Skólavarðan - 01.02.2009, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.02.2009, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Á umrótstímum eins og þeim sem þjóðin upplifir um þessar mundir horfa margir inn á við, meta stöðu sína upp á nýtt og setja sér ný viðmið. Margir eru sárreiðir út af ástandinu og finnst sem grundvallarreglur og siðferðisgildi í samfélaginu hafi verið þverbrotin. Stór hluti þjóðarinnar hefur misst traust á ráðamönnum og æðstu stofnunum samfélagsins, stjórnmálakerfi landsins, og á sama tíma finnur fólk til smæðar sinnar og vanmáttar gagnvart þeim risavöxnu vandamálum sem bíða úrlausnar. Hvar stöndum við í Kennarasambandinu í þeim ólgusjó sem ríður yfir þjóðfélagið? Verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina barist fyrir grundvallar- réttindum starfandi fólks og unnið af hugsjón að umbótum í átt að betra þjóðfélagi. Samhliða miklum þjóðfélagsbreytingum hefur hlutverk margra stéttarfélaga breyst og orðið víðfeðmara. Meginviðfangsefni Kennarasambands Íslands og aðildarfélaga þess má fella undir tvö svið, þ.e. kjara- og réttindamál og skóla- og menntamál. Í takt við þróun samfélagsins og nýja tíma koma upp ný málefni og verkefni. Dæmi þar um er áherslan á sí- og endurmenntun í samfélaginu. Á síðasta þingi KÍ var ályktað um málefni eins og jafnréttismál, vinnuumhverfismál og þjónustu sem sýnir að áherslur Kennarasambandsins hafa verið að teygja sig inn á ný svið. Horft er í auknum mæli á líðan fólks og persónuleg þjónusta bætt. Á undanförnum árum hefur einnig gætt áherslubreytinga hvað varðar mikilvægi þess að eiga í samstarfi við stjórnvöld og aðra fagaðila. „Vilji til samstarfs um enn betra samfélag“ Síðasta þing KÍ fagnaði auknu og bættu samstarfi KÍ og aðildarfélaga þess við vinnuveitendur og stjórnvöld. Þingið hvatti til áframhaldandi samstarfs og samráðs við þessa aðila og taldi það árangursríka leið til að koma stefnumálum sambandsins á framfæri. Með því móti sköpuðust auknir möguleikar á því að hafa mótandi áhrif á það samfélag sem við lifum í. Í ályktun um velferðar- og samfélagsmál lýsti þingið yfir ein- dregnum vilja sambandsins til að eiga samvinnu við stjórnvöld og önnur hagsmunasamtök um að byggja upp enn betra samfélag á Íslandi, samfélag þar sem almenn velferð, tillitssemi og gagnkvæm virðing eru höfð að leiðarljósi. Kennarasambandið hefur á undanförnum misserum beint sjón- um sínum að því auka þjónustu og skilvirkni en innan þess hefur ekki verið sterk hefð fyrir þátttöku í umræðu um þjóðfélagsmál sem varða almenna velferð félagsmanna sem og almennings. Ég fagna þeim áherslubreytingum sem lesa má úr ályktunum sem ég vísaði í hér að framan. Menntastofnanir njóta trausts Þegar horft er yfir völlinn þá finnst mér sem menntastofnanir séu meðal þeirra fáu lykilstofnana samfélagsins sem enn njóta trausts. Þær eru lausar við spillingarfjötra valds og auðmagns, hagsmunaklíka og sérhyggju – þann köngulóarvef sem svo margar aðrar stofnanir samfélagsins eru ofnar inn í. Við ríkjandi aðstæður verður enn skýrara hve gríðarlega mikilvægu hlutverki menntastofnanir í landinu gegna. Ég er stolt af því að tilheyra Kennarasambandinu og tel að við eigum af samábyrgð að láta raddir skólasamfélagsins heyrast í umbóta- ferli næstu ára og styrkja um leið stöðu og ímynd kennarastarfsins. Lýðræðislegt mótvægisafl Á undanförnum árum hafa ýmsir gert stöðu stéttarfélaga að umræðuefni og jafnvel velt því upp hvort þeirra verði þörf í fram- tíðinni? Það er hugsanlega ekki tilviljun að slíkar spurningar hafi vaknað í firringu undanfarinna ára. Það er vel við hæfi á þessum tíma að vísa til uppruna stéttar félaga og nægir að benda á rauða litinn á fána verkalýðshreyfingar- innar sem táknar „uppreisn gegn ranglæti“. Það er mín skoðun að framtíðin kalli á öflugri stéttarfélög en fyrr ef eitthvað er. Stéttarfélög verða að halda í hugsjónina, hafa framsækna sam- félagssýn og efla hag almennings með því að vinna að betra þjóð- félagi. Samtök launafólks standa fyrir ákveðinn kjarna í samfélaginu og rödd þess kjarna og sjónarhorn er mikilvægt lýðræðislegt mótvægisafl við mótun samfélagsins á hverjum tíma. Ef stéttarfélög breytast í afgreiðslustofnanir geta þau lagt niður fánann. Látum baráttusöng verkalýðsins hljóma sem aldrei fyrr! Sigrún Grendal Framtíðin kallar á öflug stéttarfélög SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 9. ÁRG. 2009 Sigrún Grendal Formaður FT. Lj ós m yn d f rá h öf un d i Ég er stolt af því að tilheyra Kennarasamband- inu og tel að við eigum af samábyrgð að láta raddir skólasamfélagsins heyrast í umbótaferli næstu ára og styrkja um leið stöðu og ímynd kennarastarfsins.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.