Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 9
KRÓKSARARNIR FRÁ JÓTLANDI
9
II
OLE BANG fæddist 23. mars 1905
í Árósum á Jótlandi, Århus á máli
heimamanna. Faðir hans hét Axel Kai
Bang (1874–1960) og var kennari í
Árósum, elstur níu systkina. Móðir hans
hét Ingeborg Bang (1877–1966), fædd
Jensen. Bæði voru þau ættuð frá Struer
á Jótlandi, sem er fámennt sveitarfélag á
danska vísu um þessar mundir og liggur
að Limafirði vestanverðum. Listfróðir
menn vita að Asger Jorn, einn þekktasti
myndlistarmaður Dana, er fæddur og
uppalinn þar í grennd. Í ljósi þess sem
síðar segir er það gráglettni örlaganna,
að Struer hefur fengið sérstaka
viðurkenningu fyrir öflugar forvarnir
gegn reykingum. Afi Bangs, Andreas
Bang (1843–1925) var læknir í Struer,
en amma hans, Emma Louise Bang
(1846–1919) var húsmóðir. Foreldrar
Ingeborgar voru Winfeldt Jensen
kaupmaður í Struer og Kirstine Jensen
húsmóðir. Tveir föðurbræður Bangs
voru lyfjafræðingar og annar þeirra, Otto
Bang, rak lyfsöluna í Toftlund á Jótlandi;
tvær föðursystur hans luku prófi í
lyfjafræði, önnur þeirra varð apótekari,
en hvorug giftist. Lyf og lyfjafræði hafa
vísast oft verið til umræðu umhverfis Ole
Bang í uppvextinum. Fjölskyldan var
tónelsk og mikið sungið á heimilinu og
leikið á hljóðfæri. Forfeður Bangs voru
embættismenn af betra borgarastandi,
löglærðir menn áberandi sem og prestar
og jafnvel liðsforingjar. Ekki var þeim
öllum gefin farsæld í fjármálum, en
ríkulegur vilji til mennta. Langafi Bangs
var hátt settur í embættismannakerfi
höfuðborgarinnar og bjó þar eða úti
á Friðriksbergi sem var og er sjálfstætt
sveitarfélag í miðri Kaupmannahöfn.
Skólaganga Bangs var eins og annarra
Systkinin Ole og Grete Bang. Myndin er tekin í Struer um 1914. Ljósm.: Úr einkasafni