Dagblaðið Vísir - DV - 12.01.2018, Blaðsíða 19

Dagblaðið Vísir - DV - 12.01.2018, Blaðsíða 19
Helgarblað 12. janúar 2018 fréttir 19 Lögfræðingar rifja upp erfiðustu málin Kio Briggs Þann 1. september árið 1998 var Bretinn Kio Briggs handtekinn í Leifsstöð með yfir tvö þúsund e-töflur í farangri sínum og var hann talinn hafa ætlað að selja þær hér á landi. Málið vakti gríðarmikla athygli og Briggs varð landsþekktur maður og sífellt á síðum dagblaða. Dómarar töldu mögulegt að íslenskur maður sem bar vitni eða einhver á hans vitorði hafi komið efnunum fyrir í far- angrinum. Briggs var því sýknaður í héraði 30. júní árið 1999 og sá dómur staðfestur í Hæstarétti rúmum tveimur vikum síðar. Þetta sama ár voru Briggs og íslensk stúlka handtekin í Danmörku fyrir e-töflu smygl. Hlutu þau bæði eins árs fangelsisdóm þar í desember. Síðast var vitað af Briggs árið 2015 í Madríd og var hann þá enn að komast í kast við lögin. Shaken Baby Syndrome Í maí árið 2001 lést níu mánaða gamall drengur í gæslu hjá hjónum sem störfuðu sem dagforeldrar. Dagföð- urnum, Sigurði Guðmundssyni, var gefið að sök að hafa hrist drenginn svo harkalega að hann lést tveimur dögum síðar úr heilaáverkum. Í mars 2002 var Sigurður dæmdur í héraði til þriggja ára fangelsisvistar fyrir manndráp af gáleysi og þau hjónin voru einnig dæmd til sektargreiðslu fyrir að hafa of mörg börn í gæslu. Hæstiréttur mildaði dóm Sigurðar í 18 mánuði ári seinna. Sigurður hefur ávallt haldið fram sakleysi og læknar eru ekki á einu máli um dánarorsökina. Farið var fram á endurupptöku árið 2013. Kristín Edwald Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður? Lögmennska eða fatahönnun höfðu alltaf heillað mig. Ákvað að vera praktísk og byrja á lögfræðinni. Á fatahönnunina inni. Fyrsta málið þitt? Það var mál sem ég flutti fyrir tvær systur gegn Reykjavíkurborg vegna söluverðmætis íbúðar. Erfiðasta málið? Sakamál sem höfðað var á hendur hjúkrunarfræðingi og Landspít- alanum vegna manndráps af gáleysi. Ég flutti málið fyrir hönd Landspítalans en málið tók mjög á þar sem mér fannst og finnst mikið ranglæti í því fólgið að ákæra hjúkrunar- fræðinginn, jafnvel þótt hún hefði svo réttilega verið sýknuð að fullu. Furðulegasta málið? Í fljótu bragði kemur upp í hugann mál þar sem kínversk kona hafði dottið um gúmmímottu. Þegar hún bar skýrslu fyrir dómi talaði hún lengi á sínu móðurmáli en túlkurinn sem túlkaði yfir á íslensku þýddi næstum alltaf bara með já eða nei. Allir viðstaddir voru vissir um að skýrslugjöfin væri nú ekki að skila sér öll yfir á íslensku en túlkurinn taldi svo vera. Sætasti sigurinn á ferlinum? Þeir eru nokkrir en til að nefna einn þann fyrsta af sætustu sigrunum þá er það væntanlega sigurinn í upphaflega Baugsmálinu þar sem umbjóðandi minn var alfarið sýknaður í Hæstarétti. Mest svekkjandi ósigurinn? Það er tvímælalaust dómur í máli sem snerist um eignarnámsbætur vegna vegalagningar á Suðurlandi. Tók mig nokkur ár að geta keyrt um þann vegspotta án þess að pirra mig á dómsniðurstöðunni. Sævar Þór Jónsson Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður? Ég ætlaði mér aldrei að verða lögmaður, ég byrjaði á því að læra tannlækningar en hætti svo því námi og fór í hagfræði. Ég var eitt vorið að leita mér að einhverju nýju til að læra og sá auglýsingu um opnun nýrrar lagadeildar hjá Háskólanum í Reykjavík og ákvað að slá til. Svo hefur eitt leitt af öðru. Fyrsta málið þitt? Fyrsta málið mitt var skattamál sem