Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.10.2006, Blaðsíða 6
6 GESTASKRIF SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 6. ÁRG. 2006 það þarf að skapa tækifæri til þess heima í héruðum að markvissar umræður fari fram. Byrjum strax að tala saman! Tekjuskipting - af útsvari og fjármagnstekjum Stór hluti af rekstrarkostnaði sveitarfélaga er launakostnaður, mældur um 60-70%. Langstærstur hluti af þeim kostnaði er laun þeirra sem starfa í fræðslugeiranum. Nú er það svo að flest sveitarfélög landsins hafa á umliðnum árum átt erfitt með að láta enda ná saman. Þar er ekki um að kenna að laun þeirra sem starfa í skólasamfélaginu séu of há heldur hinu að tekjugrunnur sveitarfélaga er svo veikburða að ekki næst að standa undir þeim lögbundnu verkefnum eða þeirri viðbótarþjónustu sem í boði er. Sveitarstjórnir hafa bent á það á umliðnum árum að við þær breytingar sem urðu á skattkerfinu árið 2000, þegar tekjuskattar fyrirtækja voru lækkaðir, hafi ýmislegt breyst. Nú er það ekki svo að gagnrýnisvert sé að skapa fyrirtækjum landsins starfsgrundvöll í eðlilegri sam- keppni, jafnvel á alþjóðamörkuðum. Hitt er raunin að fleiri og fleiri hafa snúið sér að fyrirtækjaforminu og fjölgun einkahlutafélaga hefur verið gífurleg á síðastliðnum árum. Tölur sýna að í Grundarfirði er einkahlutafélag á þriðja hverju heimili og í Hafnarfirði er það á fimmta hverju heimili. Þessi breyting hefur leitt til þess að þeim sem borga fjármagnstekjuskatt sem til fellur vegna arðsemigreiðslna hefur fjölgað en útsvarsgreiðendum jafn- framt fækkað hlutfallslega. Nú renna fjámagnstekjurnar alfarið til ríkisins en útsvarið til sveitarfélaganna. Þessu þarf að breyta hið fyrsta enda njóta allir sömu réttinda m.t.t. skólahalds eða þjónustu sem í boði er. Það skiptir því miklu að þeim fjölgi sem hafa skilning á því að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé ekki sanngjörn og eðlileg. Hér þurfa bæði starfsmenn sveitarfélaga og íbúar að tala í takt við ráðamenn þeirra. Til þess að sveitarfélögin geti boðið starfsmönnum sínum betri kjör og íbúum um leið ennþá meiri og betri þjónustu þarf að styrkja tekjugrunninn. Það má því segja að samræðurnar um breytt launaumhverfi grunnskólakennara hljóti að leiða af sér samræður sveitar- félaga við ríkið um breytta tekjuskiptingu. Dropinn holar steininn í þeim efnum og sveitarstjórnarfólk mun ekki gefast upp í þeirri umræðu. Fjölgreinanámið – frábær viðbót í Hafnarfirði Mig langar hér að nota tækifærið og minnast á frábæra viðbót sem hefur verið þróuð í Hafnarfirði á umliðnum árum, svokallað fjölgreinanám. Fyrir þremur árum var farið af stað með námsbraut fyrir nokkra drengi í Menntasetrinu við Lækinn undir heitinu fjölgreinanám. Hugmyndin var að koma á móts við nemendur sem vilja létta á bóklegu námi en auka það verklega. Þessi leið hefur gefist mjög vel og mikil ásókn verið í þetta námsframboð. Fyrsta árið var fjölgreinanámið undir Námsflokkum Hafnarfjarðar en á öðru ári varð það hluti af Lækjarskóla og tengdist þannig skólamenningu hans. Nú er fjölgreinanámið með tvo bekki í 9. og 10. bekk. Hvet ég áhugafólk til að skoða upplýsingar um námið á heimasíðu Lækjarskóla, www.laekjarskoli.is. Námsaðferðir og námsefni er fjöl- breytt og