Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 11
KRÓKSARARNIR FRÁ JÓTLANDI
11
Ole Bang með foreldrum
sínum í garði þeirra í
Árósum 1949. Axel Kai
Bang og Ingeborg Bang,
fædd Jensen.
Ljósm.: Úr einkasafni
togaraútgerð og ég hafði kynnzt honum
dálítið, og það hefur sjálfsagt orðið mér
til góðs. Þegar Jónas sá meðmælin frá
Skúla, sagði hann: „Já, þér skuluð kaupa
apótekið.“ – Svo mælti hann með því
að mér yrði veitt apótekarastarfið“ sagði
Bang í áðurnefndu viðtali við Björn
Daníelsson.
Þá var ekkert því til fyrirstöðu að hann
fengi lyfsöluleyfi sem „Vér Christian
hinn tíundi af guðs náð konungur“ veitti
honum. Bang undirritaði eiðstaf, svo
hljóðandi:
„Þar sem Hans hátign konunginum hefir
allramildilegast þóknast að veita mér leyfi
til að reka lyfjabúð þá á Sauðárkróki, er ég
hefi keypt, lofa ég hér með og heiti því, að
vera konunginum trúr og hlýðinn, að halda
stjórnskipunarlög ríkisins, og einkum að því
er stöðu mína snertir, að haga mér í einu
sem öllu lögum samkvæmt.
Svo sannarlega hjálpi mér Guð og hans
heilaga orð.“
Líklega var veröldin ögn hátíðlegri í
viðskiptalegu samhengi um 1930 heldur
en nú tíðkast. Sennilega hefur Bang hugsað
sér Sauðárkróks Apótek sem stökkpall til
frekari metorða í stétt lyfsala í Danmörku.
Þar var ákveðinn tröppugangur. Menn
byrjuðu feril sinn í hjálendunum eða í
smábæjum í Danmörku, en fikruðu sig
síðan inn í borgirnar þar sem vissa var
fyrir betri afkomu.
Bang kom út hingað að náminu
loknu og fluttist norður á Krók með
fyrri eiginkonu sinni, (Sesselju) Erlu
Þórarinsdóttur Egilson (1912–1997).
Foreldrar hennar voru Þórarinn Böðvar
Egilson (1881–1956) útgerðarmaður og
framkvæmdastjóri í Hafnarfirði og kona
hans Elísabet Guðrún Halldórsdóttir
Egilson (1888–1957). Langafi Erlu var
Sveinbjörn Egilsson rektor og skáld. Þau
Erla og Bang höfðu gengið í hjónaband
1931. Erla fluttist suður í janúar 1933,
en lögskilnaður þeirra var gerður 18.
september 1934.