Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.02.2016, Blaðsíða 48
48 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.2. 2016
LESBÓK
Ég hika við að sýna inn á verk-stæðið, aðallega ef hlutirnireru á frumstigi. Ég er ekki
einn af þeim sem hentar vel að
kjafta snemma frá hugmyndum; þá
vill vindurinn fara úr þeim. Mér
finnst ég þurfa að halda í mér,“ seg-
ir Þórarinn Eldjárn þegar hann er
spurður að því hvort hann hiki við
að segja fólki frá því hvað hann sé
að skrifa hverju sinni. Hann er því
orðvar ef hann er að byrja á nýju
verki en segir að þegar hann sé
kominn vel á veg geti hann hiklaust
sagt hvað hann sé að fást við. „Ég
get því alveg upplýst að næst geri
ég ráð fyrir að gefa út smásagna-
safn. Og á nú þegar góða bjóra í
ljóðabók. Svo er ég með skáldsögu í
deiglu – en segi að sjálfsögðu ekki
um hvað hún er,“ segir hann.
Rithöfundarferill Þórarins er orð-
inn langur og verkin sem hann hef-
ur sent frá sér síðan snemma á átt-
unda áratugnum eru furðumörg:
kvæðasöfn, smásagnasöfn, skáld-
sögur, þýðingar á skáldsögum, ljóð-
um og leikritum, svo ekki sé minnst
á ljóðabækurnar vinsælu fyrir börn
sem hann hefur unnið margar með
myndlistarkonunni Sigrúnu systur
sinni. Og er þá ekki allt upp talið. Ef
nafn Þórarins er slegið inn á leitar-
vél bókasafna, Gegnir.is, birtist listi
upp á 46 síður. Auk bóka Þórarins
eru það ýmsar útgáfur ljóða og
söngtexta, greinar, erindi og önnur
skrif. Hann gerðist ungur atvinnu-
höfundur og hefur síðan setið við og
skapað. Flakkar hann á milli ljóða,
smásagna og skáldsögunnar?
„Ég flakka sífellt á milli. Sér-
staklega í öllum aðdraganda að
verkunum,“ svarar hann. „Það er
tengt því að ég er alltaf að krota hjá
mér hugmyndir og gera atrennur og
áhlaup að hinu og þessu. Það er allt
í belg og biðu og fer líka eftir því í
hvaða form hugmyndir leita. Þær
geta verið allt frá einu eða tveimur
orðum sem ég rekst á og sé að ljóð
getur spunnist út frá, að flóknari
hugmynd, sem gæti orðið smásaga
eða kjörið efni í skáldsögu. En þeg-
ar nær dregur útgáfu breytir vinn-
an um eðli. Þá eru loturnar lengri
og ég veit hvert ég stefni.
Listamönnum þykir misgott að
vinna undir pressu, ég get það ekki
ef ég er of stutt kominn. En um leið
og mér finnst ég ná utan um verkin
og þykist hafa alla þræði í hendi
mér, þá vil ég gjarnan pressu. Þá er
fínt að maður sjálfur eða helst út-
gefandinn gefi skýr fyrirmæli um
hinstu skil. Í kjölfarið verð ég lús-
iðinn, allt að því þrælslundaður.“
Þegar spurt er hvort hann sé með
niðurnjörvaðan vinnutíma, segir
Þórarinn að það sé mismunandi.
„Ég leitast samt við að vinna í föst-
um lotum, og svo er það misjafnt ef
ég sit við frá klukkan átta til tólf á
morgnana, eða eitthvað þar um bil,
hvort tíminn fari allur í eitt verkefni
eða hvort ég flakki á milli fleiri
verka. Það fer eftir því hvar hlut-
irnir eru staddir. En slímusetur dag
hvern eru mjög mikilvægar.“
Þýðingar sérstök deild
Á ferlinum hefur Þórarinn reglu-
lega tekist á við þýðingarverkefni.
Hann hefur til að mynda þýtt skáld-
verk úr sænsku og öðrum Norður-
landamálum og nýverið leikrit
Shakespeare, Lé konung og Mac-
beth. Veita þýðingarnar hvíld frá
eigin skrifum eða bætast einfaldlega
í stabbann?
