Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 90
SKAGFIRÐINGABÓK
90
til 1906, fóru í eitt ár að Vatnsenda í
Kotunum en síðan aftur í fyrri híbýli.
Árið 1911 fóru þau til sonar síns í
Málmey en komu enn á ný í Litla-
Garðhús þegar Frans og Jóhanna fluttust
aftur í land árið 1914. Árið 1915 fluttust
þau Jónatan og Guðný alfarið á vegu
sonar síns og tengdadóttur, fyrst að
Skálá, síðan út í Málmey.1
Þótt Jónatan væri kominn hátt á
áttræðisaldur var hann enn nokkuð ern
og með ferlivist og veiðieðlið yfirgaf
hann aldrei. Þann 4. júlí 1919 fór
hann með byssu sína og gekk vestur að
lendingunni í Jarðfallinu. Þegar hann
kom ekki heim aftur var farið að svipast
um eftir honum og fannst hann loks
örendur í flæðarmálinu í Jarðfallinu.
Ekki sáust neinir áverkar á líkinu og
vissi enginn hvernig þetta hafði að borið,
talið að hann hefði fengið aðsvif og fallið
í fjöruna.
Björg Guðný Jónsdóttir vinnukona
gekk jafnan undir gælunafninu Bogga.
Hún var fædd í Hvammkoti á Höfða-
strönd 22. maí 1897, dóttir Jóns Árna-
sonar sem víða var í húsmennsku, m.a.
í Kotunum og á Bæjarklettum, og bú-
stýru hans, Lilju Halldórsdóttur. Lilja
var í Hofsósi við manntalið 1901 ásamt
þremur dætrum sínum sem allar voru
börn að aldri. Hún dó haustið 1902
og varð Bogga þá móðurlaus, einungis
fimm ára að aldri. Ólst hún síðan upp
hjá vandalausum og varð að fara í
vinnumennsku um leið og aldur leyfði.
Hún eignaðist fjögur óskilgetin börn
og hlutskipti hennar varð að þræla á
annarra vegum lengst ævinnar. Hún lést
í Reykjavík 24. ágúst 1975.
Bogga var enn vinnukona í Málmey
árið 1920 með Klöru Ísfold dóttur sína.
Bogga bar nú þunga undir belti og
þegar sýnt þótti að fæðing væri í aðsigi
var farið með hana upp á land þar sem
hún fékk inni í Lágubúð á Bæjarklettum
hjá Jóni Árnasyni föður sínum og
Margréti Árnadóttur konu hans. Þar
fæddi Bogga sveinbarn þann 12. febrúar
1920 sem hlaut nafnið Jón Margeir.
Jónatan Jónatansson og
Guðný Björnsdóttir.
Eig.: HSk. Vis 1167
1 Skagfirzkar æviskrár 1890–1910 IV, bls. 149–151; Byggðasaga Skagafjarðar VII, bls. 429–430.