Hjúkrun: tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.12.1989, Side 71
Minning
t
Þegar ég var ungur maður, umgekkst ég
marga sem voru af hinni svokölluðu alda-
mótakynslóð. Það fólk upplifði meiri
breytingar en nokkurn hefði órað fyrir.
ísland hoppaði á örfáum árum út úr
bændasamfélagi og inn í nútíma þjóðfé-
lag. Það hlýtur að hafa þurft sterk bein til
að þola slíkar breytingar og standast þær.
Steinunn Ögmundsdóttir var ein þeirra
sem tilheyrðu áðurnefndri aldamótakyn-
slóð. Hún mátti þola mikil veikindi sem
gjörbreyttu aðstöðu hennar og lífs-
viðhorfum. Árið 1950 veiktist hún mikið
og gekkst undir nokkrar aðgerðir erlend-
is. Leikar fóru svo að hún missti sjónina
og varð alblind. Þá fáum árum áður höfðu
nokkrir dugmiklar einstaklingar stofnað
Blindrafélagið og sett á fót Blindravinnu-
stofuna, en megintilgangur hennar er að
veita blindu og sjónskertu fólki atvinnu.
Þegar Steinunn missti sjónina var enn
þá það viðhorf ríkjandi hjá mörgu fólki
sem var komið yfir miðjan aldur að blint
fólk væri hornrekur sem litla björg gæti
sér veitt. Steinunni fannst um tíma að hún
væri ein þeirra, blindur aumingi sem eng-
inn tæki mark á. Þetta fyllti hana og fjöl-
skyldu hennar mikilli örvæntingu og
stóðu þau ráðalaus frammi fyrir þessari
breyttu aðstöðu Steinunnar. Þá var það
að Þórsteinn Bjarnason, sem var for-
maður Blindravinafélags fslands, kom og
stappaði stálinu í hana, en líklega hefur
það ráðið úrslitum að nokkrar ungar
blindar konur, sem voru á meðal stofn-
enda Blindrafélagsins, hvöttu Steinunni
til þess að koma til Blindrafélagsins og
taka þátt í því starfi sem þar færi fram.
Þau hjónin, Steinunn og Ólafur Pálsson,
íhuguðu málið og ályktuðu sem svo að
þar sem blinda fólkið væri með sinn
félagsskap, þar væri vettvangur fyrir
Steinunni.
Steinunn hóf störf hjá Blindravinnu-
stofunni árið 1952 og má segja að það hafi
verið mikið gæfuspor, bæði fyrir hana og
fjölskyldu hennar, og ekki síst fyrir
Blindr^félagið. Þau Steinunn og Ólafur
fóru að taka mikinn þátt í félagslífi og
starfi félagsins og Ólafur varð endurskoð-
andi þess um áratugi og aðhaldsmaður
Steinunn Ögmundsdóttir
Fædd 14.8. 1901
Dáin 2.10. 1989
um fjármál þess. Þá tók fjölskylda þeirra
mikinn þátt í alls kyns félagsstarfi Blind-
rafélagsins og studdi það á margan hátt.
Dætur Steinunnar og Ólafs, þær Jóhanna
og Helga, voru mikið í tengslum við
Blindrafélagið og Helga átti síðar mikinn
þátt í mótun Hljóðbókasafns Blindrafé-
lagsins og Borgarbókasafns Reykjavíkur
sem síðar varð Blindrabókasafn íslands.
Það er ríkisrekin stofnun, starfrækt í
húsakynnum Blindrafélagsins.
Þegar Steinunn hóf störf á Blindra-
vinnustofunni, kom með henni hressandi
andblær. Þær konur sem þar störfuðu
voru margar allnokkuð yngri en Steinunn
en það skipti engu máli, mikil og traust
vinátta skapaðist þeirra á milli.
Steinunn starfaði við að gera bursta og
þær vinkonurnar sögðu hver annarri
sögur, ræddu um heima og geima og
kváðust á. Fastur liður var að eftir kaffið
um þrjúleytið arkaði kvennahersingin
með þær Margréti Andrésdóttur formann
Blindrafélagsins, Steinunni og Rósu
Guðmundsdóttur, sem þá var varafor-
maður félagsins, fram á gang, læsti að sér
á prívatinu og söng hástöfum ættjarðar-
söngva af mikilli hjartans lyst. Ég man að
sem barn sætti ég færis að koma inn í
Hamrahlíð um kaffileytið og heyra
þennan skemmtilega söng, það hljómaði
svo vel þarna inni.
Steinunn var hafsjór af fróðleik. Hún
kunni ósköpin öll af vísum og kvæðum og
lög við þau. Hún hafði gaman af söng og
þegar um löng kvæði var að ræða mátti
eins vel búast við að hún kynni þau öll.
Þess vegna var hún ásamt manni sínum
ómissandi á mannamótum félagsins.
Steinunn vann hjá Blindravinnu-
stofunni á meðan kraftar entust en eftir
það hélt hún áfram að koma dag og dag
og aldrei lét hún eða Ólafur maður
hennar sig vanta á fundi eða önnur
mannamót hjá Blindrafélaginu. Sú sem
átti hvað mest við Steinunni að sælda frá
Blindrafélaginu var Rósa Guðmunds-
dóttir sem síðar varð formaður þess.
Rósa sá til þess að Steinunn gat notið sín
sem best eftir að aldurinn tók að færast
yfir hana.
Á 50 ára afmæli Blindrafélagsins, þann
19. ágúst sl., voru þau hjónin, Steinunn
og Ólafur, gerð að heiðursfélögum Blind-
rafélagsins fyrir það mikla starf sem þau
hafa innt af hendi í þágu þess. Má til
dæmis nefna að þau hjónin gáfu verulega
fjárupphæð sem notuð er til þess að rita
sögu Blindrafélagsins.
Þegar Steinunn kom til afmælishátíðar
Blindrafélagsins, var hún farin að
kröftum, en reisn sinni hélt hún. Hún
fylgdi fötum alveg þangað til hálfum mán-
uði áður en hún dó, þá treysti hún sér ekki
lengur á fætur, fannst hún vera eitthvað
lélegri en vant var. Hún lést svo þann 2.
október síðastliðinn 88 ára að aldri. Ég er
þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast
konu eins og Steinunni. Hún lét aldrei
deigan síga heldur hélt sínu striki. Hún
hlýtur að hafa fengið í vöggugjöf mikinn
viljastyrk.
Fyrir hönd stjórnar Blindrafélagsins
sendi ég eftirlifandi eiginmanni Steinunn-
ar, Ólafi Pálssyni, ogfjölskyldu hans inni-
legustu samúðarkveðjur.
Gísli Helgason
HJÚKRUNlto-65. árgangur65