Gerðir kirkjuþings - 2010, Side 48
48
Ísland“. Fólk reiddist. Það skildi ekki hvernig leiðtoga ríkisstjórnarinnar datt í hug að
blanda almættinu í þetta veraldlega mál. Fólk skildi ekki að þar var forsætisráðherrann
að undirstrika alvarleika málsins. Nú var heill þeirrar þjóðar sem honum var ætlað að
leiða – ekki aðeins í höndum hans og annarra mennskra. Nú þurfti meira að koma til.
Þegar herskáir guðleysingjar og fylgdarsveinar þeirra reyna nú að koma í veg fyrir
kristinfræðikennslu í skólum borgarinnar, gengur þeim nokkuð til sem þeir ekki vilja
viðurkenna á yfirborðinu. Málatilbúnaðurinn gengur allur út á að mannréttindi séu
aðeins tryggð með algjörri þöggun um trúmál og trúarbrögð – en markmiðið er að
valda algjöru og endanlegu siðrofi milli kristinnar kirkju og fólksins í landinu. Sú
ráðagerð má ekki ná fram að ganga. En kirkjan virðist standa nokkuð ráðalaus frammi
fyrir þessari tangarsókn. Ekki mun kirkjan kalla eftir heimild til trúboðs í skólum –
því hefur hún engan áhuga á. En hún verður að taka slaginn sem tryggja mun að
kristin fræði og ófölsuð menningarsaga, verði áfram tryggð og verði þungavigtarfög í
skólum landsins. Aðeins þannig getum við komið í veg fyrir frekara siðrof og meiri
upplausn. Einhverjir hafa sopið hveljur yfir því að biskup skyldi spá svo fyrir um
framtíð þjóðarinnar, yrðu tillögur mannréttindaráðs að veruleika, að hún myndi
jafnvel einkennast af andlegri örbirgð. En hvað er hægt að kalla það ástand annað,
þegar fólk stendur uppi í eigin landi, blint og ólæst á eigin menningu og sögu. Það er
andleg örbirgð í sinni skelfilegustu mynd.
V.
Fleiri þjóðir hafa upplifað þetta og eru nú að takast á við vandann. Í samtali sem ég
átti við stjórnarformann Breska og erlenda biblíufélagsins fyrir nokkru, John
Hughesdon, tjáði hann mér að bresk skólayfirvöld, sem gengið hafa langt í að draga úr
kennslu í kristnum fræðum, í nafni umburðarlyndis gagnvart öðrum trúarbrögðum,
hafa nú leitað til biblíufélagsins þar í landi og óskað eftir ráðum um það hvaða hlutum
Biblíunnar nemendur þurfi að kunna skil á, eigi þeir að skilja dýrmætasta
menningararf þjóðarinnar – höfundarverk Williams Shakespears. Þar hefur orðið
siðrof, jafnt menningarlegt og trúarlegt.
Annað dæmi lýsir sér í viðmiklu verkefni sem hleypt hefur verið af stokkunum í
Bandaríkjunum. Þar hafa menn gert sér grein fyrir afleiðingum þess að úthýsa
kristnum fræðum úr skólum. Í ljósi þeirrar reynslu hefur fjöldi öflugra aðila hleypt af
stokkunum verkefni sem nefnist „Bible literacy project“4. Hverfist verkefnið í
kringum útgáfu kennslubókar sem ber titilinn „The Bible and its influence“. Hefur
bókinni verið vel tekið og æ fleiri skólar, í æ fleiri ríkjum Bandaríkjanna, hafa nú
kosið að taka hana til notkunar í kennslu. Varpar hún með lifandi hætti ljósi á þau
órjúfanlegu tengsl sem milli Biblíunnar eru og menningar þjóðarinnar, jafnt í
bókmenntum, stjórnmálum, kvikmyndum, myndlist og á öðrum sviðum mannlífsins.
Bókin er viðspyrna gegn þróun sem leitt getur til siðrofs. Hún er heillandi og er í raun
samantekt á þeirri áhrifasögu sem Biblían á þar í landi og í heimsmenningunni.
Tengsl af þessu tagi eru allt um kring sýnileg hér á landi einnig eins og eðlilegt er eftir
þúsund ára samleið þjóðar og kirkju. Á þetta hefur dr. Gunnlaugur A. Jónsson,
prófessor í gamlatestamentisfræðum, verið óþreytandi að benda á í ræðu og riti á
síðustu áratugum. Bendir margt til þess að hann hafi verið meðal fyrstu fræðimanna á
sínu sviði til að leggja áherslu á þessi tengsl í rannsóknum sínum. Hefur það
4 http://www.bibleliteracy.org Heiti verkefnisins gæti útlagst sem: „Verkefni um biblíulæsi“.