Fréttatíminn - 01.10.2016, Blaðsíða 40
Á kafi í verkefnum Anna flutti heim frá New York því henni buðust verkefni á Íslandi sem
hún gat ekki hafnað. Mynd | Hari
Hárið flæktist
í hrærivél
og rifnaði af
Fyrsta stuttmynd Önnu Gunndísar er sýnd á kvikmyndahátíðinni RIFF
sem stendur nú yfir. Myndin byggir á hennar eigin reynslu, slysi sem
hún varð fyrir og samskiptum systkina í kjölfarið. Anna er nýflutt heim
frá New York, þar sem hún var í námi í leikstjórn og handritagerð, og er
komin á kaf í spennandi verkefni.
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir
solrunlilja@amk.is
Það var mjög næs að koma heim því það var ekki viðbjóðslegt veður eins og er nánast alltaf þegar maður lendir í
Keflavík. Það er líka mjög gaman
að fara að vinna á íslensku því ég
hef ekki gert það í þrjú ár. Það er
bara ótrúlega gott að koma aftur í
sitt umhverfi þó þetta hafi vissu-
lega verið súrsæt ákvörðun,“ segir
Anna Gunndís Guðmundsdóttir,
leikkona, leikstjóri og handritshöf-
undur, sem flutti ásamt manni sín-
um, Einari Aðalsteinssyni, heim frá
New York á dögunum, eftir þriggja
ára búsetu þar. Tveir kettir þeirra
hjóna eru reyndar enn úti, en þeir
bíða eftir að komast í sóttkví hér á
landi og er sárt saknað á meðan.
Fleiri tækifæri eftir námið
Anna var í námi í leikstjórn og
handritagerð við New York Uni-
versity og á hún aðeins lokaverk-
efni sitt eftir sem hún hyggst klára
á næstu tveimur árum. „Ég get
gert það hvar sem er. Fólk byrjar
yfirleitt bara að vinna í öðrum ver-
kefnum, en vinnur þetta stund-
um meðfram. En ég setti það á bið
vegna annarra verkefna,“ segir
Anna, en ástæðan fyrir því að hún
er komin heim er sú að henni buð-
ust spennandi verkefni sem hún gat
ekki hafnað.
Hún útskrifaðist úr leiklistardeild
Listaháskólans árið 2010 og starfaði
sem leikkona þangað til hún fór
út 2013. „Ég hætti samt ekkert að
vera leikkona þó ég sé að skrifa og
leikstýra, ég hef áhuga á að leika
líka. Nú eru bara fleiri tækifæri í
vinnu. Það var einmitt geggjað að
fá að leika aftur eftir að ég byrjaði í
náminu,“ segir Anna en hún leikur
eitt aðalhlutverkanna í myndinni
Ég man þig í leikstjórn Óskars Þórs
Axelssonar, en myndin er byggð
á samnefndri bók Yrsu Sigurðar-
dóttur. Tökur á myndinni standa
enn yfir en hún verður frumsýnd á
næsta ári.
Hún hafði varla snert myndavél
eða skrifað staf áður en hún fór út í
námið, en það var alltaf draumur-
inn að fara út í leikstjórn. „Í inn-
tökuprófunum fyrir leiklistarnám-
ið sagðist ég meira ætla að verða
leikstjóri, ég vissi bara ekki hvort
ég vildi leggja áherslu á leikhús eða
kvikmyndir. En ég var búin að lifa
og hrærast í leikhúsinu frá því ég
var tólf ára þannig mér fannst meiri
áskorun að fara út í kvikmyndaleik-
stjórn, af því ég vissi ekki rassgat.
Mér finnst líka svo ótrúlega gaman
á setti. Það er eitt það skemmti-
legasta sem ég geri,“ segir Anna
sem var á samningi hjá Leikfélagi
Akureyrar þegar hún komst inn
í skólann, og reyndar maðurinn
hennar líka.
Voru ekki á leið heim
Hún viðurkennir að það hafi verið
algjört helvíti að flytjast búferlum
til New York á sínum tíma og næst-
um jafn erfitt að flytja heim aftur,
sérstaklega í ljósi þess að tveir kett-
ir hafa bæst í fjölskylduna. Það er
svo mikil pappírsvinna sem fylgir.
