Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.03.2006, Qupperneq 11
HVERNIG KOMA HJÚKRUNARFRÆÐINGAR ÞEKKINGU SINNI OG REYNSLU Á FRAMFÆRI?
Þetta tel ég að hafi verið mjög miður og
hafi dregið úr krafti og nýsköpun í faginu.
Hvernig getur staðið á þessu? Ég
reikna með að hjúkrunarkonur hafi ekki
haft þann tíma og aðstæður sem voru
nauðsynlegar til að skrifa um málefni
sem tengdust inntaki starfsins. Umfang
heilbrigðisþjónustunnar jókst stöðugt
og alltaf kölluðu fjölmörg verkefni.
Hjúkrunarkonur voru vanar því að aðrir
hagsmunir en þeir sem tengdust þeim
sjálfum og framgangi fagsins þeirra hefðu
forgang. Að loknum löngum vinnudegi
biðu þeirra síðan gjarnan önnur verkefni
eins og að sinna heimilisstörfum, vinum
og fjölskyldum. Þó flestar hjúkrunarkonur
hafi ekki verið giftar áttu þær sín heimili,
vini og stórfjölskyldur. Ég tek þó fram að á
sjötta og sjöunda áratugnum fjölgaði aftur
greinum sem hjúkrunarkonur skrifuðu
um hjúkrun. María Pétursdóttir kynnti
til dæmis hugmyndir um hjúkrun sem
voru ræddar víða erlendis og Ingíbjörg
R. Magnúsdóttir sagði frá hugmyndum
Virginíu Henderson um hjúkrun og þýddi
jafnframt Hjúkrunarkverið sem mótaði
margar kynslóðir hjúkrunarfræðinga
(Kristín Björnsdóttir, 2005).
Tímarit hjúkrunarfræðinga á
tuttugustu og fyrstu öld
En hvernig er staðan núna? Skrifum við
tímaritið okkar saman? Skiptumst við
á skoðunum um áherslur og aðferðir í
hjúkrun? Þessari spurningu verður hver
og einn að svara fyrir sig og mín skoðun
skiptir í sjálfu sér ekki máli. Um tíma sat ég
í ritstjórn tímaritsins og þá komu oft fram
þau sjónarmið að hjúkrunarfræðingar
hefðu ekki tíma né aðstæður til að skrifa í
blaðið. Það taldi ég mjög miður þar sem
ég er enn þeirrar skoðunar að tímaritið
eigi að vera einn mikilvægasti vettvangur
okkar til að koma þekkingu og reynslu á
framfæri. Ég tel mjög mikilvægt að finna
leiðir til að styðja hjúkrunarfræðinga til
að skrifa tímaritsgreinar. Nýlega voru
vandaðar leiðbeiningar um greinaskrif
settar inn á heimasíðu tímaritsins okkar
og það tel ég vera mikið framfaraspor.
Leiðbeiningunum mætti síðan fylgja eftir
með enn frekari hætti.
Lengi hafa heyrst raddir um að tímaritið
höfði ekki til hjúkrunarfræðinga. í því
sambandi eru ýmsar ástæður nefndar
sem ég ætla ekki að tíunda hér. Hins
vegar finnst mér skipta máli að við
skoðum hvaða kröfur sé raunhæft að
gera til tímaritsins og hvers megi af því
vænta. Hjúkrun er afar yfirgripsmikið
fag sem tekur á fjölmörgum flóknum en
jafnramt ólíkum viðfangsefnum, frá vöggu
til grafar og frá bráðum veikindum, sem
ógna lífi, að forvörnum og heilsueflingu.
Því getum við ekki gert þær kröfur til
tímaritsins er það berst inn um lúguna
okkar að við munum lesa það spjalda á
milli. í mínum huga er tímaritið mikilvægur
upplýsingabrunnur sem ég vil hafa
aðgang að þegar ég þarf á að halda. Ég
tel að hinn rafræni aðgangur að tímaritinu
muni breyta míklu um notkun þess. Nú
er auðvelt að leita að og finna nýjar og
eldri greínar og nálgast þær frá sinni eigin
tölvu hvort sem maður er heima eða í
vinnunni.
Á tuttugustu og fyrstu öld eru forsendur tii
þekkingarmiðlunar með allt öðrum hætti
en á þeirri tuttugustu. Fólk leitar þekkingar
á netinu, hún er rædd á netinu og henni
er komið á framfæri um netíð. Fyrir vikið
er öll þekking, sem er aðgengileg á
rafrænan hátt, mun líklegri til að komast
til þeirra sem hennar leita en áður var.