ég tók að mér fyrir eldri hjón og náði að ljúka með farsælum endi þrátt fyrir að vera erfitt úrlausnar. Ég man hvað ég vildi standa mig vel og hvað ég lagði mikla vinnu í málið þrátt fyrir að hafa ekki fengið alla þá vinnu greidda enda var það ekki aðalmálið heldur að sanna sig og það gerði ég svo sannarlega. Ég á enn afrit af reikningnum sem ég sendi þeim enda var þetta fyrsta málið sem ég vann og rukkaði fyrir. Erfiðasta málið? Öll mál hafa sitt flækjustig og eru auðvitað miserfið. En sum eru erfiðari en önnur. Mér er minnisstæðast eitt mál sem reyndist mjög erfitt bæði fyrir mig persónulega og umbjóðanda, það var skuldamál sem tók mjög á en þar hafði náðst niðurstaða eftir mikla vinnu og umstang en það tók svo á umbjóðanda minn að hann svipti sig lífi í kjölfarið og það hafði mikil áhrif á mig eftir á, enda var búið að leggja mikið á sig í að ná fram niðurstöðu í því sem á endanum reyndist umbjóðandanum ofviða. Þau þurfa ekki að vera flókin lögfræðilega málin til að hafa áhrif á mann líkt og þetta mál gerði. Furðulegasta málið? Furðulegasta málið var mál skjólstæðings sem ég hafði á minni könnu og var andlega veikur. Hann hafði þann leiðinlega ávana að ferðast um heiminn án heimildar og oft þurfti að leita á náðir utanríkisráðuneytisins til að fá viðkomandi fluttan aftur heim, en umræddur aðili var mjög veikur og ég var lögráðamaður hans. Það voru oft mjög skrautlegar uppákomurnar og í eitt skipti kom hann inn á skrifstofuna hjá mér til að lýsa því yfir að hann væri Jesús endurfæddur og væri kominn til að frelsa mig og aðila inni á skrifstofunni. Það þurfti að eyða miklum tíma í að sannfæra hann um að hann þyrfti ekki að frelsa lögmanninn enda algjör tímasóun. Sætasti sigurinn á ferlinum? Þeir hafa verið margir sigrarnir en flestir hafa verið utan dóms enda er oft betra að ljúka málum fyrir utan dómskerfið. Mér er minnisstætt eitt mál sem sneri að umbjóðanda mínum sem hafði misst húsið sitt á uppboði en fékk leið- réttingu sem ég hafði sótt hart á bankann með. Það kom eitt símtal um að honum yrði aftur afhent húsnæðið en ég var nokkuð lengi að íhuga það hvernig ég ætti að tilkynna honum niðurstöðuna og ákvað að fara heim til hans til að tilkynna honum þetta. Það leyndi sér ekki gleðin en það endaði með því að viðkomandi lyfti mér upp og kyssti mig í bak og fyrir. Það sem er skemmtilegt við þessa sögu er að það var fjölskylduboð heima hjá honum og hann vissi ekki af því að ég væri að koma. Fólkið hans furðaði sig á því að þegar hringt var bjöllunni að húsráðandi gengi út, tæki utan um ungan mann og kyssti hann. Mest svekkjandi ósigurinn? Það er að ná ekki fram tilætluðum árangri. Það er þannig í lögmennskunni að þeir sem vilja standa sig hafa metnað fyrir því að ná fram hags- munum umbjóðenda sinna og ná árangri en það tekst ekki alltaf og alls ekki af því að lögmaðurinn hafi ekki unnið vinnuna sína. Það er svo sérstakt við starf lögmannsins að hann er milli steins og sleggju þegar kemur að úrvinnslu mála, hann er gegn einhverjum aðila fyrir umbjóðanda sinn og svo með umbjóðandann á bakinu hvað varðar árangur og því miður tekst það ekki alltaf því málstaðurinn er misjafn. Sigurður Kári Kristjánsson Hví ákvaðst þú að gerast lögmaður? Ég ætlaði alltaf að verða verkfræðingur. En ætli áhugi minn á þjóðmálum, samfélaginu og stjórnskipuninni, fyrir utan auðvitað lögfræðina sjálfa, hafi ekki gert það að verkum að ég ákvað að læra lögfræði, því þetta helst allt saman í hendur. Þegar