Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 106
SKAGFIRÐINGABÓK
106
á Kjalarnesi. Hann kom til náms í
Skálholtsskóla 1702 og brautskráðist
þaðan 1709. Vígslu tók hann 1716 og
gerðist þá aðstoðarprestur hjá föður
sínum. Gegndi hann því starfi meðan faðir
hans lifði og tók við Goðdalaprestakalli
að honum látnum 1736. Hélt hann
síðan embættinu meðan hann lifði eða
til 1757. Fátt mun nú kunnugt um
andlegt atgervi Sveins prests, en fremur
fékk hann lélegan vitnisburð hjá hinum
danska Lúðvík Harboe sem hér fór
með biskupsvald um skeið og kannaði
kristnihald, siðferði og menningarlíf
þjóðarinnar laust fyrir miðja 18. öld.
En búmaður var prestur þessi góður og
efnaðist ágætlega. Séra Sveinn kvæntist
árið 1720 Guðrúnu Þorsteinsdóttur á
Víðivöllum, Hafliðasonar. Börn þeirra
sem upp komust voru: Séra Jón í
Goðdölum, Páll gull- og silfursmiður á
Steinsstöðum, Einar í Héraðsdal, Oddur
í Glæsibæ, Krákur smiður á Leifsstöðum
í Svartárdal, Hún., Björg sem var fyrri
kona Þorkels Ólafssonar á Sviðningi í
Kolbeinsdal, Þorbjörg sem átti Eirík
Guðmundsson á Írafelli, og Guðrún sem
átti Jón Pálsson á Miðhúsum í Austurdal.
Hagleiksmenn í ættinni
MARGIR AF afkomendum séra Sveins voru
kunnir hagleiksmenn, svo að í frásögur
var fært. Stefán Jónsson fræðimaður á
Höskuldsstöðum segir svo í Djúpdæla
sögu sinni um Pál Sveinsson sem sjálfur
var annálaður gull- og silfursmiður: „Páll
silfursmiður á Steinsstöðum. Hann átti
son, Jón að nafni, áður en hann giftist.
Var Jón sá á sinni tíð einhver mestur
gull- og silfursmiður á Austfjörðum og
bjó þar eystra. Kona Páls á Steinsstöðum
var Guðrún dóttir Jóns á Ökrum,
Eggertssonar, Jónssonar, Eggertssonar.
Þeirra synir voru margir og nafnkenndir
á sinni tíð, kallaðir Steinsstaðabræður:
Eiríkur, Benedikt, Þorsteinn hreppstjóri
á Reykjavöllum, faðir Páls í Pyttagerði,
hraðskálds hins mikla, og Sveinn læknir
í Vík syðra. Þeir Steinsstaðabræður voru
allir smiðir og allir skáldmæltir vel.
Einn af sonum Sveins læknis var Jón
prestur á Mælifelli. Sveinn læknir þótti
afbragðsmaður um flest á sinni tíð.“
Þá var Krákur Sveinsson víðkunnur
fyrir hagleik. Um hann segir Stefán
fræðimaður á þessa leið: „Er sú saga sögð
um hagleik hans, að eitt sinn á alþingi
hafi höfðingjar tveir slegið í kappmæli
um það, hvor þeirra mundi með
betri smíðisgrip geta komið úr sínum
fjórðungi á næsta alþing og veðjuðu
um. Var það ákveðið að smíða skyldi
hamar. Norðlendingurinn fékk Krák
til smíðisgerðarinnar, og lauk hann því
fyrir tilsettan tíma. Þóttu báðir góðir, og
varð þeim ógreitt um úrskurð. Smiður sá
hinn sunnlenski var þar, og kvað hann,
að hér um þyrfti ei lengi að vefja álit
manna. Væri gripur Kráks það betri en
sinn, að þar sem hann sjálfur hefði þurft
að nota þjölina til að fegra grip sinn, þá
hefði Krákur aðeins notað hamarinn,
því gripur Kráks kæmi fyrir sjónir eins
og þá hann hefði frá smiðjuaflinum
komið. Þótti öllum hinum sunnlenska
smið vel fara með umsögn smíðisins og
norðanmanni dæmt veðféð. Lét hinn sér
það vel líka.“
Séra Sveinn og Hjálmur á Ábæ
ÝMSAR SÖGUR voru sagðar af séra Sveini
og í þætti sem Gísli Konráðsson skráði