Morgunblaðið - 27.10.2017, Blaðsíða 26
26 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. OKTÓBER 2017
✝ Elís RósantHelgason fædd-
ist á Þingeyri við
Dýrafjörð 4. janúar
1939. Hann lést á
Landspítalanum í
Fossvogi 16. októ-
ber 2017.
Foreldrar hans
voru Huld Þorvalds-
dóttir, f. 17. mars
1915 í Svalvogum í
Dýrafirði, d. 22.
nóvember 2008, og Helgi Sig-
urðsson, f. 6. september 1906, d.
19. desember 1960.
Huld giftist Helga Brynjólfs-
syni, f. á Þingeyri 6. október
1918, d. 7. febrúar 2004 og gekk
hann Elísi í föður stað.
Systir Elísar samfeðra er
Helga Þóranna, f. 1944, og syst-
ur hans sammæðra eru: Unnur
Ríkey, f. 1949, Sigurborg Þóra, f.
1950, og Marta Bryngerður, f.
1954.
Elís kvæntist Ingu Guðríði
Guðmannsdóttur, f. 18. mars
1941. Foreldrar hennar voru
Guðmann Magnússon, f. 5. des-
ember 1908 á Eystri-Dysjum í
Garðahreppi, d. 11. júní 1981, og
Úlfhildur Kristjánsdóttir, f. 11.
desember 1911 í Langholtsparti í
Árnessýslu, d. 9. júlí 2003.
Elís og Inga eignuðust fjögur
börn:
maður Stefán S. Jónsson, f. 1975.
Guðrún á tvær dætur frá fyrra
sambandi, Snædísi Birnu og
Brynju Karen e) Guðni Steinar,
f. 1982.
4) Elsa Kristín, f. 20. septem-
ber 1966, gift Gunnari Viggós-
syni, f. 1964, börn þeirra eru: a)
Hildur Ösp, f. 1996, b) Hulda
Björk, f. 2001, c) Halldór Viðar,
f. 2005.
Eftir barnaskólagöngu á
Þingeyri fór Elís í héraðsskólann
að Núpi í Dýrafirði og lauk það-
an prófi. Síðan lá leið hans í Sam-
vinnuskólann á Bifröst og út-
skrifaðist hann þaðan 1958. Elís
sótti einnig margs konar versl-
unartengd námskeið.
Hann vann í ýmsum versl-
unum og kjörbúðum, lengst af
sem verslunarstjóri hjá Kaup-
félagi Reykjavíkur og nágrennis,
KRON. Árið 1980 var hann ráð-
inn aðstoðarkaupfélagsstjóri
KRON og lauk starfsævi sinni
sem sölumaður hjá Osta- og
smjörsölunni.
Elís átti ýmis áhugamál; m.a.
stangveiði, ferðalög, fótbolta og
berjatínslu. Hann var í Dýrfirð-
ingafélaginu og sinnti þar
stjórnarstörfum um tíma, spilaði
bridge m.a. í Bridgedeild Breið-
firðinga, var í sóknarnefnd
Fella- og Hólakirkju og félagi í
Rotarýklúbbi Reykjavíkur –
Breiðholts.
Útför Elísar Rósants fer fram
frá Digraneskirkju í dag, 27.
október 2017, klukkan 13.
1) Guðmann, f.
27. desember 1958,
fyrrv. maki Sigrún
Jónsdóttir, f. 1956,
og eiga þau eina
dóttur, Ingu Huld,
f. 1982, gift Kára
Frey Þórðarsyni f.
1984 og þau eiga
Matthildi Leu og
Emmu Rún. Sam-
býliskona Guð-
manns er Anne
Katerine Hame.
2) Valborg Huld, f. 3. maí
1960, gift Birni Geir Ingvarssyni,
f. 1960, börn þeirra eru: a) Árdís,
f. 1978, gift Sæmundi Friðjóns-
syni, f. 1979, og eiga þau Tinnu
Rut, Tómas Orra og Bjarka Frið-
jón. b) Birna Hrund, f. 1988, sam-
býlismaður Tryggvi Stefánsson,
f. 1988, og eiga þau Arnar Elís
og Atla Hrafn. c) Elís Rafn, f.
1992, sambýliskona Hanna
María Jóhannsdóttir, f. 1992.
3) Úlfhildur, f. 8. febrúar
1962, gift Snæbirni Tryggva
Guðnasyni, f. 1961, börn þeirra
eru: a) Elísa, f. 1986, sambýlis-
maður Frank White f. 1978 og
eiga þau Úlf Snæ. b) Hrafnhild-
ur, f. 1991, sambýlismaður Ísak
Þórhallsson, f. 1990. c) Stefán
Örn, f. 1993. Fyrir átti Snæbjörn
tvö börn: d) Guðrún, f. 1980, upp-
eldisdóttir Úlfhildar, sambýlis-
Það er svo þungt að missa,
tilveran er skekin á yfirþyrmandi hátt,
angist fyllir hugann,
örvæntingin og umkomuleysið
er algjört,
tómarúmið hellist yfir,
tilgangsleysið virðist blasa við.
Það er svo sárt að sakna
en það er svo gott að gráta.
Tárin eru dýrmætar daggir,
perlur úr lind minninganna.
Minninga sem tjá kærleika og ást,
væntumþykju og þakklæti
fyrir liðna tíma.
Minninga sem þú einn átt
og enginn getur afmáð
eða frá þér tekið.
Tárin mýkja og tárin styrkja.
Í þeim speglast fegurð minninganna.
