Morgunblaðið - 13.01.2016, Síða 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 13. JANÚAR 2016
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Markmið hátíðarinnar er að kynna franska
kvikmyndagerð fyrir Íslendingum,“ segir Guð-
rún Sæmundsen, menningar- og vísinda-
fulltrúi Franska sendiráðsins, um Frönsku
kvikmyndahátíðina 2016 sem sett verður í 16.
sinn næsta föstudag í Háskólabíói og stendur
til 27. janúar. Að vanda verða sýndar tíu
myndir á hátíðinni sem allar eru nýjar eða ný-
legar, en dagana 17. til 24. janúar verða sýndar
fimm myndir í Borgarbíói á Akureyri og eru
þær taldar upp aftast í fylgjunni hér að neðan.
Er það í fimmta sinn sem hátíðin er haldin á
Akureyri.
Glæný opnunarmynd
„Að hátíðinni standa Alliance française í
Reykjavík, sendiráð Frakklands á Íslandi og
Græna ljósið,“ segir Guðrún og bendir á að að
jafnaði sækja um tíu þúsund áhorfendur hátíð-
ina á ári hverju. „Aðsóknin var óvenjugóð í
fyrra, en opnunarmyndin þá, Ömurleg brúð-
kaup, var sýnd áfram í tólf vikur eftir að hátíð-
inni lauk,“ segir Guðrún og tekur fram að vin-
sælustu myndirnar eru ávallt sýndar eitthvað
áfram eftir að hátíðinni lýkur.
Spurð hvernig myndir hátíðarinnar séu
valdar segir Guðrún samstarfsaðila hátíð-
arinnar velja myndirnar í sameiningu. „Við
reynum að hafa eitthvað fyrir alla, þ.e. blöndu
af gamni og alvöru auk þess sem við viljum
vera með barnamynd,“ segir Guðrún og bendir
á að margar myndanna í ár hafi hlotið mjög
góðar viðtökur erlendis og nokkrar unnið til
frönsku Césars-verðlaunanna. „Flestar mynd-
anna eru frá Frakklandi, en ein er frá Kanada
og önnur er frönsk-máritanísk. Allar hafa
myndirnar hlotið viðurkenningar af einhverju
tagi og viðfangsefnin eru margvísleg eins og
vænta má og því ættu allir að finna eitthvað við
sitt hæfi.“
Opnunarmyndin í ár er gamanmyndin
Babysitting 2. „Hún er glæný, því hún var
frumsýnd í Frakklandi 2. desember sl. og hef-
ur notið mikilla vinsælda þar í landi því nú
þegar hafa hátt í þrjár milljónir manna séð
myndina í Frakklandi,“ segir Guðrún og tekur
fram að myndin sé sjálfstætt framhald af
Babysitting frá árinu 2014, en ekki séð nauð-
synlegt að hafa séð fyrstu myndina til að geta
notið framhaldsins. Að sögn Guðrúnar er einn
aðalleikari í myndinni Christian Clavier, en
hann lék einmitt föðurinn í opnunarmynd síð-
ustu hátíðar, Ömurlegum brúðkaupum.
Heiðra minningu Sólveigar
Lokamynd hátíðarinnar í ár er Drottningin í
Montreuil (Queen of Montreuil) í leikstjórn
Sólveigar Anspach. „Við sýnum myndina til að
heiðra minningu Sólveigar,“ segir Guðrún og
bendir á að Clara, dóttir Sólveigar, verður við-
stödd sýningu myndarinnar 27. janúar.
Allar nánari upplýsingar um myndir hátíð-
arinnar og sýningartíma er á vefnum fff.is.
Þess má geta að allar eru myndirnar textaðar
ýmist með íslenskum eða enskum texta.
„Eitthvað fyrir alla“
Franska kvikmyndahátíðin sett í Reykjavík í 16. sinn á föstudag Fer í framhaldinu til Akureyrar
Drottningin af Montreuil sýnd til að heiðra minningu Sólveigar Anspach kvikmyndaleikstjóra
Morgunblaðið/Eggert
Fjölbreytni „Viðfangsefnin eru margvísleg eins og vænta má og því ættu allir að finna eitthvað
við sitt hæfi,“ segir Guðrún Sæmundsen sem starfar hjá franska sendiráðinu á Íslandi.
Heiðruð Drottningin í Montreuil eftir Sól-
veigu Anspach verður sýnd.
Drottningin í Montreuil
(The Queen of Montreuil) – 2012
Leikstjóri: Sólveig Anspach
Agathe syrgir eiginmann sinn sem
dó sviplega og veit ekki hvað hún á til
bragðs að taka. Íslensk mæðgin, sæ-
ljón og einn nágrannanna koma inn í
líf hennar og kannski nær hún áttum
á ný.
Felix og Meira
(Félix et Meira) – 2014
Leikstjóri: Maxime Giroux
Myndin var framlag Kanada til
Óskarsverðlauna. Hún fjallar um
Felix og Meiru, sem við fyrstu sýn
eiga ekkert sameiginlegt, en verða
óvænt ástfangin.
