Skólavarðan - 01.02.2009, Blaðsíða 20
20
SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 9. ÁRG. 2009
bARNvæNT SAMFéLAG
Í grunnskólum og leikskólum hafa kennarar áhyggjur af of löngum
vinnudegi barna.
Í hvernig samfélagi búum við og er Ísland barnvænt samfélag? Ekkert
einhlítt svar er við þessari spurningu. Þegar hugtakið barnvænt
samfélag er skoðað kemur fljótt upp í hugann að það fari saman
við hugtakið foreldravænt eða fjölskylduvænt samfélag því hagsmunir
barnsins eru samofnir hagsmunum foreldra/fjölskyldunnar.
Þjóðfélagið hefur breyst og þróast síðustu þrjátíu árin í það
að konur og karlar vinna bæði úti, sem er jákvæð þróun en lengd
vinnutímans ef til vill ekki að sama skapi. Sem betur fer brugðust
þeir sem standa að leikskólarekstri hratt við og nú er algengast að
börn séu á einum öruggum stað í leikskóla undir handleiðslu fagfólks
yfir daginn. Fyrir um það bil tuttugu árum var algengara að börn
þeyttust frá einum stað til annars, stundum jafnvel á þrjá staði yfir
daginn. Þegar í grunnskólann var komið tóku oft og tíðum við lyklar
um hálsinn en nú hefur vistun í frístund bætt mikið úr því ástandi.
Í rannsókn sem undirrituð gerði (Björg Sigurvinsdóttir 2007)
og fjallaði um viðhorf grunnskólakennara á yngsta stigi og leik-
skólakennara til grunnþátta starfsins kemur meðal annars fram að
kennarahóparnir hafa áhyggjur af of löngum vinnudegi barna. Það
þurfi að stytta vinnutíma yngstu barnanna og gefa fjölskyldunni kost
á því að vera meira saman. Ýmsar tölur (Jón Torfi Jónasson 2006,
Ingibjörg Rafnar 2006) sýna að viðvera barna í leikskóla og grunnskóla
sé sífellt að lengjast þannig að ljóst er að þarna hafa kennarahóparnir
mikið til síns máls. Margir hafa af þessu miklar áhyggjur og vert er
að ígrunda og staldra við, hvað viljum við fyrir börn þessa lands og
fjölskyldur þeirra?
Ef litið er til Norðurlanda má sjá að þar er algengara að vinnu-
dagurinn sé styttri en við eigum að venjast á Íslandi. Einnig virðist
vera á mörgum stöðum hefð fyrir vetrarfríum þar sem fjölskyldum
gefst kostur á verja nokkurra daga fríi saman. Hvernig væri að horfa
á þessa þætti og sameinast um að stytta dagvinnuna um hálftíma
til einn tíma á dag? Vetrarfrí eru í grunnskólum, tónlistarskólum
og framhaldsskólum á Íslandi en ekki í leikskólum eða á mörgum
öðrum vinnustöðum. Margir velta fyrir sér af hverju það er ekki.
Þarf samfélagið ekki að viðurkenna almenna þörf á vetrarfríi þar
sem fjölskyldur fá tíma til að taka sér frí saman sér til ánægju og
yndisauka? Er ekki lag að hugsa upp á nýtt, einmitt núna, þar sem
miklar breytingar eru í þjóðfélagi okkar?
Munum að börnin okkar eru dýrmæt auðlind og þjóðfélagið þarf
að vakna til vitundar um hvílíkan fjársjóð við erum með í höndunum.
Þá er brýnt að allir sem koma með beinum eða óbeinum hætti að
uppeldi og menntun barna hafi enn meira samráð en haft hefur
verið, foreldrar/forráðamenn, kennarar, ráðamenn og atvinnulífið.
Að sjálfsögðu megum við ekki gleyma börnunum sjálfum enda
benda niðurstöður rannsókna (Jóhanna Einarsdóttir 2003, 2006,
Woodhead 2006) á að mikilvægt sé að hlusta á raddir barna til
að vita hvað þau vilja. Ef allir taka höndum saman má leiða að því
líkum að þá takist enn betra og farsælla samstarf allra aðila sem
væri börnum þessa lands til heilla.
Þessi grein er önnur af nokkrum greinum um barnvænt samfélag
sem skólamálanefnd Félags leikskólakennara stendur fyrir. Fyrsta
greinin birtist í Morgunblaðinu 13. janúar síðastliðinn. Von okkar
er að þessi skrif skapi umræðuvettvang sem leiði til umhugsunar
og vilja til breytinga í þjóðfélaginu. Við hvetjum ykkur kennara til að
láta skoðanir ykkar í ljós og taka þátt í umræðunum og fjalla um
þær í fjölmiðlum, Skólavörðunni og/eða senda til skólamálanefndar
Félags leikskólakennara á netfangið bjosi@akmennt.is
Fyrir hönd skólamálanefndar Félags leikskólakennara,
Björg Sigurvinsdóttir starfandi
leikskólafulltrúi Akureyrarbæjar.
Heimildir:
Björg Sigurvinsdóttir. 2007. „Uppeldi og menntun verða ekki aðskilin“ viðhorf grunnskólakennara á yngsta stigi
og leikskólakennara til grunnþátta starfsins. Háskólinn á Akureyri, kennaradeild. [Ópr. M.Ed.-ritgerð.]
Ingibjörg Rafnar. 2006. Umsagnir til alþingis og stjórnvalda.
Jóhanna Einarsdóttir. 2003. Belives of Early Childhood Teachers. Studying teachers in early childhood
settings, (ritstj. Olivia N. Saracho og Bernard Spodek), bls.113-133. Greenwich (Connecticut), Information
Age Publishing.
Jóhanna Einarsdóttir. 2006. Leikskólinn frá sjónarhóli barna. Uppeldi og menntun 15,2:69–96.
Jón Torfi Jónasson. 2006. Frá gæslu til skóla – um þróun leikskóla á Íslandi. Reykjavík, Rannsóknarstofa um
menntakerfi, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
Woodhead, Martin. 2006. Changing perspectives on early childhood – theory, research and policy. Education
for all global monitoring report 2007. Strong foundations – early childhood care and education. UNESCO.
Vetrarfrí eru í grunnskólum, tónlistarskólum og fram-
haldsskólum á Íslandi en ekki í leikskólum eða á
mörgum öðrum vinnustöðum. Margir velta fyrir sér af
hverju það er ekki. Þarf samfélagið ekki að viðurkenna
almenna þörf á vetrarfríi þar sem fjölskyldur fá tíma til
að taka sér frí saman sér til ánægju og yndisauka? Er
ekki lag að hugsa upp á nýtt, einmitt núna, þar sem
miklar breytingar eru í þjóðfélagi okkar?
Barnvænt samfélag: Snúum
bökum saman
Björg Sigurvinsdóttir