Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 107
AF GOÐDALAPRESTUM
107
um Hjálm Stefánsson á Ábæ, síðar á
Keldulandi, segir frá samskiptum Hjálms
og Sveins prests á þessa leið: „Síðan var
það að Hjálmur kvæntist og fékk konu
þeirrar er Helga hét, dóttir Guðmundar
snikkara Guðmundssonar og bjó hann
fyrst að Ábæ í Austurdal. Þótti hann jafna
spélegur í orðum, glettinn og brögðóttur
við heldri menn. Þá hét Sveinn prestur
í Goðdölum Pálsson prests í Goðdölum,
Sveinssonar kirkjuprests á Hólum og
síðan að Barði í Fljótum. Austurdælir
keyptu jafnan þrjár eða fjórar messur á
ári að Goðdalapresti. Er allerfitt þangað
að sækja, því Jökulsár eru á leið til Ábæjar
frá Goðdölum. Heldur voru ertingar með
þeim Sveini presti og Hjálmi. Það var
eitt sinn, er Sveinn söng í Ábæ, að eftir
tíðir var rætt um músagang mikinn; lét
prestur sem mikið mætti eyða þeim með
fjalaköttum og öðrum veiðibrellum; lést
hafa drepið ærinn fjölda þeirra í altarinu
og kirkjunni í Goðdölum. Hjálmur
var við og mælti: „Mikið gerir fátæktin
manni; ég vildi ég hefði getað fengið
yður viku eða hálfsmánaðartíma að taka
fyrir mig mýs.“ Prestur reiddist við og
mælti: „Andskotinn veri músakötturinn
þinn.“ Er þá sagt, að þeim yrði meira að
orðum.
Jafnan var Hjálmur glettinn við prest,
þó álitlegt væri með þeim stundum. Það
varð, er þeir báðir, prestur og Hjálmur,
voru staddir í Hofsóskaupstað, að
drykkjumaður nokkur slóst upp á prest
og það svo, að til ryskinga kom með
þeim, og kærði prestur það, að hann
hefði rifið sig á hálsi, og skaut til vottorðs
Hjálms og annars manns, að séð hefðu
þeir blóð á skyrtukraga sínum. Hjálmur
Sýn yfir eyrar Ábæjarár og Ábæjargil. Ábæjardalur gengur inn í fjallgarðinn til hægri. Skarðið
er Grjótárdalur á Ábæjardal en Göngufjall ber við loft til hægri. Uppi á bakkanum til hægri er
Ábæjarkirkja og bæjarstæði Ábæjar vinstra megin við hana.
Ljósm.: Hjalti Pálsson