Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 160
160
KLEMENZ GUÐMUNDSSON Í BÓLSTAÐARHLÍÐ
SKÓLINN Í VÍK
Á FYRSTA áratug 20. aldar fóru sumir
efnilegir bændasynir til Norðurlanda
til þess að afla sér meiri menntunar og
kynnast frændþjóðum okkar þar. Ég
minnist á tvo slíka menn, það voru þeir
Árni Hafstað í Vík í Skagafirði og Jón
Sigurðsson á Reynistað.
Æviatriði þessara manna, sem báðir
eru látnir, verða ekki rakin hér. Báðir
þessir menn munu hafa farið utan til þess
að kynna sér búnaðarhætti annarra þjóða.
Báðir urðu bændur að för sinni lokinni.
En þeir urðu meira. Þeir stofnuðu skóla
í Vík. Árni Hafstað byrjaði búskap sinn
með því að byggja stórhýsi sem ekki átti
sinn líka meðal bænda í Skagafirði í þá
daga.
Það var hugmyndin að stofna skóla í
þessari höll. Og það var gjört. Skólinn var
stofnaður eftir áramót 1909 af þeim Árna
Hafstað og Jóni Sigurðssyni á Reynistað.
Jón var nemandi í Lýðháskólanum á
Askov veturinn 1906–1907 og kynntist
þá lýðháskólahreyfingunni og varð mjög
hrifinn af henni. Skóli þessi var því
sniðinn eftir lýðháskólunum dönsku.
Ég varð svo lánsamur að dvelja á þessum
skóla sem nemandi þá tvo vetrarparta er
hann starfaði en það voru rúmlega þrír
mánuðir hvorn vetur. Tveir sveitungar
mínir voru með mér fyrra tímabilið.
Það voru þeir Gísli Ólafsson skáld frá
Eiríksstöðum og Sigurður Þorkelsson
frá Barkarstöðum. Við urðum allir
samferða fótgangandi norður á skólann
en í ferðinni komum við á bæ við veginn
og stoppuðum þar til þess að hvíla okkur.
Húsbóndinn ræddi við okkur frammi í
stofu. Hann minntist á skólann sem átti
að stofna og sagði meðal annars: „Þið
fáið harðan húsbónda þar sem Jón á
Reynistað er.“ Varð þá ekki laust við að
Klemenz Guðmundsson fæddist 14. mars 1892 í Bólstaðarhlíð, dó 8. júní 1986. Hann var bóndi í
Bólstaðarhlíð og var auk þess símstöðvarstjóri þar, póstafgreiðslumaður og kennari. Kona hans var
Elísabet Magnúsdóttir (1891–1964), þau áttu fjóra syni. Klemenz var kunnur fyrir að hann tók
kvekaratrú og gaf út fjóra bæklinga á árunum 1930–1939 til að útbreiða boðskapinn. Sjá nánar
grein Haraldar Ólafssonar: Rödd Guðs í þögninni. Klemens Guðmundsson kvekari, líf hans og trú.
Húnavaka 2011, 119–136.
Klemenz gekk í Víkurskóla 1909–1910. Klemenz samdi þennan þátt í tveimur áhlaupum. Það
sést af því að aftan við handritið er Viðbætir, líklega saminn alllöngu síðar. Efni hans hefur allt verið
fellt inn í þáttinn þar sem það átti best við. Ítarlega er fjallað um Víkurskólann í grein Baldurs Hafstaðs
um Árna Hafstað í 14. hefti Skagfirðingabókar, 1985. Athugasemdir innan hornklofa eru frá hendi
ritstjórnar.