Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.01.2017, Page 35
fyrirmæli um að ná „bara okkar pening til baka …“
Björn Bjarnason vitnar til þess að í myndinni komi
fram hversu erfitt hafi verið fyrir erlenda fjölmiðla að
fá sannferðugar upplýsingar um íslensku bankana og
spyr: „Lýsir þetta því hvernig þetta var? Var af bank-
anna hálfu reynt að fegra myndina og fá blaðamenn
og aðra til þess að segja söguna öðru vísi heldur en
hún var í raun og veru í aðdraganda hrunsins?“
Pétur bendir á að frá einkavæðingu þeirra hafi
bankarnir farið úr því að vera einu sinni, tvisvar sinn-
um þjóðarframleiðsla landsins, upp í að vera ellefu,
tólf sinnum stærri en þjóðarframleiðslan á aðeins
fimm árum. „Og þessi aukning, þessi stærð, hún ger-
ist svona án þess að við séum kannski búin að hugsa
það til enda, bara sem þjóð, bankarnir og við öll sam-
an. Allt í lagi, þegar gengur vel þá er þetta ekkert
vandamál. En raunverulega þegar fjármálakrísan í
heiminum byrjar 2007 og svo dýpkar 2008 að þá verð-
ur þessi skammtímafjármögnun sem íslenskir bankar
eru að einhverju leyti háðir, hún fer að dragast til
baka, og þá allt í einu standa bankarnir einir og auð-
vitað er (að) Seðlabankinn eða þjóðin getur alls ekki
gert neitt til þess að styðja við bankakerfið.“ Hann
bætir við: „Við missum þetta bara úr böndunum og
við erum einhvern veginn komin í einhvern vítahring,
bankarnir og stjórnvöld, eftirlitsaðilar, Seðlabankinn,
allir. Við viljum auðvitað standa okkur og við viljum
ekki að bankarnir fari á hausinn, að sjálfsögðu, og
hvað gerir maður þá? Auðvitað vona allir bara það
besta og við stöndum bara saman. Það fer enginn að
tala þetta niður. Það er bara mannlegt og eðlilegt, al-
gjörlega. Auðvitað eftir á að hyggja virkar það svolít-
ið kjánalegt og auðvitað hefði verið kannski betra að
reyna einhvern veginn að bremsa okkur af, eða gera
þetta eitthvað öðruvísi. En það er bara, þetta eru
orðnir svo miklir hagsmunir og þetta er eins og risa-
stórt olíuskip sem þú ert að reyna að stöðva. Við vit-
um að það er bara ekki hægt og það endar bara með
því að stranda, og það er auðvitað það sem gerðist.“
Á það má benda hér að í Rannsóknarskýrslu Al-
þingis kemur fram að einn innlendur aðili, SÍ, leit-
aðist við að gera réttum stjórnvöldum grein fyrir því í
hvað stefndi. En viðbrögðin við þeim aðvörunum voru
nákvæmlega þau sem Pétur Einarsson lýsir, og hann
telur í sjálfu sér ekki óeðlileg, eins og komið var.
Uppgrip hýena
Björn Bjarnason spyr því næst út í tölur: „Það eru
nefndar tölur, eins og þú segir, bankarnir urðu svona
stórir. Síðan vorum við að tala um vogunarsjóðina og
hvað þeir keyptu á. Það er nefnd sú tala að þeir hafi
kannski farið héðan með 20 milljarða dollara að lok-
um?“
Pétur: „Já, það er svona sú tala sem kemur fram í
lokauppgjörinu og þannig að það er tala sem liggur
nokkuð fyrir, 2.400, 2.500 milljarðar króna.“ Hann
bendir á að ekki hafi allir vogunarsjóðir keypt á sama
verði og þeir sjálfir muni segja að uppboð á 1 og 3 eða
6 prósentum endurspegli ekki öll kaupin. En Pétur
Einarsson bætir svo við: „En það sýnir hvað þetta er
óheilbrigður markaður. Vegna þess að hann er ekki
skráður. Hann er algjörlega á bak við tjöldin og það
er nefnilega enginn sem almennilega veit þetta.“
Björn: „En þetta er enn þá í gangi? Þrátt fyrir
þetta, að þá er þessi markaður, hann dafnar vel.“
Pétur: „Já, algjörlega. Og vogunarsjóðir eru líka
annað svona svarthol. Þeir sem sagt gefa engar upp-
lýsingar um hverjir fjárfesta í þeim, hverjir eiga þá,
meira að segja (ekki) hverjir starfa í þeim.“
Og Pétur bætir við: „Ef þú ferð á heimasíður vog-
unarsjóða, eins og kemur fram í myndinni, þarftu
sem sagt lykilorð bara til þess að komast inn á heima-
síðuna, þú sérð ekki neitt. Þannig að það er annað
líka í þessu sem ég er svona að benda á, er það að til
þess að eiga banka, þá þarftu að vera viðurkenndur af
Fjármálaeftirlitinu. Og við gerum strax eftir hrun
stærstu undanþágu sem er hægt að gera varðandi
fjármálakerfið, það er það að vita ekki almennilega
hverjir eiga bankana. Og það er fyrir mér líka gríð-
arleg mistök og ég er bara alls ekki sáttur við sem Ís-
lendingur og sem fyrrverandi bankamaður. Vegna
þess að það eru ákveðnar reglur sem eru hér og alls
staðar í heiminum, varðandi eignarhald á bönkum, og
við eigum auðvitað að fylgja þeim.“
Björn: „Þeim var ýtt til hliðar hérna?“
Pétur: „Já.“
Björn Bjarnason bendir á að í myndinni sé sagt að
„lögfræðingar hafi tekið hundrað milljarða í þóknun
fyrir að sinna þessu öllu saman?“
Pétur staðfestir þessa „ótrúlegu tölu“ sem Hörður
Ægisson blaðamaður hafi tekið saman.
Í lok þessa athyglisverða viðtals er vikið að mikil-
vægum þætti, samspils viðskipta- og fjárfesting-
arstarfsemi banka hér og annars staðar.
Pétur Einarsson er eindregið þeirrar skoðunar að
algjörlega verði að skilja á milli viðskiptastarfsemi
bankanna og fjárfestingarstarfsemi þeirra. Hinir
venjulegu viðskiptamenn bankanna hafi af því ríka
hagsmuni og einstakt tækifæri sé nú til þess að gera
slíkan aðskilnað á Íslandi. Ríkið eigi stóran eign-
arhlut í bankakerfinu og umgjörð bankakerfisins og
hagkerfisins í augnabikinu sé þannig, að óvenjugóðar
aðstæður séu til að ná slíkri breytingu fram.
Ekkert bendir þó til þess að það verði gert.
Af hverju?
Morgunblaðið/RAX
8.1. 2017 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 35