Hann Gus litli og langferðin (Gus pe-
tit oiseau, grand voyage) – 2014
Leikstjóri: Christian De Vita
Teiknimynd sem fjallar um fugl
sem ákveður að kanna heiminn í stað
þess að fljúga beinustu leið suður á
bóginn að hausti í fylgd með öðrum
farfuglum.
Hippókrates (Hippocrate) – 2014
Leikstjóri: Thomas Lilti
Myndin hlaut sjö tilnefningar á
frönsku Césars-verðlaunahátíðinni.
Benjamíns bíður það að verða merki-
legur læknir, um það efast hann
ekki. En þegar hann svo hefur
starfsnám á deildinni hjá föður sín-
um þá fer ekkert eins og hann bjóst
við. Verklegi hlutinn reynist mun
vandasamari en sá bóklegi. Ábyrgðin
er yfirþyrmandi, faðir hans er fjar-
verandi og Abdel, samnemandi hans,
er erlendur læknir og mun reyndari
en hann.
Konungurinn minn
(Mon roi) – 2015
Leikstjóri: Maïwenn
Myndin var frumsýnd í Frakk-
landi í október síðastliðnum en var
sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes
sl. vor. Þar hlaut leikkonan, Emm-
anuelle Bercot, verðlaun fyrir bestan
leik konu í aðalhlutverki. Tony, sem
er í endurhæfingu eftir alvarlegt
skíðaslys, fer að rifja upp storma-
samt samband sitt og Georgios, sem
Vincent Cassel leikur.
Lóló (Lolo) – 2015
Leikstjóri: Julie Delpy
Myndin var frumsýnd á kvik-
myndahátíðinni í Feneyjum í sept-
ember sl. Hún fjallar um tilhugalíf
Violette (sem Julie Delpy leikur) og
Jean-René. Lolo, heittelskaður son-
ur Violette, svífst einskis til að spilla
sambandi skötuhjúanna og halda
stöðu sinni sem uppáhald móður
sinnar.
Minningar (Les Souvenirs) – 2014
Leikstjóri: Jean-Paul Rouve
Romain er 23 ára öryggisvörður
sem fær dag einn það hlutverk að
leita að 85 ára gamalli ömmu sinni
sem strokið hefur af elliheimili sínu.
Ráðherrann (Quai d’Orsay) – 2013
Leikstjóri: Bertrand Tavernier
Fjallar um samskipti Alexandres
Taillard de Worms, utanríkisráð-
herra Frakklands, og Arthurs Vlam-
inck doktorsnema, sem ráðinn er til
að skrifa ræður ráðherrans. Arthur
þarf að glíma við kenjar ráðherrans
og alla hirðina í kringum stórmennið.
Timbúktú (Timbuktu) – 2014
Leikstjóri: Abderrahmane Sissako
Myndin hlaut sjö verðlaun á Cés-
ars-verðlaunahátíðinni í Frakklandi
sl. vor, m.a. sem besta myndin og
fyrir bestu leikstjórn. Hún hlaut
verðlaun á Cannes-kvikmyndahátíð-
inni 2014 og var tilnefnd til Óskars-
verðlauna sem besta erlenda mynd-
in. Kidane Mene lifir nægjusömu lífi
ásamt Satimu eiginkonu sinni, Toyu
dóttur þeirra, og Issan, 12 ára smala-
dreng, á söndunum skammt frá
borginni Timbúktú. Myndin segir frá
því þegar íslamistar taka völd í höf-
uðborginni og nærsveitum og hvern-
ig nýjum siðum er þröngvað upp á
fólk sem fær ekki rönd við reist.
Út og suður (Babysitting 2) – 2015
Leikstjórar: Nicolas Benamou og
Philippe Lacheau
Gamanmynd sem fjallar um ævin-
týralega för vinahóps til Brasilíu.
Myndin var frumsýnd í Frakklandi
2. desember sl. og hefur notið mikilla
vinsælda þar í landi.
Allar ofangreindar myndir verða
sýndar í Háskólabíói dagana 15. til
27. janúar. Dagana 17. til 24. janúar
verða eftirtaldar myndir síðan sýnd-
ar í Borgarbíói á Akureyri: Hippo-
crate, Les Souvenirs, Quai d’Orsay,
Timbuktu og Babysitting 2.
Sýna tíu ólíkar myndir
Ráðherra Raphaël Personnaz og
Thierry Lhermitte í Quai d’Orsay.
Verðlaunuð Myndin Timbuktu
hlaut sjö Césars-verðlaun sl. vor.
Vinsæl Um þrjár milljónir Frakka
hafa séð Babysitting 2 sl. mánuð.
Fæðing Vincent Cassel og Emm-
anuelle Bercot í Mon Roi.
Bíldshöfða 16, 110 Reykjavík 414 84 00 www.martex.is
Góð þjónusta
byrjar með
flottum fatnaði.