Skólavarðan - 01.02.2009, Blaðsíða 6
6
SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 9. ÁRG. 2009
GESTASKRIF: þORvALdUR þORSTEINSSON
reynslunni að það veit miklu meira en það
man. Að það getur meira og fleira en nokkur
einkunnaskali getur nokkru sinni mælt.
Barn sem fær að vera barn veit að það
er allt í lagi að vera utan við sig og að
„einbeitingarskortur“ getur einfaldlega þýtt
að það er að taka eftir einhverju öðru en
hentar yfirvaldinu þá stundina.
Barn sem fær að vera barn er uppteknara
af því hvað það er heldur en hvað það ætlar
að verða.
3
Það virðist að við séum orðin svo háð
mælingum, skiltum og sannanlegum stað-
reyndum að við séum tilbúin að fórna
ævintýrinu, sköpunareðlinu og uppgötvun-
inni ef það má verða til þess að koma
tilverunni undir hatt hins skilgreinanlega
og mælanlega. Málvísindi verða þannig
mikilvægari en málið. Bókmenntafræðin
verður forsenda skáldskaparins. Skýrsla um
mannleg samskipti verður marktækari en
mannleg samskipti.
Skólastefnan viðheldur og endurspeglar
í senn ótta okkar við tilveruna sem óskil-
greinda heild, stefnulausan leik eða ein-
faldlega eitthvað sem er í eðli sínu rétt. Og
við sjálf þar á meðal. Til þess að komast
hjá slíkri upplifun erum við þjálfuð til að
vantreysta því náttúrulega og sjálfsprottna.
Þessu sem er fullkomið í sjálfu sér. Svo
frekar en að njóta þess leggjumst við í að
skilgreina allt sem er og helst að taka það í
sundur í leiðinni.
Kannski er það fyrst og fremst óttinn
við sköpunareðli okkar og þennan skömm-
ustulega grun um að við séum í raun nógu
góð sem veldur því að við treystum ekki
því sem er skemmtilegt, auðvelt og einfalt.
Sköpum þess í stað skyldunámsefni sem
byggist á þekktum staðreyndum, rökréttum
kerfum, margreyndum formúlum og viður-
kenndum stöðlum. Lítum svo á að því meira
sem nemandi tileinki sér af slíku efni, því
betur hafi til tekist.
Þessi ótti við hið óskráða þýðir hins vegar
að það sem nemandinn uppgötvar, reynir,
upplifir, skapar, safnar, ímyndar sér, leggur
til, efast um, fagnar, hlúir að og gefur af sér
verður ómerkingur í einkunnagjöfinni. Það er
nefnilega ekki þetta sem skólanum er ætlað
að draga fram. Það er ekki nemandinn sjálfur
og það sem hann býr yfir sem ætlunin er að
fjalla um heldur hitt; það sem nemandinn
hefur ekki. Kann ekki. Þekkir ekki.
Samt er það svo að stór hluti þeirra
verkfæra sem skólar landsins notast við
til að bæta úr skorti nemenda sinna er
sóttur beint í eiginleika og náttúrulega
hæfni þeirra sjálfra. Verkfæri eins og áhugi,
forvitni, samtengingarhæfni, rýmisskynjun,
heildarsýn, vinarþel, hlustun, næmi, innsæi,
húmor og tímaskyn, allt eru þetta eiginleikar
sem okkur eru gefnir og hvert barn býr yfir,
hversu vel eða illa sem því gengur að lesa bók,
muna nöfn eða leysa stærðfræðiformúlur.
En í stað þess að hlúa að því sem við búum
yfir er okkur gert að einblína á það sem ekki
er til staðar, líkt og lífið liggi við. Og það
er sannarlega mikið í húfi í samfélagi sem
metur fólk eftir mælanlegum viðmiðunum
annarra fremur en raunverulegum eigin-
leikum þess sjálfs.
