Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 185
185
STEINUNN HJÁLMARSDÓTTIR
FRÁ VINDHEIMUM
MINNINGABROT ÚR SKAGAFIRÐI
Rekið á afrétt vorið 1912
ÉG ÓLST UPP á Vindheimum í Skagafirði,
bæ sem heita má að sé í miðju héraðinu
og er ysti bær í Tungusveit. Héraðsvötnin
falla með sínum þunga nið austan við
túnið. Rennisléttur Hólmurinn liggur
í norður frá bænum og svo Hegranesið
þar út af, en á vorin er þetta allt svo
einkennilega dásamlegt, þegar búið er
að taka vötnin í þjónustu sína og veita
þeim yfir hinar víðáttumiklu engjar svo
fjölmargra býla.
Og nú er vor. Við vorum að enda
við að taka ullina af fénu, það var hátt á
þriðja hundrað fullorðið. Það var orðið
framorðið, en ofurlítið verðum við samt
að hvíla okkur, því snemma næsta morgun
á að reka féð saman aftur og koma því í
sumarhaga langt fram á fjöll. Ég hlakka til.
Nú þarf ég ekki aftur þetta vorið að vaka
yfir túninu til að reka óþægu ærnar sem
alltaf koma aftur og aftur. En ég reyndi
líka að sjá um að þær yrðu ekki eftir þegar
féð var rekið á afréttinn.
Skammt fyrir vestan Vindheima
rennur allstór á sem heitir Svartá. Það
var fyrsta hindrunin með fjárhópinn
stóra, en þangað fylgdi líka venjulega allt
fólkið á bænum, sjaldan yfir sjö manns.
Steinunn Hjálmarsdóttir var fædd á Þorljótsstöðum í Vesturdal 1. desember 1898, dóttir hjónanna
Kristínar Þorsteinsdóttur og Hjálmars Þorlákssonar. Foreldrar hennar slitu samvistum þegar hún var
8 ára. Þá var hún tekin í fóstur að Vindheimum í Skagafirði til Moniku Indriðadóttur og Sigmundar
Andréssonar. Þar átti hún heima til ársins 1920. Tvívegis dvaldi hún í Reykjavík, en árið 1920 fluttist
hún vestur að Reykhólum og gerðist þar ráðskona hjá Eggert Jónssyni, en kona Eggerts var Elín
Sigmundsdóttir frá Vindheimum í Skagafirði. Eggert hafði fest kaup á jörðinni og hugðist reka þar
hrossarækt. Þau áform breyttust árið eftir, en það er önnur saga.
Árið 1921 giftist Steinunn Þórarni Árnasyni. Sama ár tóku þau Reykhóla á leigu og bjuggu þar í 2
ár. Þau tóku sér viku frí í júlíbyrjun 1921 og fóru í brúðkaupsferð norður í Skagafjörð. Laugardaginn 9.
júlí dvöldu þau um kyrrt á Vindheimum og þann dag hitti hún Frosta, þennan trygga vin sinn sem hún
segir frá í seinni hluta þessarar frásagnar. Á árunum 1923–1926 voru þau búsett á Hólum í Hjaltadal
þar sem Þórarinn var bústjóri. Eftir það fluttust þau aftur vestur, þá að Miðhúsum í Reykhólasveit.
Seinni kafli þessarar greinar birtist í ungmennafélagsblaðinu Gesti í Reykhólasveit 1928.
Hjörtur Þórarinsson.