Skagfirðingabók - 01.01.2015, Page 186
SKAGFIRÐINGABÓK
186
Stundum gekk erfiðlega með lömbin og
oft vorum við æði blaut, þegar féð var
komið yfir. En þetta var í fyrsta sinn sem
ég fékk að fara alla leið.
Þegar yfir ána var komið héldum við
áfram. Við vorum þarna, fullorðinn
maður og við tveir unglingar, ég um
fermingu. Fyrst liggur leiðin fram með
Svartá. en beygir síðan upp að fjallgarð-
inum sem liggur milli Húnavatnssýslu
og Skagafjarðarsýslu. Í gegnum þann
fjallgarð urðum við að fara um skarð
sem heitir Kiðaskarð. Þetta er mjög
einkennilegur vegur, því fjöllin eru svo
snarbrött báðum megin, en rennisléttar
götur eru þarna af náttúrunnar hendi til
að fara eftir, enda hefur um afar langt
skeið verið rekið þarna fé að vorinu úr
stórum parti af Skagafirði, á Eyvindar-
staðaheiði sem notuð er sameiginlega af
Húnvetningum og Skagfirðingum.
Þegar við komum vestur úr Kiðaskarði,
blöstu við í suðri og vesturátt hin víðáttu-
miklu afréttarlönd þessara tveggja sýslna.
Ég var svo heppin að það var bjartviðri
svo ég sá alla leið til Hofsjökuls. Nú
héldum við áfram hægt og sígandi vestur
þessar heiðarbungur. Lömbin voru orðin
þreytt, en senn fór að halla undan fæti
og allt í einu blöstu við mér nokkrir bæir
í djúpum og fremur þröngum dal. Þetta
var þá Svartárdalurinn, eftir honum rann
á sem líka heitir Svartá.
Nú urðum við að fara svo brattar og
háar brekkur að mér eru þær í barnsminni.
En það gekk liðlega að koma fénu niður,
síðan tók við svolítið undirlendi við ána.
Þar hvíldum við féð síðast enda veitti því
ekki af áður en við rækjum það í ána.
Sömuleiðis fengum við okkur bita því
við vorum bæði þreytt og svöng og nú
var dagur að kveldi kominn. Ég kveið
mjög fyrir að reka féð yfir þessa á, hún
var svo straumhörð. En það mátti til,
því leiðarlok voru hinum megin við ána.
En þetta gekk vonum framar vel og allt
Vindheimar í Tungusveit um eða eftir 1920. Lengst til vinstri sér á hesthúsgaflinn en skemma
er milli hesthúss og bæjar. Litla húsið sunnan undir bænum var rifið nokkru fyrir 1930 og
búinn þar til garður. Til hægri sér á vesturhlið fjóshlöðunnar og var fjósið austan undir henni.
Eigandi myndar: Sigmundur Magnússon