„Ég man bara þegar ég sat í rútunni
á leið frá flugvellinum úti á sínum
tíma, það var 35 stiga hiti og ég var
ekki búin að sofa í fjóra daga út af
flutningunum, og ég hugsaði með
mér af hverju ég væri ekki bara
heima hjá mér sofandi.“
Önnu þótti engu að síður
æðislegt að búa í New York og nám-
ið alveg frábært, en það var stremb-
ið engu að síður. „Þetta var ótrú-
lega erfitt. Ég held ég hafi aldrei
upplifað jafn mikið stress og sofið
jafn lítið. Hrukkurnar undir aug-
unum fjórfölduðust á einum degi,“
segir hún og hlær.
Þar fyrir utan fylgir því töluverð-
ur kostnaður að læra í útlöndum,
en Anna var heppin að fá styrk
fyrir nánast öllu náminu, þannig
hún og maðurinn hennar eru ekki
stórskuldug eftir New York æv-
intýrið. „Þetta hefði ekki gengið
öðruvísi. Og ég hefði aldrei getað
gert þetta nema af því maðurinn
minn kom með og var í fullri vinnu
sem forritari. Það bjargaði okkur
alveg og við tókum bara eitt ár í
einu,“ segir Anna.
Þau voru samt ekkert á leiðinni
heim strax. „Ef þú hefðir spurt
mig fyrir ári þá hefði ég sagt að ég
væri ekkert á leiðinni heim. Við
vorum búin að kaupa okkur bíl og
á leiðinni til Los Angeles. Ég ætl-
aði að nota árs atvinnuleyfið mitt,
sem ég fæ eftir námið, og vinna
þar. Það eru geðveikir ávextir og
grænmeti þar, veðrið er alltaf gott
og við vorum búin að kynnast fólki
sem er vel tengt inn í bransann.
Við ætluðum bara að prófa eitthvað
nýtt. Við höfum aldrei gert plön,
hættum bara öllu í einu og gerum
eitthvað nýtt. Það er alveg ennþá á
dagskránni að fara til LA, en það er
kannski á fimm ára planinu, ef við
gerum plan. LA er allavega ekki að
fara neitt.“
Komin á kaf í verkefni
Verkefnin sem Anna kom til lands-
ins fyrir eru þrjú talsins. Eitt þeirra
er að skrifa, ásamt fleirum, sjón-
varpsþætti sem nefnast Frístæl,
fyrir framleiðslufyrirækið Pegasus.
En Kristófer Dignus er heilinn á
bak við það. Hin tvö verkefnin snúa
að leikstjórn og handritagerð á
tveimur bíómyndum í fullri lengd.
Hún getur þó ekki talað um þau
verkefni nema að litlu leyti vegna
þess hve skammt á veg þau eru
komin. „Annað er að skrifa handrit
og leikstýra ásamt Þorvaldi Davíð
Kristjánssyni, en við erum búin að
þekkjast í mörg ár. Það er geggjað
að vinna með honum. Svo erum
við líka saman með hitt verkefnið
sem ég get ekki talað um ennþá,“
segir hún sposk á svip og heldur
áfram: „Það er mikill blómatími
í kvikmyndagerð á Íslandi. En
kvikmyndagerð tekur mjög langan
tíma. Það getur tekið nokkur ár að
byrja á einhverju, þannig maður
verður að hafa mörg járn í eldinum.
Svo langar mig líka að leika inn á
milli, sérstaklega í bíói, en ég held
ég muni ekki fara aftur í fastráðn-
ingu í leikhúsi.“
Hún segir frábært að fá svona
flott tækifæri í kvikmyndabrans-
anum hérna heima. „Að fara
beint í að skrifa sjónvarpsþætti og
undirbúa tökur á tveimur mynd-
um í fullri lengd er eitthvað sem
hefði aldrei gerst úti, ekki á þessum
hraða. Það er ótrúlega gott að hafa
það á ferilskránni að hafa gert eitt-
hvað svona stórt þegar við förum út
aftur. Að mörgu leyti er það því frá-
bær ákvörðun hjá okkur að koma
heim.”
