Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 19

Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 19
19 SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 6. ÁRG. 2006 ræða frítíma barnanna en ekki eiginlegt nám. „Mér finnst það stundum vanta í alla þessa umræðu að við erum að tala um að skipuleggja frítíma barnanna okkar sem sitja á skólabekk meira en fimm tíma á dag. Umræðan hefur mikið snúist um að troða sem flestu inn í frístundaheimilin. En við megum ekki gleyma því að börn þurfa að fá að hvíla sig og leika sér,” segir Steingerður. Hún segir fjölbreytta dagskrá í boði á frístundaheimilunum sem taki mið af af hugmyndaflugi starfsmanna og barna. Starfið er skipulagt í klúbbum og frjálsum leik. Dæmi um það sem börnin geta valið úr er matreiðsla, útivist, skátastarf, myndlist og tölvur. Frjáls leikur og lýðræði Mikið hefur verið rætt um skort á plássum á frístundaheimilum borgarinnar og þegar þetta viðtal var tekið vantaði 55 starfsmenn til þess að hægt væri að veita öllum þjónustu sem þess óskuðu. Á biðlista voru 437 börn. „Frá upphafi höfum við miðað við að það séu 12-16 börn á hvern starfsmann. Auðvitað gætum við haft fleiri börn á hvern starfsmann en það kæmi niður á gæðum starfsins. Allflestir umsjónarmenn frístundaheimilanna eru með háskólamenntun á uppeldissviði en annað starfsfólk er ekki með slíka menntun. Við reynum að fá háskólanema og nema í Listaháskólanum til starfa og ráðum yfirleitt ekki starfsfólk undir tvítugu. En þegar næga atvinnu er að fá verðum við að endurskoða allar slíkar reglur,“ segir Steingerður. Á skólaárinu 2005-2006 nýttu um 35% reykvískra barna í 1. – 4. bekk þjónustu frístundaheimilanna. Flest voru börnin í 1. og 2. bekk en Steingerður segir að börnum í 3. og 4. bekk sé sífellt að fjölga. Á flestum frístundaheimilunum býðst sex ára börnum að fara í ókeypis íþrótta- skóla og segir Steingerður að hugmyndin á bak við það sé fyrst og fremst sú að gera börnum kleift að stunda heilbrigða hreyfingu án tillits til efnahags for- eldra og að leyfa þeim að kynnast því íþróttafélagi sem er í nágrenninu. Að öðru leyti eiga reykvísk börn ekki möguleika á að sækja íþróttaæfingar á starfstíma frístundaheimila. „Svo vinnum við með nokkuð sem heitir barnalýðræði sem felst í því að kenna börnunum að þau hafa rétt á að tjá sig og hafa skoðanir. Kannski ráða börnin ekki hvort þau eru á frístundaheimili eða ekki en þau geta þó ráðið að einhverju leyti því sem þau gera þar. Þetta er leið sem við viljum nota í okkar uppeldishlutverki. Það er okkar veigamesta hlutverk; að eiga hlut í uppeldi barnanna.” Breytingar á döfinni í Hafnarfirði Á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar stendur að á vegum skólanna séu starfræktir heilsdagsskólar sem eru viðvera fyrir nemendur í 1. – 4. bekk grunnskóla. Í orðabók Menningarsjóðs stendur að orðið viðvera þýði að vera viðstaddur. Því lék blaðamanni forvitni á að vita, hvort hafnfirskum börnum stæði nú ekki eitthvað annað og meira til boða en að vera á staðnum. Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla í Hafnarfirði, segir að margt annað sé í boði en það sé í höndum hvers skóla hvernig staðið er að starfseminni þar sem hver skóli er sjálfstæður og lýtur stjórn skólastjóra. Hann segir að bæjaryfirvöld séu sífellt að skoða starfsemi heilsdagsskólans og að mikil úttekt hafi verið gerð á starfsemi hans fyrir örfáum árum. „Það eru engar samræmdar reglur til um það hvað börnin eiga að gera þarna eða hvernig haga eigi starfseminni. Dagskráin mótast mikið af áhuga og færni starfsmanna og eftir þeim aðstæðum sem ríkja í hverjum skóla. Það getur verið ágætt í sjálfu sér því þá fær frumkvæði starfsmanna að njóta sín. Stefnt er að því að breyta starfseminni smám saman, meðal annars með því að gefa börnum kost á að æfa íþróttir og leggja stund á tómstundastarf í heilsdagsskólanum,” segir Vigfús. Hann segir að slíkt verkefni muni hefjast sem tilraunastarf í tveimur grunnskólum í Hafnarfirði á næstunni. Vigfús segir að ávallt sé byrjað á að auglýsa eftir fagmenntuðu starfsfólki við heilsdagsskólana en erfitt að fá það til starfa. „Það er vilji bæjaryfirvalda að sem flestir starfsmenn hafi fagmenntun.“ Stuðningur við fjölskyldufólk Í Reykjanesbæ taka frístundaskólar til starfa eftir að skóladegi lýkur og þar geta börn meðal annars sótt íþróttaæfingar og skátafundi. Þá er samstarf við kirkjuna og starf eldri borgara á döfinni. Þjónustan er ætluð börnum í 1. – 4. bekk en einnig er starfræktur frístundaskóli fyrir fötluð börn í 5. – 10. bekk. Að sögn Ragnheiðar Ástu Magnúsdóttur, verkefnastjóra frístund- askólans í Reykjanesbæ, var byrjað að vinna samkvæmt þessu skipulagi fyrir þremur árum. „Okkar aðaláhersla er sú, að tómstundastarf yngstu skólabarnanna eigi sér stað á dagvinnutíma þannig að börnin hafi lokið öllu sínu tómstunda- og íþróttastarfi þegar þau fara heim til sín,” segir Ragnheiður Ásta. Hún segir að starfsemin heyri undir fræðsluráð og sé á ábyrgð hvers skólastjóra en starfið sé unnið í nánu samstarfi við íþróttafélög staðarins. En hvers vegna leggur sveitarfélagið svona mikla áherslu á að börn geti lokið við allt íþrótta- og tómstundastarf áður en þau fara heim til sín? „Við viljum styðja við fjölskyldufólk. Með þessu fyrirkomulagi eiga fjölskyldur auðveldara um vik að eyða meiri tíma saman þegar allir eru komnir heim úr vinnu og úr skóla,” segir Ragnheiður Ásta. Starfsemin er nokkuð misjöfn eftir skólunum og fer eftir áhugasviði og færni starfsmanna. Mikið er lagt upp úr því að lesa fyrir börnin og einnig er mikil áhersla lögð á frjálsan leik. Foreldrar hafa val um hvort barnið fær aðstoð við heimanám. • Í dönskum sveitarfélögum fyrir- finnst fyrirbæri sem kallast „plads- garanti”. Í því felst að sveitarfélagið skuldbindur sig til þess að allir sem þess óska geti fengið dvöl fyrir börnin sín á skóladagheimili. • „Umræðan hefur mikið snúist um að troða sem flestu inn í frí- stundaheimilin. En við megum ekki gleyma því að börn þurfa að fá að hvíla sig og leika sér.” • „Við viljum styðja við fjölskyldu- fólk. Með þessu fyrirkomulagi eiga fjölskyldur auðveldara um vik að eyða meiri tíma saman þegar allir eru komnir heim úr vinnu og úr skóla.” • „Mín framtíðarsýn er sú, að for- eldrar geti komið heim um miðjan dag og verið með börnunum sínum, að börn þurfi að dvelja sem minnst fjarri heimili sínu. Væri það ekki gott fyrir alla?” FRÍSTUNDAHEIMILI

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.