Skagfirðingabók - 01.01.2015, Side 97
JÓN MARGEIR
97
kaupfélagsstjóri í Hofsósi bauð honum
að lesa með börnum sínum meðan
hann var í unglingaskólanum í Hofsósi.
Hann duldi áreiðanlega með sér miklar
væntingar og með ráðdeild og hagsýni
undirbjó hann framtíð sína. Þegar aldur
leyfði fór hann að sækja vinnu þar sem
tekjur var að hafa. Vitað er að hann var í
Hrísey a.m.k. eitt ár, skráður innkominn
þaðan í Hofssókn árið 1939. Oft sótti
hann vinnu til Siglufjarðar þar sem voru
góðir tekjumöguleikar á síldarárunum.
Miðvikudaginn 18. febrúar 1942
kom Jón Margeir utan af Siglufirði heim
í Móhús með póstbátnum sem Skafti
Stefánsson frá Nöf hafði þá í ferðum.
Morguninn eftir var gott veður og Jón
Margeir tók byssu sína og malpoka og
reri einn á pramma úr Bæjarvík út að
Þórðarhöfða. Hann var afburðaskytta
svo að enginn stóðst honum snúning í
skotfimi. Kippti honum þar vissulega
í kyn Jónatans í Bæ sem átti vart sinn
jafningja á skotveiðum.
Jón Margeir kom ekki heim úr þessari
ferð og var hans mikið leitað næstu daga.
Egill Jóhannesson á Syðra-Ósi kvaðst
hafa hitt Jón Margeir hinn örlagaríka
morgun, var þá á leið inn í Hofsós. Björn
í Bæ gekk um kvöldið fjöruna út að
Þórðarhöfða og fann þar tvo dauða fugla
í urð undir Þórðarhöfðanum. Síðar féll á
náttmyrkur en morguninn eftir og næstu
daga var leitað árangurslaust. Prammann
rak þremur dögum síðar úti á Skaga og
í honum byssa Jóns Margeirs og belti af
buxum hans, að því er Egil minnti.9
Mánuði eftir að Jón týndist voru
Pétur Jóhannsson í Glæsibæ og Gísli
Konráðsson í Sólvangi á ferð á trillu
sinni utan af Lónkotsmöl inn í Hofsós.
Þeir sigldu nálægt Þórðarhöfðanum
og komnir innfyrir Kögrið veittu þeir
athygli einhverju einkennilegu á lítilli
malarfjöru í botni Kaplavíkurinnar.
Sneru þeir að landi til að athuga nánar
og komust þá að raun um að þarna hafði
rekið upp líkamsleifar Jóns Margeirs.
Líkið var að vonum mjög skaddað eftir
mánaðarvolk í sjó og fjöru. Þeir tóku
það í bát sinn og héldu síðan áfram.
Jón Konráðsson í Bæ var hreppstjóri
sveitarinnar. Þangað sneru þeir stefni
upp í Bæjarvíkina og afhentu honum
farm sinn. Var líkið í fyrstu vafið í segl
og bundið ofan á spýtnabunka sem var
þar á klettunum.
Skrásetjari þessa þáttar spurði Jón
Björnsson frá Bæ, þá bónda á Hellulandi,
hvort hann myndi eftir því er komið var
með líkamsleifar Jóns Margeirs í Bæ.
Jón svaraði því til að hann yrði aldrei
svo gamall að hann gleymdi því. Hann
var þá á þrettánda árinu og gekk undir
gælunafninu Bússi. Skömmu eftir að
þeir Pétur og Gísli voru farnir kom Bússi
niður á Bæjarklettana, óafvitandi um
það sem gerst hafði, og ætlaði að sækja
sér spýtu í hlaðann. Svipti hann burtu
seglinu til að komast að timbrinu. Þeirri
sjón, er þá blasti við, sagðist hann aldrei
gleyma. Hann gekk frá og seldi upp.
Bússi sagði þetta alls ekki hafa verið
orðið að sundurlausum beinum, eins
og síðar kom fram í frásögnum, enda
er slíkt með ólíkindum þar sem líkið
var ekki búið að liggja nema mánuð er
það fannst. Búkurinn var heillegur, en
útlimir að einhverju leyti dottnir af og
líkið étið af marfló. Það var síðan móðir
9 Egill Jóhannesson frá Syðra-Ósi. Viðtal við höfund í apríl 2002.