Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 16
SKAGFIRÐINGABÓK
16
borðaði fræðaþulurinn einungis eftir
að hafa hreinsað vökvunina af þessum
framandi ávexti.
Þröngt var um Apótekið í gamla húsinu
þannig að Bang ákvað að stækka við sig.
Apótekið var sambyggt íbúð þeirra hjóna.
Gengið var upp nokkrar tröppur og ytri
dyrnar gengu að íbúðinni, en syðri dyrnar
að Apótekinu. Á vegginn þar á milli var
festur lítill skápur, aulýsingaskápur frá
Kodak, og þar voru hengdar upp ýmsar
tilkynningar, t.d. voru veðurskeytin
skrifuð upp og seðillinn hengdur upp í
skápnum, því að ekki áttu allir útvarp sem
vildu fylgjast með veðurspánni. Nokkuð
hátt afgreiðsluborð var í Apótekinu og
hillur bak við það en þar á bak við var
recepturinn; alls staðar hillur upp í loft.
Allra innst eða syðst í þessu húsnæði var
stigi niður í kjallara sem var undir öllu
húsinu og þar var m.a. spírageymslan.
Þetta var þröng vinnuaðstaða svo að Bang
byggði fljótlega við Apótekið. Hús var reist
að vestanverðu með tveimur herbergjum.
Annað þeirra var laboratorium, yfirleitt
kallað laboið, þar voru kæliskápur og
eimingartæki, hillur á öllum veggjum
upp í loft. Í hinu herberginu var
þvotta- og skolpont, einnig skápur til
dauðhreinsunar, hillur og skápar. Þetta
bætti aðstöðuna til muna. Síðar fékk
Bang leyfi til að byggja við húsið til suðurs
alveg að næsta húsi þar sem þau bjuggu
Unnur Magnúsdóttir og Jón Björnsson í
Gránu. Framkvæmdir hófust árið 1955
en Apótekið var opnað í nýbyggingunni
ári síðar, 1956. Dyr voru næst suðri á
húsinu og nokkuð stór útstillingargluggi
norður af þeim. Jólaútstilling var
alltaf sett í glugga Apóteksins þann 1.
desember en eftir hádegi á aðfangadegi
var þeirri útstillingu skipt út fyrir dökkt
flauelskennt efni en í öndvegi var mortél,
sem var þá táknrænt áhald lyfjafræðinga
notað við lyfjagerð. Mortélið sem notað
var í útstillinguna hefur fylgt lyfjasölu
á Sauðárkróki frá 1956 og má nú sjá í
afgreiðslu Lyfju við Hólaveg. Á það eru
grafin nöfn apótekaranna sem rekið hafa
Sauðárkróks Apótek.
Helgi Hálfdanarson og Lára
Sigurðardóttir á góðri stund í
garðinum bak við Apótekið.
Ljósm.: Úr einkasafni