Skagfirðingabók - 01.01.2015, Side 127
SKÍRNARFONTURINN Í HÓLADÓMKIRKJU
127
Forn lagaákvæði um skírn
LAGASAFN þjóðveldisins, Grágás, hefst
á Kristinna laga þætti. Þar eru í upphafi
ítarleg ákvæði um skírn barna, og má þar
af ýmsu marka mikilvægi athafnarinn-
ar.3 Þar segir m.a.:
Á dögum feðra vorra voru þau lög sett að
allir menn skulu kristnir vera á landi hér
og trúa á einn Guð, föður og son og anda
helgan. / Barn hvert skal færa til kirkju er
alið er, sem fyrst má, með hverri skepnu
[sköpulagi] sem er. . . .
Ef barn er svo sjúkt að við bana sé hætt
og náir [nær] eigi prestsfundi, og á þá
karlmaður ólærður að skíra barn. Ef það er
að búanda húsi, og skal taka vatn í keraldi.
Ef barn verður sjúkt á förnum vegi, og skal
taka vatn þar er vatni náir eða sjó ef eigi náir
vatni. Hann skal svo mæla: „Eg vígi þig,
vatn, í nafni föður,“ og gera kross á vatninu
með hendi sinni hinni hægri, „og sonar,“
og gera annan kross á vatninu, „og anda
heilags,“ og gera hinn þriðja kross á vatninu.
Hann skal bregða þumalfingri sínum í kross
á vatninu við hvert orð þeirra þriggja. Þá
skal hann gefa nafn barninu svo sem það
skal heita, hvort sem er sveinn eða mær, og
mæla svo: „Eg skíri þig,“ og nefna barnið,
„í nafni föður,“ og drepa [dýfa] barninu í
vatnið um sinn [einu sinni], jafnt [beint]
fram fyrir sig, „og sonar,“ og drepa í vatnið í
annað sinn höfði barnsins til vinstri handar,
„og anda heilags,“ og drepa hið þriðja sinn
til hægri handar höfði barnsins í vatnið, svo
að það verði alvott í hvert sinnið. Þó er rétt
að um sinn [einu sinni] sé í drepið í vatnið
eða hellt á eða ausið, ef eigi verður ráðrúm
að öðru. . . .
Sveinn sjö vetra gamall skal skíra barn ef
eigi er rosknari maður til. Því aðeins skal
yngri sveinn skíra ef hann kann bæði Pater
noster [Faðirvorið] og Credo in deum
[Trúarjátninguna]. Skíra skal kona barn ef
eigi eru karlar til, og varðar henni þvílíkt sem
karlmanni ef hún kann eigi. . . . Tólf vetra
gömlum körlum, og svo konum, er skylt að
kunna að skíra barn, og þau orð og atferli er
þar fylgja. . . . Hverjum manni er skylt, bæði
karlmanni og konu er hyggjandi [vit] hefir
til, að kunna Pater noster og Credo. En ef
hann vill eigi kunna og hafi hann vit til, það
varðar fjörbaugsgarð. (Grágás 1992, 1–5)
Kristinréttur hinn forni gilti í Skál-
holtsbiskupsdæmi til 1275, en í Hóla-
biskupsdæmi til 1354. Þá tók við
Kristinréttur Árna Þorlákssonar, eða
Kristinréttur hinn nýi, sem var í gildi til
siðaskipta. Hann hefst á ákvæðum Um
barnskírn. Þar er athöfninni lýst svo:
Ala skal barn hvert er borið verður og
mannshöfuð er á, þó að nokkur örkyml
[vansköpun] sé á, og til kirkju færa svá
sem fyrst kemst við og skíra láta prest ef
honum náir. Elligar skulu konur svá fyrir
3 Solhaug (2008, 225–226) lýsir skírnarsiðum að kirkju, sem voru fyllri en sú skírn sem leikmenn máttu fram-
kvæma ef barn var sjúkt (skemmri skírn) og lýst er í Grágás. Hún segir að niðurdýfingin hafi verið táknræn, ekki
var algengt á Norðurlöndum að dýfa barninu alveg á kaf, eins og margir virðast halda; einnig mátti ausa þrisvar.
Einhver munur var á milli biskupsdæma, auk þess sem venjur breyttust í tímans rás. Í bókinni Kristni á Íslandi
1 (2000, 335–338) segir: „Meginþættir skírnarinnar voru þó ætíð hinir sömu: Hreinsun skírnþega af illum
öndum með særingum og salti sem sett var í munn hans, afneitun djöfulsins, játning trúar á Guð föður, son og
heilagan anda, þreföld niðurdýfing í vatn og loks smurning er táknaði gjöf heilags anda. Að athöfn lokinni var
skírnþegi færður í hvít klæði, svokallaðar hvítavoðir.“ Sjá einnig Guðbrand Jónsson (1919–1929, 350–351).