„Þýðingar eru eiginlega sérstök
deild – eru allt annars eðlis en mín
skrif,“ segir hann og að það geti þó
verið býsna snúið að þýða, sér-
staklega á bundnu formi eins og
verk Shakespeare. „En þó þetta sé
erfið vinna sem útheimtir mikla um-
hugsun og útsjónarsemi í sambandi
við tungumálið, þá þarf ég ekki að
skálda verkið upp sjálfur og ábyrgð-
in á því hvort verkið er gott eða
vont hvílir ekki á mér. Ég þykist
hafa það mikið sjálfsöryggi að ég
get alveg þýtt svona hluti boðlega.
Ég er fyrst og fremst að vinna í því
að halda trúnað við frumhöfundinn.
Þýðingarvinna getur stundum
verið allt að því líkamleg, og að-
allega ef maður er að þýða prósa
eða leikverk sem er á tiltölulega
eðlilegu, daglegu máli. Þá þarf ekki
innblástur, bara nóg af útblæstri.
Bundna málið er erfiðara. Þegar
þýtt er á íslensku bætast við þær
skorður sem stuðlarnir setja og
bragskemað. Það er til dæmis mikill
munur á ensku og íslensku þó málin
séu skyld um margt. Enska er mik-
ið eins atkvæðis mál, en íslenskan
er beygingarmál og aftan við orðin
bætast svo og svo mörg atkvæði,
eftir því í hvaða falli þau standa og
hvort það er greinir eða ekki. Þetta
getur verið mikil þraut, til dæmis
við að þýða Shakespeare þar sem
atkvæðafjöldi í línu er fastsettur.
Annars hef ég gert tilraunir og
ort ljóð á íslensku með tómum eins-
atkvæðisorðum.“
Þanþol ljóðstílsins
– Þú hefur verið tilraunaglaður með
formið og hefur reynt að beygja það
og sveigja.
„Já, ég hef áráttu til orðaleikja og
eins þess að kanna möguleika ís-
lenskunnar á alla enda og kanta.
Það hefur alltaf fylgt mér.“
– Íslenskan hefur ögrað þér og þú
henni?
„Já. Halldór Laxness notar mjög
gott orð í formála að Kvæðakverinu,
þanþol. Hann talar um rannsóknir
sínar á þanþoli ljóðstílsins. Ég hef
reynt að fylgja áfram þeirri rann-
sóknarhefð.“
– Í samtali í Tímariti Máls &
menningar fyrir aldarfjórðungi seg-
ist þú vinna hægt þegar þú skrifar
bundið mál. Er sú enn raunin?
„Já, og reyndar með allt. Til
dæmis smásögurnar. Ef ég hef gert
mér grein fyrir því hvert ég ætla
með sögu, þá reyni ég að vísu að
rusla henni upp sem hraðast. Til að
ná utan um efnið. Svo fer ég að
nostra. Þetta eru kannski áhrif frá
því að hafa verið svona mikið í
ljóðagerð og hefðbundnum brag.
Því ef þú ætlar að yrkja sonettu þá
veistu hvernig ramminn er: fjórtán
línur og ákveðnar meginreglur
gilda um það hvernig efnið er sett
fram og svo klykkt út með ein-
hverju í endinn. Í bundnum ljóðum
vinn ég eins, útbý druslulínur og
jafnvel heilar druslur sem ég breyti
svo. Það er ekki eins og þetta
stökkvi út úr hausnum á manni
fullmótað. Ég hef stundum lent á
hagyrðingamótum og öfunda þessa
snillinga sem geta kastað fram
stökum á staðnum. Ég er meira í
því að kasta þeim upp. En oft er
svo sem heilmikið svindl í gangi á
þessum samkomum …,“ segir hann
íbygginn og þagnar.
– Kvæðin þín hafa bæði verið
bundin og óbundin, hvað stýrir því?
„Það getur farið eftir því hver
grunnhugmyndin er, eða út frá
orðafari. Kannski er ég á hlaupum
einhvers staðar og sé allt í einu eitt-
hvað sem kveikir hugmynd eða
verður að mynd sem passar í ljóð.
Hika við að sýna inn á verkstæðið
„Ég hef áráttu til orðaleikja og eins þess að kanna möguleika íslenskunnar á alla enda og kanta. Það hefur alltaf fylgt mér,“ segir
Þórarinn Eldjárn. Hann er mikilvirkur höfundur í hinum ýmsu formum bókmennta og ræðir hér um starfið og nálgun við skrifin.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is