leið á laganámið fannst mér lögmennska henta mér betur en önnur lögfræðistörf. Hún er fjölbreytt. Viðfangsefnin eru það líka. Maður fær tækifæri til að vinna með alls kyns fólki auk þess sem málarekstur fyrir dómi er að sínu leyti ákveðin barátta fyrir rétti eða réttindum þess sem þú gætir hagsmuna fyrir. Og einhverra hluta vegna fæ ég eitthvað út úr því að taka slaginn, ekki síst þegar ég hef djúpa sannfæringu fyrir málstaðnum. Fyrsta málið þitt? Það var mitt fyrsta prófmál fyrir héraðsdómi. Mér var falið að sannfæra dómarann um að það væri rétt og lögum samkvæmt að ákveðnum manni bæri skylda til þess að greiða heitavatnsreikninga vegna upphitunar á bílskúr sem einungis var til á teikningum. Það sem þvældist fyrir mér var að bílskúrinn hafði aldrei verið byggður. Ætli það hafi ekki verið ástæðan fyrir því að málið tapaðist. Erfiðasta málið? Þau eru mörg. Það er erfiðast að takast á við mál þar sem undir eru persónulegir hagsmunir og tilfinningar einstaklinga, ekki síst innan sömu fjölskyldu sem eiga það til að liðast í sundur á meðan rekstri dómsmálsins stendur. Það er heldur ekkert gamanmál að upplifa það þegar fólk fær fangelsisdóm sem það þarf að afplána, sérstaklega þegar málið er tvísýnt. Sjálfur hef ég ekki lagt verjandastörf fyrir mig, en það kemur fyrir að maður þarf að sinna þeim og það getur verið erfitt, ekki síst þegar niðurstaðan er manni í óhag. Furðulegasta málið? Stóra bílskúrsmálið sem ég nefndi áðan var dálítið furðulegt af því að bílskúrinn sem málið snerist um hafði aldrei verið byggður. Ég man líka eftir dálítið skrýtnu máli þar sem tekist var á um gallaðan hest. Ég vann það mál, þótt ekki sé ég neinn sér- fræðingur um gæði hesta sem ganga kaupum og sölum. Svo var stóra Coke-tappamálið stórfurðulegt. Þar tókust mágar á um það hvor þeirra ætti að eignast bíl í svokölluðum Coke-tappaleik, en þeir höfðu keypt gosið og þar með Coke-tappana í tengslum við sameiginlega afmælisveislu sem svo endaði með þessum ágreiningi þeirra á milli. Því miður flutti ég það mál ekki á endanum, heldur Helgi Jóhannesson hrl., sem þá var samstarfsmaður minn. Sætasti sigurinn á ferlinum? Maður man alltaf best eftir nýjustu málunum. Ég vann til dæmis afar sætan sigur um daginn þegar við höfð- um ríkið undir í Hæstarétti í fordæmisgefandi máli þar sem álagning búnaðargjalds var dæmd ólögmæt. Það er eitthvað sérstakt við það að hafa ríkið undir, ekki síst þegar niðurstaðan hefur þýðingu fyrir einhvern hóp manna. Ég mun heldur aldrei gleyma viðbrögðum föður ungrar stúlku sem ég vann einu sinni fyrir. Stúlkan hafði lent í hræðilegu slysi og mér hafði verið falið að sækja fyrir hana skaðabætur. Það gekk afar vel og viðbrögð föðurins voru eftir því. Það eru svona mál sem geta gefið lögmannsstarfinu ansi mikið gildi. Mest svekkjandi ósigurinn? Allir ósigrar eru svekkjandi. Sérstaklega þegar maður þolir ekki að tapa. Og ætli ég verði ekki að játa það á mig að vera haldinn slíku óþoli. En í þessu starfi verður maður víst að sætta sig við að sum mál vinnast ekki. Það er bara þannig. Ef ég ætti að nefna eitthvert eitt mál þá man ég nú eftir einu sem ég rak fyrir mörgum árum. Þar sem ungur maður var dæmdur til refsivistar fyrir brot sem hann var sakaður um að hafa framið. Ég var algjörlega sannfærður um sakleysi hans. Dómarinn var á öðru máli. Mér fannst þessi ungi maður órétti beittur og örlög hans grimm. Það var erfitt að taka því.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.