4
Það mætti sjálfsagt afgreiða uppgjöf skóla-
kerfisins gagnvart sköpunareðli hverrar
manneskju sem nauðsynlegan fórnarkostnað
í skiptum fyrir aldeilis bráðmerkilegar og
menntandi upplýsingar, ef ekki vildi svo til
að sköpunareðli okkar er hvorki valgrein né
smekksatriði. Það er heldur ekki afþreying,
markaðsvara, sniðugheit, hæfileiki fárra
eða áþján þjakaðra listamanna. Sköpunin
er þvert á móti eiginleg hverjum manni,
sjálfsögð og lífsnauðsynleg, rétt eins og
tjáningin, snertingin og kynhvötin. Hún býr
að baki margfalt fleiri hugtökum en því sem
nefnir hana; hún er forsenda samskipta
okkar, tungumáls og líkamstjáningar. Hún
er sagnamennska, táknmyndir, tengingar,
innsæi, húmor og útsjónarsemi. Hún er for-
senda allrar samfélagsmótunar og kveikja
hvers framfaraspors sem stigið er í nafni
mennskunnar. Hvorki meira né minna.
5
Okkur er tamt að tala um menntun sem
jákvæða, uppbyggilega og þjóðhagslega
hagkvæma. Við notum hugtakið menntun
ekkert ósvipað og orðin næring, vöxtur og
framfarir.
En hvað er verið að næra? Hvað er
ekki verið að næra? Hvað er að vaxa og á
hvers kostnað? Í hverju felast framfarirnar?
Er alveg áreiðanlegt að þær taki til þess sem
við þurfum helst á að halda? Eða náttúra
okkar?
Þegar ég rétti upp hönd í byrjun tíu ára
bekkjar og spurði kennarann hvenær við
færum út að safna laufum til að nota í myndir,
fékk ég að vita að slíkt hátterni tilheyrði ekki
í tíu ára bekk, það væri meira hugsað fyrir
litlu börnin. Og ég var fljótur að laga mig
að þessum fyrirvaralausu fullorðinsárum...
henda frá mér laufum og hafna ævintýrum,
leikjum og öðrum barnaskap. Alveg þangað
til ég ákvað að gerast myndlistamaður og fór
aftur að safna laufum.
6
Þróunarsaga okkar undanfarin árþúsund er í
senn hversdagsleg og kraftaverki líkust. Það
gildir hins vegar einu hvort líf okkar hefur
tilhneigingu til að breytast til batnaðar vegna
meðfæddrar sköpunargleði manna, forvitni,
rannsóknareðlis eða fyrir hreina slysni, - það
hlýtur alltaf að verða sama forsendan að
baki hverri nýjung sem verður að veruleika;
hana þarf að setja í samhengi. Það þarf að
láta á hana reyna. Þá fyrst á hún möguleika
á að breytast úr því að vera möguleiki í huga
upphafsmannsins, eða innan þess samfélags
sem hana skapar, í það að vera verkfæri sem
mögulegt er að nýta.
Það er athugunarefni út af fyrir sig að
skoða þær bráðmerkilegu tillögur til úrbóta
sem dagað hafa uppi í ráðstefnusölum og
mastersritgerðum háskólasamfélagsins.Ein-
staka þeirra hafa í besta falli fengið næði
í einangruðum tilraunum eða sérmerktum
skólum. Þar höfum við dæmi um árangur sem
ætti að vera hverju skólakerfi í framfarahug
fagnaðarefni og nægileg staðfesting á að
óhætt sé að hlýða kalli tímans. Horfast í
augu við mennskuna á ný.
Það hlýtur að vera aðeins tímaspursmál
hvenær við látum til skarar skríða. Segjum
undirbúningi lokið.
Þorvaldur Þorsteinsson
Höfundur er myndlistamaður og rithöfundur og rekur auk
þess eigin námskeiðsskóla; kennsla.is
Sköpunareðli okkar er hvorki valgrein né smekksatriði. Það
er heldur ekki afþreying, markaðsvara, sniðugheit, hæfileiki
fárra eða áþján þjakaðra listamanna.
Málvísindi verða þannig mikilvægari en
málið. Bókmenntafræðin verður forsenda
skáldskaparins. Skýrsla um mannleg samskipti
verður marktækari en mannleg samskipti.