Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 165
SKÓLINN Í VÍK
165
Þannig var þetta á fyrsta skólaárinu. Á
síðara árinu var kominn kamar beint
framundan dyrum skólans. Það var engin
prýði að honum en notalegri var hann þó
en opnu húsarústirnar.
Þetta er ekki ritað til þess að gera þessu
skólasetri skömm heldur er það sagt til
þess að sýna mismuninn á gamla og
nýja tímanum. Og þrátt fyrir þetta er ég
þakklátur fyrir að hafa dvalið á skólanum
í Vík.
Ég minnist á skólastjórann með hlýjum
huga. Hann var mikill persónuleiki, hár
vexti og karlmannlegur. Þó gekk honum
seint að fá sér konu. Um það var kveðið:
Árna ljá má einhver lið
auðargná að fala,
þó stóra, gráa steinhúsið
standi á háum bala.
Þó fór svo að lokum að hann fékk ágæta
konu og mörg mannvænleg börn er öll
hafa hlotið góða skólamenntun. [Kona
Árna var Ingibjörg Sigurðardóttir frá
Geirmundarstöðum, nemandi í skól-
anum fyrsta starfsveturinn, síðar í
Kvennaskólanum í Reykjavík. Þau Árni
eignuðust 11 börn.]
Fyrir jól, áður en síðara skólaár byrjaði,
var ég nokkrar vikur á hinu fjölmenna
heimili á Reynistað til þess að læra hjá
Jóni. Kynntist ég þá ungri stúlku er heitir
Ingibjörg Magnúsdóttir frá Torfmýri í
Skagafirði. Hún var greind og glæsileg.
Nú gift Jóni [Eyþóri Jónassyni] á Mel og
móðir Magnúsar Jónssonar fyrrverandi
fjármálaráðherra, [Baldurs rektors Kenn-
araskólans og Halldórs Þormars sýslu-
manns].
Til er saga um mig í sambandi við þessa
stúlku sem ég ætla nú að segja: Sá var siður
á Reynistað að heimilisfólkið lagði sig í
rökkrinu. Það svaf allt í langri baðstofu er
var í þremur hólfum er var miðbaðstofa
og tvö herbergi, eitt í hvorum enda. Mitt
rúm var í öðru endaherberginu. Undir
baðstofunni var gestastofa, svefnherbergi
gesta. Hjónaherbergi og herbergi Jóns.
Enn fremur búr og eldhús og frambær
Skólahúsið í Vík á útmánuðum 1909. Sér í hluta gamla bæjarins á bakvið og fjósið fyrir norðan.
Heimamenn og skólafólk raðar sér upp við húsið, á tröppum og svölum. Einkaeign