Gerðir kirkjuþings - 2010, Síða 153
153
3. Innihald fræðslunnar
3.1 Kjarni kristinnar trúar
Fræðslan þarf að hafa ákveðið innihald og við val á því þarf að taka mið af
meginmarkmiðum starfsins. Fræðslan skal höfða til eftirfarandi námsþátta, þ.e.a.s.
vitsmunalegra, leikni- og viðhorfaþátta.
Vitsmunalegi þátturinn tengist allri þeirri þekkingu sem við viljum að börnin tileinki
sér. Börnin þurfa að læra helstu frásögur Biblíunnar, hugtök, hugmyndir og læra að
draga lærdóm af þeim. Leikniþátturinn snýr meira að hinu trúarlega atferli, hlutum
eins og að læra að biðja, taka þátt í guðsþjónustunni og kirkjulegum athöfnum. Öll
umfjöllun um breytni og siðferði tengist viðhorfasviðinu. Hér er átt við í hversu ríkum
mæli hið trúarlega hefur áhrif á breytni, samskipti við aðra og umgengni við
sköpunarverkið.
Ljóst er að þessir þættir skarast meira og minna en mikilvægt er að hafa þá í huga
þegar starfið er skipulagt.
Höfuðáhersla skal lögð á ákveðinn fræðslukjarna og er það líklega best tryggt með því
að öllum börnum standi til boða lágmarksfræðsla. Að auki skal bætt við þennan kjarna
eins og þurfa þykir.
Innihaldið skal taka mið af kjarna kristinnar trúar. Efni fræðslunnar skal ná til:
Boðorðanna, trúarjátninga, bæna og sakramenta. Biblíutextar skulu sóttir í Gamla og
Nýja testamentið. Textar um Krist skulu vera í fyrirrúmi.
Við val á efni fræðslunnar skal tekið mið af aðstæðum og reynsluheimi barnanna,
bæði í safnaðarstarfinu og samfélaginu almennt.
3.2 Fræðsluefni fyrir barnastarfið
Fræðslan skal veita haldgóða þekkingu á boðskap kristinnar trúar og vera hjálp til að
lifa sem kristinn lærisveinn. Þættir sem komið skal inn á eru:
• Skírnarfræðslan á að veita grundvallarþekkingu á Guði, veita hjálp til að játa trúna
og lifa trúarlífi. Barnið á að fá vitneskju um skírnina og altarissakramentin. Auk
þess á það að fá leiðsögn til að geta lifa trúarlífi.
• Barnið fræðist um innihald Biblíunnar, læri að þekkja helstu frásögur hennar og
fái hjálp til að nota hana.
• Barnið fái innsýn í guðþjónustuna og hjálp til að taka virkan þátt í henni.
• Kirkjuárið sé undirstrikað með því að halda merkisdaga og hátíðisdaga kirkjunnar
hátíðlega. Börnin verði læs á táknmál kirkjunnar, þekki liti kirkjuársins og
undirstrika skal mikilvægi venja í lífi og þroska barnsins.
• Hjálparstarf og kristniboð skal kynnt og höfða skal til samábyrgðar og samhjálpar.
Undirstrika skal ábyrgð barnanna á náunganum.
• Í skírnarfræðslunni verði miðlað þekkingu á boðorðunum tíu, tvöfalda
kærleiksboðorðinu og börnunum hjálpað til að lifa í samræmi við boðskap þeirra,
bæði á heimilunum og í skólanum.
3.3 Áherslur og skipulag fræðsluefnis
Við skipulag fræðslunnar skal höfuðáhersla lögð á samband barnsins við Guð, tengsl
við söfnuðinn og nánasta umhverfi. Taka skal mið af textum kirkjuársins eins og hægt
er við val á biblíutextum og þegar innihald fræðslunnar er skipulagt. Lögð skal áhersla
á eftirfarandi þemu þegar biblíutextar eru valdir:
1. Kærleikur Guðs.
2. Ævi Jesú.
3. Að vera lærisveinn.