Náttúrufræðingurinn - 2015, Síða 36
Náttúrufræðingurinn
128
um bláklukku sem óx á litlum
bletti í 25–30 ár án þess að dreifast
nokkuð, og hvarf síðan aftur án
þess að nokkur augljós ástæða
fyndist.4 Annað dæmi þekki ég frá
Þingmannaleiðinni yfir Vaðlaheiði
þar sem Jón Rögnvaldsson fann
lítinn blett með bláklukku fyrir
1932.15 Ég fylgdist með þessum
bletti í um 50 ár, en hann stækkaði
lítið sem ekkert, og nú er hann
týndur eða ef til vill alveg horfinn.
Annað nærtækt dæmi er
krossmaðran (Galium boreale), sem
er landlæg á öllu Suðvesturlandi
frá Hvammsfirði suður og austur
að Eyjafjallajökli. Utan þess
svæðis er hún aðeins á misstórum
smáblettum við umferðaræðar um
Norður- og Austurland. Hún er
hins vegar á nokkrum svæðum farin
að breiðast nokkuð út frá þessum
blettum, einkum á innanverðu
Fljótsdalshéraði og í Fljótsdal, og í
vestanverðri Húnavatnssýslu. Þessi
útbreiðslumynstur bláklukkunnar
og krossmöðrunnar verða að mínu
mati ekki skýrð út frá loftslagi
né öðrum umhverfisþáttum.
Nærtækasta skýringin er sú að
plönturnar hafi borist snemma til
landsins, bláklukkan til Austurlands
en krossmaðran til Suðvesturlands,
líklega fyrir um 5–10.000 árum.
Á þessum langa tíma hefur þeim
tekist að dreifast langar leiðir út frá
upphafsstaðnum, og um leið fyllt
landið og orðið landlægar á þeim
svæðum sem þær komust yfir. Eftir
landnám gafst þeim hins vegar
nýr möguleiki til fjardreifingar með
ríðandi umferð, og þannig komu
til þessir dreifðu smáblettir víðs
vegar um landið. Tíminn síðan
um landnám er hins vegar enn
ekki orðinn nógu langur til að þær
geti myndað samfellda útbreiðslu
og orðið landlægar á hinum nýju
svæðum.
Þriðja dæmið af skyldum toga
er hundasúran, Rumex acetosella.
Samkvæmt útbreiðslukortunum
virðist hún nú útbreidd um allt
landið, einkum á byggðum svæðum,
en samt sem áður er mikill munur á
dreifingu hennar eftir landshlutum.
Hundasúran er landlæg um
Suðurland og Vesturland og einnig
nokkuð norður með Austfjörðum
og væntanlega búin að vera þar
lengi. Annars staðar, svo sem á
austanverðu Norðurlandi, Norð-
austurlandi og Fljótsdalshéraði er
hún ekki landlæg heldur nýlegur
landnemi sem aðeins finnst á
landgræðslusvæðum, meðfram
vegum og annars staðar þar sem
umferð er mikil. Á bernskuárum
mínum í Eyjafirðinum var hunda-
súra ekki til þar, nema hún var
komin til Möðruvalla í Hörgárdal
og hafði einnig fundist á Oddeyri.15
Sama er að segja um Þingeyjarsýslur,
þar var hún aðeins til sem fágætur
slæðingur. Síðar hefur hún borist um
þennan landshluta með ofaníburði
og landgræðslu Vegagerðarinnar,
með tækjum sem plægja niður
jarðstrengi eða með sáningum í
kjölfar slíkra framkvæmda, og síðast
en ekki síst í miklum mæli á öllum
athafnasvæðum Landgræðslunnar.
Hvar sem farið er út fyrir áhrifa-
svæði nefndra framkvæmda í
þessum landshluta finnst að jafnaði
engin hundasúra, gagnstætt því
sem er á Vestur- og Suðurlandi.
Skoðum nú nýrri slæðinga, þá
sem borist hafa til landsins með
manninum og dreifst um landið
síðar. Engir slæðingar hafa dreifst
eins hratt um landið í seinni tíð og
hlaðkollan (Chamomilla suaveolens)
og akurarfinn (Stellaria graminea).
Báðir eru meira eða minna
dreifðir um allt land samkvæmt
útbreiðslukortum. Hlaðkollan barst
til landsins um 1895 og hefur síðan
dreifst hratt um byggðir landsins.16
Hún virðist dreifast einkum með
bíldekkjum og skósólum og nam
því fyrst land við allar hafnir, á
bílastæðum og hvarvetna á
sveitabæjum þar sem flutningabílar
athafna sig, svo og í hlaðvörpum
og á gangstígum. Hún er hins
vegar hvergi orðin landlæg, finnst
nánast hvergi í flögum eða móum
utan umferðaræða né heldur uppi
um heiðar. Akurarfinn er líklega
eitthvað eldri í landinu, fyrsta
heimild um hann er frá Akureyri
1861.17 Litlum sögum fer af honum
fyrstu áratugina en upp úr 1930
er hann farinn að dreifast nokkuð
um landið.18 Síðan hefur hann
breiðst hratt út og er nú fyrir löngu
kominn í flestar byggðir landsins
og heim á flesta sveitabæi. Hann
vex mest í þéttgrónu landi innan
um gras eða stör. Eins og hlaðkollan
fylgir hann aðeins byggðinni og
landbúnaðinum, en er hvergi orðinn
landlægur. Þessi og fleiri dæmi
benda til þess að þótt slæðingar geti
dreifst hratt um landið með umferð
og athafnasemi mannsins, þá dugi
100–200 ár hvergi nærri til að þeir nái
fullri dreifingu og verði landlægir.
Með tímanum er hins vegar líklegt
að hlaðkollan nemi land í rökum
flögum og á malarkenndum eyrum
líkt og krossfífill (Senecio vulgaris),
lambaklukka (Cardamine hirsuta) og
skurfa (Spergula arvensis) hafa þegar
gert. Þessar þrjár síðastnefndu
tegundir voru komnar löngu á
undan hlaðkollunni og eru orðnar
landlægar á Suðvesturlandi í þeim
gróðurlendum sem henta þeim.
Þær voru löngu orðnar ílendar í
þeim landshluta um aldamótin 1900
þegar fyrsta útgáfa Flóru Íslands
kom út, og þeirra er getið um miðja
18. öld í ferðabók Eggerts og Bjarna19
og í plöntulista Königs.20,21 Líklegt
er að þær hafi borist til landsins um
eða eftir landnám, eða jafnvel fyrr.
Þótt þær séu orðnar landlægar á
Suðvesturlandi hafa þær ekki náð
að breiðast út um allt landið.
Þá víkur sögunni að tegundum
sem bárust með landnámsmönnum
til Íslands og eru því búnar að
vera hér í um það bil 1.100 ár.
Góð dæmi um slíkar tegundir eru
njóli (Rumex longifolius), húsapuntur
(Elytrigia repens) og baldursbrá
(Tripleurospermum maritimum). Afar
litlar líkur eru á því að þær hafi verið
komnar til landsins fyrir landnám.
Baldursbráin gæti þó verið eldri og
hafa borist með hafstraumum eða
fuglum. Baldursbráin hefur oftar en
einu sinni borist til Surtseyjar, í eitt
skiptið örugglega með fuglum, en
í hin skiptin líklega með sjónum.22
Þessar tegundir eru dreifðar
um mestallt landið samkvæmt
útbreiðslukortum en fylgja alfarið
byggðinni. Njólinn hefur dreifst
NFr_3-4 2015_final.indd 128 30.11.2015 16:34