Náttúrufræðingurinn - 2015, Side 62
Náttúrufræðingurinn
154
2. mynd. Útsýni frá Nýlendu á Mýrum til vesturs. Næst þjóðvegi er ónefnd vegtjörn (hluti af
Nýlenduvatni áður en vegurinn var lagður). Fjær er Tangatjörn þar sem hefur orpið hátt í
tugur lómspara. – A view from Nýlenda towards west. Next to the road is a small pond, which
used to be part of the larger Lake Nýlenduvatn. Further afield is Lake Tangatjörn occupied by
nearly ten pairs of Red-throated Divers. Ljósm./Photo: Ævar Petersen, 3. júní 2010.
var með því í fjarsjá hvar refurinn
faldi eggið. Fann Ib eggið óskemmt.
Í millitíðinni hafði refurinn haldið
áfram vestur fyrir tjörnina þar sem
hann sást ræna annað lómshreiður.
Austan við tjörnina sveigði dýrið frá
henni og skokkaði yfir mýri þar sem
er svartbaksvarp. Þar sást hann taka
egg úr svartbakshreiðri og fela.
Áfram hélt refurinn og kom næst
að norðvesturhorni Nýlenduvatns
(3. mynd). Á annan tug lóma
hefur orpið árlega við vatnið síðan
rannsóknir hófust. Hélt refurinn
austur með vatninu, staðfastlega
með vatnsbakkanum. Kindur
sem voru á svæðinu ömuðust við
rebba og hraktist hann frá vatninu,
tók á sig krók en kom að því
aftur aðeins austar. Nokkrir lómar
urpu þetta sumar á norðurströnd
Nýlenduvatns en egg höfðu horfið
úr flestum hreiðrum þegar hér var
komið sögu. Fuglarnir höfðu ekki
orpið að nýju en sé eggjum rænt
líður hálfur mánuður þangað til
lómar geta orpið að nýju.3 Við
norðausturhorn vatnsins fann rebbi
þó eitthvað sem talið var lómsegg.
Þetta ár (2010) var lómavarp mun
seinna á ferðinni en árið áður og
er nokkuð víst að refir hafa valdið
seinkun með því að ræna hreiðrin
fljótlega eftir að orpið var í þau.
Aðrir afræningjar á svæðinu eru
svartbakar, hrafnar og kjóar.
Nú hélt refurinn áfram og að
Sand vatni, sem er næsta vatn
austan Nýlenduvatns. Eiði er á
milli vatnanna, aðeins um 15 m þar
sem það er mjóst. Kom refurinn
að norðausturhorni Sandvatns
en þar skammt undan landi er
steinn í vatninu. Þar var áður hólmi
sem nú er löngu horfinn. Hann
hét Sandvatnshólmi og urpu þar
himbrimar árið 1858. Voru eggin
tekin og komust í hendur Johns
Wolleys sem þá var hér á landi.4
Wolley átti gríðarmikið eggjasafn og
er það varðveitt í British Museum í
Englandi.
Sumarið 2010 varp himbrimi
við Sandvatn og var hreiðrið í
norðausturhorni vatnsins gegnt
staðnum þar sem Sandvatnshólmi
var fyrrum. Eftir að refurinn kom
yfir að Sandvatni hélt hann áfram
för sinni austur með vatninu og
þræddi vatnsbakkann sem fyrr.
Ekki leið á löngu þar til hann
kom í námunda við himbrimann
á hreiðri sínu. Hófst nú áhugaverð
atburðarás.
Þegar rebbi nálgaðist smeygði
fuglinn sér af hreiðrinu en hélt sig
fast við vatnsbakkann. Í hreiðrinu
voru tvö egg sem sáust greinilega
þótt fjarlægðin væri um 425 m. Maki
álegufuglsins var ekki viðstaddur
en hann hefur sjálfsagt verið úti á
sjó í fæðuleit.
Þegar refurinn átti nokkra metra
eftir að hreiðrinu lyfti himbriminn
sér upp, breiddi vængina út og
buslaði með fótunum svo skvettur
gengu í allar áttir.5 Þetta atferli
er dæmigert fyrir himbrima þegar
óviðkomandi, svo sem mannfólk,
er við hreiðrið þótt misjafnt sé
hvað einstakir fuglar eru æstir eða
árásargjarnir. Þegar fuglinn lét
sem verst hörfaði refurinn lítið
eitt og við það róaðist himbriminn.
Þannig gekk í nokkur skipti
þangað til refurinn tók að grafa
með framlöppunum og var hann
þá 1–2 m frá hreiðrinu. Við það
róaðist himbriminn og sat stilltur
á vatninu framan við hreiðrið. Allt
í einu tók refurinn undir sig stökk
að hreiðrinu, greip annað eggið
í kjaftinn og hljóp burt áður en
himbriminn áttaði sig og faldi það
um 50 m í burtu. Skokkaði rebbi
svo áfram til austurs með ströndu
Sandvatns og hvarf en sneri ekki
til baka að hreiðrinu til að ná í hitt
eggið eins og við hefði mátt búast.
Má ætla að refurinn hafi byrjað
að grafa til þess að draga athygli
fuglsins frá raunverulegri ætlan
sinni, og sýnir það kænsku rebba.
Slíkt atferli er þekkt hjá ýmsum
tegundunum í dýraríkinu.
Árið 2010 fannst í Helgrindum
refagreni í ábúð, um 2 km frá
himbrimahreiðrinu, og var annað
grendýrið mórautt. Fjórum dögum
eftir að refurinn stal himbrima-
egginu skaut refaskytta mórauðan
ref á þessum slóðum og er líklegt að
þar hafi fallið dýrið sem stal egginu.
Af himbrimaparinu er það að segja
að varp misfórst og enginn ungi sást
á vatninu fram eftir sumri eins og
verið hafði árið áður.
Sárasjaldan verða menn sjónar-
vottar að atburðarás sem þessari,
hvað þá að afráni úr himbrima hreiðri,
og því eru nær engar skráðar lýsingar
NFr_3-4 2015_final.indd 154 30.11.2015 16:34