sveigjanlegt og sniðið að getu og áhuga einstakra nemenda. Nemendur vinna eftir einstaklingsáætlunum sem gerðar eru í samvinnu við þá og foreldra. Námsmat er sniðið að hverjum og einum eins og kostur er þar sem tekið er tillit til fjölbreytileika námsins. Nemendur velja í samvinnu við foreldra og kennara hvort þeir taka samræmd próf. Skoða þarf stöðu hvers nemanda til að finna hvað honum hentar best miðað við framtíðarsýn hans. Þátttaka í atvinnulífi er skipulögð og nemendur fá að velja sér starfsvettvang og eru hvattir til að kynnast fleiri en einum vinnustað. Niðurstaða þessa verkefnis hefur valdið straumhvörfum í lífi þeirra sem hafa tekið þátt og fjölskyldna þeirra. Orð forráða- manna eru öll á einn veg. Um er að ræða verkefni sem ég er viss um að önnur sveitarfélög munu taka upp á næstu árum. Það er ekki hvað síst skólafólks að kynna sér verkefnið og hjálpa sveitarstjórnarfólki að innleiða það í sínum bæjum. En við í Hafnarfirði höfum ekki látið staðar numið. Mikil þörf hefur verið fyrir framhaldsnám fyrir þessa drengi en þeir hafa ekki skilað sér í framhaldsskólana. Skömmu eftir að fjölgreinanámið fór af stað kviknaði hugmyndin um fjölgreina- braut á framhaldsskólastigi. Nýlega náðist samkomulag við menntamálaráðu- neytið um að setja af stað tveggja námsára framhaldsbraut við grunnskóla (Lækjarskóla) í Hafnarfirði, í samstarfi við Flensborgarskólann og Iðnskólann í Hafnarfirði. Fræðslusvið Hafnarfjarðar hefur umsjón með verkefninu og verður það skipulagt í samráði og samstarfi við menntamála- ráðuneytið, fræðsluráð Hafnarfjarðar, framhaldsskóla í Hafnarfirði og eftir atvikum aðra framhaldsskóla og aðila. Með fjölgreinabrautinni er lögð áhersla á að mynda samfellu í skólagöngu og reyna að koma í veg fyrir að nemendur flosni upp úr námi. Á sama hátt og í fjölgreinanáminu eru viðmiðin hér að námið feli sérstaklega í sér áherslu á uppbyggingu og styrkingu sjálfsmyndar og félagsfærni. Einhver kann að spyrja „eru nú sveitarfélögin búin að taka yfir framhalds- skólastigið?“ Það er ekki svo heldur miklu frekar hitt að sveitarfélagið hefur hag af því að geta boðið jafn breiðan grunn, í þessu tilfelli á fræðslustigi, þar sem haldið er utan um hóp sem annars hefði ekki möguleika innan hefðbundins framhaldsskóla. Með samvinnu við ríkið getum við látið enda ná saman þó að einhverjir hefðu samt viljað láta ríkið borga verkefnið að fullu og sagt „þeir eiga að bera ábyrgð á framhaldsskólastiginu“. Að lokum þetta… Að lokum óska ég þess að verkefni skóla- ársins vefjist ekki fyrir okkur. Það er ekki ástæða til að ætla annað en að allt gangi okkur í haginn. Þá ítreka ég um leið að orð eru til alls fyrst, enda ekki nokkur sem óskar sér verkfalls á komandi árum. Allra síst sveitarstjórnarmaður sem kvæntur er kennara, hvað þá kennari sem giftur er sveitarstjórnarmanni – höldum áfram að tala saman! Gunnar Svavarsson Höfundur er forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Niðurstaða þessa verkefnis hefur valdið straum- hvörfum í lífi þeirra sem hafa tekið þátt og fjölskyldna þeirra. Orð forráðamanna eru öll á einn veg. Um er að ræða verkefni sem ég er viss um að önnur sveitarfélög munu taka upp á næstu árum.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.