Nú er einnig hægt að nálgast greinar í
Tímariti hjúkrunarfræðinga á heimasíðu
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og
það tel ég vera gríðarlega framför fyrir
fagið. Efni tímaritsins verður nú mun
aðgengilegra en verið hefur. Flestir ef ekki
allir hjúkrunarfræðingar starfa í rafrænu
umhverfi og því er auðvelt að leita að efni
í tímaritinu og að nálgast það beint um
netið. Netið hefur einnig gert samskipti
milli fólks auðveldari (Pew internet and
American life project, 2006). Nú skipta
fjarlægðir ekki lengur máli og allir standa
jafnt hvort sem þeir búa á Raufarhöfn eða
í Reykjavík. Því geta hjúkrunarfræðingar,
sem eiga sameiginleg áhugamál, stofnað
samræðuhópa um viðfangsefni sem þeir
fást við í starfi. Þetta form samskipta
og þekkingarmiðlunar hefur reynst
geysivinsælt víða í heiminum. Því er
þetta ekki síður mikilvæg leið fyrir okkur
til að komast í samskipti við umheiminn.
Vænta má að það verði ekki síður
mikilvægt verkefni hjá Félagi íslenskra
hjúkrunarfræðinga að miðla upplýsingum
um netstarfsemi sem hjúkrunarfræðingar
geta haft gagn og gaman af. Ég hef trú
á því að netið muni hjálpa okkur til að
ná þeim árangri sem Guðný Jónsdóttir
kallaði eftir um tímaritið okkar og ætla
því að Ijúka máli mínu með því að
endurtaka þau: „Við eigum að skrifa
það allar. Við eigum að leggja í það hið
bezta af þekkingu okkar og reynslu, af
trú á málstað okkar og framsóknarhug“
(Guðný Jónsdóttir, 1925, bls. 1).
Heimildir:
Benner, P. (1984). From Novice to expert:
Excellenœ and power in clinical nursing prac-
tice. Menlo Park, Kaliforníu: Addison-Wesley.
Benner, P., og Tanner, C. (1987). How expert
nurses use intuition. American Journal of
Nursing, 87, 23-31.
Benner, P„ Tanner, C., og Chesla, C. (1992).
From beginner to expert: Gaining a different
clinical world in critical oare nursing. Advances
in Nursing Science, 74(3), 13-28.
Benner, P„ Tanner, C„ og Chesla, C. (1996).
Expertise in clinical nursing: Caring, clinical
judgment and ethics. New York: Springer.
Bjornsdottir, K. (1996). The construction of a
profession: The history of nursing in lceland.
Nursing Inquiry, 3, 13-22.
Guðný Jónsdóttir (1925). Ritstjórnarpistill. Tímarit
Félags islenskra hjúkrunarkvenna, 7(1), 1.
Estabrooks, C. A„ Chong, H„ Brigidear, K. og
Proetto-McGrath, J. (2005). Profiling Canadian
Nurses’ preferred knowledge sources for
clinical practice. Canadian Journal of Nursing
Reseach, 37(2), 118-141.
Kristín Björnsdóttir (1994). Sjálfsskilningur
islenskra hjúkrunarkvenna á tuttugustu
öldinni: Orðræða og völd. í Ragnhildur
Richter og Þórunn Sigurðardóttir (ritstj.),
Fléttur: Rit Rannsóknastofu í kvennafræðum
(bls. 203-242). Reykjavík: Rannsóknastofa í
kvennafræðum og Háskólaútgáfan, Háskóla
íslands.
Kristín Björnsdóttir (2005). Likami og sál:
Hugmyndir, þekking og aðferðir I hjúkrun.
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Liaschenko, J. (1998). The change from the
closed to the open body - ramifications for
nursing testimony. \ S. D. Edwards (ritstj.),
Philosophical issues in nursing (bls. 9-30).
Houndmills, Englandi: Macmillan.
Liaschenko, J„ og Fisher A. (1999) Theorizing the
knowledge that nurses use in the conduct
of their work. Scholarly Inquiry for Nursing
Practice: An International Journal, 73(1), 29-41.
Pew internet and American life project (2006).
The strengths of internet ties. Sótt hinn 30.
jan. 2006 á http://www.pewinternet.org/pdfs/
PIP_lnternet_ties.pdf.
Tímarit hjúkrunarfræðinga - 1. tbl. 82. árg. 2006
9