfinni að stofna náttúruskóla í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð. Í fyrstu er fyrirhugað að tengja skólann við þrjá fræðslustíga sem verið er að hanna. Þeir eru hjá Kirkjubæjarklaustri, í Skaftafelli og svo við Fláajökul á Mýrum. Verið er að útbúa fræðsluefni um viðkomandi svæði og fljótlega verður hægt að nýta stígana. Við gerð þeirra eru ákveðnir markhópar hafðir í huga en að sjálfsögðu munu stíg- arnir nýtast öllum sem leið eiga um og vilja fræðast um nágrenni sitt. Með tilkomu náttúruskólans fjölgar stöðum sem hægt er að skoða á svæðinu. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn, í Skaftafelli og á Kirkjubæjarklaustri eru tilbúnir að liðsinna hópum eftir þörfum og koma til móts við séróskir. Gistingu fyrir hópana höfum við fengið í Freysnesi eða Svínafelli. Jöklasýningin á Höfn Á leiðinni heim hafa nemendur ME skoðað jöklasýninguna á Höfn. Þar er að finna vandaða og fróðlega samantekt um jökla í máli og myndum. Nemendur fá innsýn í heim jökulsins, jöklabreytingar, jöklaferðir og lífríkið á jöklinum. Reynslan af þessum ferðum hefur verið mjög góð. Nemendur hafa sýnt mikinn áhuga og lært mikið. Það eru kannski bestu meðmælin að nokkrir nemendur hafa sóst eftir því að fara í ferðirnar oftar en einu sinni. Hjördís Skírnisdóttir kennari, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellsýslu Þorbjörn Rúnarsson áfangastjóri, Menntaskólanum á Egilsstöðum Svellkaldur – með 1000 ára gamlan ísmola í fanginu. Á Skaftafellsjökli. Horft af Kambsmýrar- kambi til Kvíárjökuls. FRAMHALDSSKÓLINN ÚTI Í NÁTTÚRUNNI

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.