Yngst af sjö systkinum
Fyrsta stuttmyndin hennar Önnu,
I Can’t Be Seen Like This eða
Enginn má sjá mig, sem hún gerði
á öðru árinu sínu í náminu er sýnd
á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni
RIFF sem stendur nú yfir. Myndin
fjallar um samband tveggja systra
og slys sem önnur þeirra verður
fyrir, en hún er byggð á atburð-
um í lífi Önnu, eiginlega meira en
hún ætlaði sér. „Við erum reyndar
sjö systkinin og mig langaði svo að
skoða þetta systkinasamband, sem
er oft svona ástar/haturs samband.
Það þarf oft svo lítið til að fólk hætti
að tala saman, en systkini fara samt
aldrei alveg. Svo leyfir maður sér
verri framkomu gagnvart þeim sem
standa manni næst. Eldri stelpan í
myndinni byggir á systir minni sem
er næst mér í aldri. Ég lamdi hana
í klessu þegar við vorum litlar, en
hún var alltaf mjög góð við mig
og lamdi mig aldrei,“ segir Anna
og skellir upp úr. „Við erum svo
mörg systkinin og vorum öll alveg
snarvitlaus,“ bætir hún hlæjandi
við.
Anna, sem er yngst í systkina-
hópnum, segir það mjög gott að
eiga mörg systkini, þó fjörið á
heimilinu hafi stundum verið hálf
yfirþyrmandi. Með aldrinum hefur
samband þeirra þróast og þau orðið
nánari. Sjálf myndi hún þó ekki
geta hugsað sér að eiga sjö börn.
„Þetta var algjör geðveiki. Pabbi og
mamma fóru í búðina og keyptu
þúsund lítra af mjólk, sem voru
búnir eftir tvo daga. Og ef það var
til kex þá var slegist.”
„Ég var eins og Frankenstein“
En við snúum okkur aftur að
myndinni sjálfri og þessu atviki
sem hún hverfist í raun um. Anna
var átta ára og þær systurnar voru
að baka köku. Hún var með hárið
laust og gætti ekki að sér við hræri-
vélina með þeim afleiðingum að
hárið flæktist í þeytaranum og rifn-
aði af að hluta. „Líkaminn sendir
mann í blackout og ég man ekkert
eftir þessu. En pabbi kom heim
og fór með mig upp á spítala og ég
man að ég lá á gólfinu í bílnum því
ég vildi ekki að neinn sæi mig. Ég
var eins og Frankenstein. En ég var
heppin að hársekkirnir fóru ekki
með þannig að hárið óx aftur. Ég
var reyndar ekki send í klippingu
þannig ég var eins og eitthvert ógeð
með hárlufsur öðrum megin. Í
minningunni var ég mjög töff með
þetta og var bara alltaf með húfu
þangað til hárið óx aftur.“
Þrátt fyrir að hafa verið nokk-
uð töff fékk Anna samt einhvers
konar sjokk. Það kom bara ekki
alveg strax. „Ég vaknaði grátandi
og skreið upp í rúm til foreldra
minna. Þetta var einhvers konar
hræðslusjokk. Það kom sjúkrabíll,
ég var send í hjartalínurit og var á
spítala í eina nótt,“ útskýrir hún, en
tekur jafnframt fram að það að gera
þessa mynd sé alls ekki einhver
þerapía fyrir sig vegna þessa at-
viks. Enda sitji það ekki sérstaklega
í henni. „Mér finnst þetta frekar
fyndið í minningunni, þetta er alls
ekki eitthvert „trauma“ sem hefur
fylgt mér í gegnum lífið.“
…viðtal 4 | amk… LAUGARDAGUR 1. OKTÓBER 2016
Eldri stelpan í myndinni
byggir á systir minni sem er
næst mér í aldri. Ég lamdi hana í
klessu þegar við vorum litlar, en hún
var alltaf mjög góð við mig og lamdi
mig aldrei
Köllunarklettsvegi 1, 104 Reykjavík • Sími: 531 3300 • ritstjorn@amk.is
Útgefandi: Gunnar Smári Egilsson. Blaðamenn: Katrín Bessadóttir, katrin@amk.is; Kidda Svarfdal, kidda@amk.is og Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, solrunlilja@amk.is.
Framkvæmdastjóri og auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson. amk… er gefið út af Morgundegi ehf. og er prentað í 83.000 eintökum í Landsprenti.