Skagfirðingabók - 01.01.2015, Side 135
SKÍRNARFONTURINN Í HÓLADÓMKIRKJU
135
gengið var inn, með himni yfir, grindverki
í kring og hurð á hjörum á grindverkinu.
Henni er lýst svo:
. . . skírnarfontur með vandað verk og vel
úthöggvið, virki eður grind þar umhverfis,
vel vandað og gjört með flötu pílárasmíði
og listum, hurð fyrir á veltum, allt farvað,
með fjalatröppum í botni, himinn yfir
úthöggvinn farvaður, og þetta allt merki-
lega umvendað [vandað], sem sálugi herra
biskupinn m(agister) Jón [Vigfússon] gjöra
lét. (Jón Þ. Þór 2008, 176)
Jón Vigfússon var barnmargur maður
og hefur skírnarathöfnin verið honum
hugstæð. Seinast er getið um fonthúfu
í úttekt Hóladómkirkju árið 1685,
en þá hefur fonthúfan fyrst og fremst
verið til skrauts. Í úttekt 1746 segir:
„Skírnarfontur úthöggvinn í steini, með
tréverki í kring, toppi af tré og himinn
yfir.“ Toppur af tré gæti verið fonthúfa.
Árið 1710 átti kirkjan skírnarskál úr
messing, og hefur skírnarvatnið þá
frekar verið sett í hana en í sjálfan stein-
fontinn, á svipaðan hátt og nú er gert,
en í fontinum er nú kristalskál undir
skírnarvatnið.
Myndirnar á skírnarfontinum
EINS OG FRAM hefur komið átti Hóla-
dómkirkja nýjan fontsumbúning árið
1550, sem Jón Arason gaf kirkjunni.
Líklega er þar átt við skrautlegt fontklæði
sem sveipað var umhverfis fontinn við
skírnarathafnir. Þar sem klæðið var nýtt
um 1550, er líklegt að það hafi enst
fram á daga Gísla Þorlákssonar, sem
fæddist á Hólum 1631 og varð biskup
1657. Hugsanlegt er að Gísli hafi talið
eftirsjá að þeim hátíðarblæ sem fylgdi
fontklæðinu, en fonturinn forni var
alveg skrautlaus.12 Einnig voru dæmi
um skrautlega skírnarfonta hérlendis
og erlendis. Til þess að bæta þar um
fær hann Guðmund Guðmundsson í
Bjarnastaðahlíð til að skreyta fontinn
forna.
Tunnufonturinn í stafkirkjunni í Røldal á
Hörðalandi. Þarna er fonturinn í umhverfi,
sem leiðir hugann að stafkirkjunum á Hólum,
allt frá miðaldakirkjunum til Halldórukirkju,
sem stóð 1627–1758. Ofan á fontinum er
yngri messingskál undir skírnarvatnið.
Mynd af Wikipediu, frjáls afnot
12 Ekki er útilokað að myndefnið á skírnarsánum taki að einhverju leyti mið af myndum á fornu fontklæði
kirkjunnar.