Gráttu,
„Því að sælir eru sorgbitnir
því að þeir munu huggaðir verða.“
Sælir eru þeir
sem eiga von á Krist í hjarta
því að þeir munu lífið erfa,
og eignast framtíð bjarta.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Þín dóttir,
Elsa Kristín.
Nú kveð ég þig hinstu
kveðju, kæri tengdapabbi og
vinur. Sár söknuður í bland við
þakklæti fyrir fallegar minning-
ar um þig í gegnum tíðina ryðj-
ast fram í hugann og erfitt til
þess að hugsa að þær verði
ekki fleiri.
Þú hafðir sýnt miklar fram-
farir í endurhæfingu í kjölfar
veikinda og við trúðum öll á
frekari bata, eins og þú. Daginn
áður en kallið kom fékkst þú
„útivistarleyfi“ frá sjúkrahús-
inu, til að fara heim á Vestó
einn dagpart og kanna hvort
allt væri ekki örugglega „í
orden“ og njóta samvista með
fjölskyldunni.
Engan óraði fyrir því að
þetta yrðu síðustu samveru-
stundir okkar, en minningar frá
þessum degi þeim mun dýr-
mætari. Kveðjustundin, þegar
við hjónin höfðum fylgt þér aft-
ur á stofuna þína um kvöldið,
var full þakklætis og eftirvænt-
ingar um frekari bata af þinni
hálfu, þú með bros á vör og
ánægjublik í augum, sæll og
sáttur eftir ánægjulegan dag
heima á Vestó með fjölskyld-
unni.
„Takk fyrir allt og sjáumst á
morgun.“
Kæri Elís, ég er þakklátur
fyrir hvernig þið hjónin tókuð
mér, og ungunum mínum
tveimur, opnum örmum þegar
ég og dóttir þín, hún Úlla, fór-
um að rugla saman reytum. Þið
skutuð yfir okkur skjólshúsi
meðan við biðum eftir að fá
fyrstu íbúðina okkar afhenta.
Ég hugsa með mikilli hlýju og
þakklæti til þessa tíma á Vestó,
ómetanlegrar aðstoðar ykkar
og gestrisni.
Okkur tengdasonum þínum
hefur verið mikið kappsmál að
aðstoða þig við ýmis viðvik. Að
fá tækifæri til að endurgjalda
ómælda aðstoð, ást, umhyggju
og stuðning ykkar í gegnum
tíðina.
Ófár heimsóknir þínar með
kjöt í frystikisturnar okkar og
fleira góðgæti sem ávallt kom
sér vel. Umhyggja þín og næmi
fyrir fjölskyldu og vinum,
barnabörnum og vinum þeirra
átti sér engin landamæri.
Áhuginn var því mun meiri ef
viðkomandi var líka ættaður að
vestan.
Ein fyrsta gjöfin frá þér inn
á okkar heimili var forláta
postulínsplatti með mynd frá
heimahögum þínum á Þingeyri
með áletruninni: „Gott sprettur
af góðri rót.“ Hafði alltaf gam-
an af því þegar þú komst í
heimsókn og kannaðir hvort
hann væri ekki örugglega á
áberandi og góðum vegg í íbúð-
inni.
Þú sýndir áhugamálum
barna þinna og þeim íþróttum
sem barnabörnin stunduðu
mikinn áhuga. Mættir á leiki,
fimleikasýningar og oftar en
ekki þið hjónin saman. Þau
lögðu sig líka sérstaklega vel
fram ef þau vissu af Ella-afa og
Ingu-ömmu í stúkunni.
Þú varst mikil tilfinninga-
vera, náttúruunnandi, veiðimað-
ur, virkur í félagsmálum og vel
liðinn maður á allan hátt. Sann-
ur vinur vina þinna.
Í fjölskylduferðum til Dýra-
fjarðar sagðir þú okkur
skemmtilegar sögur frá upp-
vaxtarárum þínum, skólaárun-
um á Núpi og prakkarastrikum
ykkar félaganna þar, sem munu
lifa með fjölskyldunni um
ókomna tíð.
Það voru mikil forréttindi að
eiga þig að sem tengdaföður.
Barnabörnin eiga eftir að sakna
Ella afa sárt og missir þeirra er
mikill. Fallegar minningar um
þig munu styrkja þau í sorg
þeirra.
Elsku Inga, samkennd og
kærleikur fjölskyldunnar hefur
sannast á undanförnum dögum.
Megi fallegar minningar um
góðan dreng gefa þér og öðrum
í okkar fjölskyldu styrk.
Snæbjörn Tr. Guðnason.
Elsku afi, það er erfitt að
setjast niður og skrifa þessi
orð. Þú kvaddir okkur svo
óvænt og allt of snemma. Núna
er ég þakklát fyrir að hafa farið
með fjölskylduna mína að heim-
sækja þig tveimur dögum áður
en þú kvaddir. Það var frábær
heimsókn. Það lá vel á þér, þú
varst bjartsýnn og ánægður að
fá félagsskap. Þið Arnar Elís
töluðuð um fótboltann og ætlaði
hann ekki að trúa því að þú
hefðir spilað með liði sem heitir
Höfrungur. Atli Hrafn hjalaði
mikið og „spjallaði“ við þig og
brosti sínu fallega tannlausa
brosi. Ég veit að þú varst
ánægður að fá okkur í heim-
sókn. Daginn eftir fórum við
fjölskyldan í fjöruferð og þá
hugsaði ég til þín. Ég á margar
æskuminningar með þér og El-
ísi Rafni í fjörunni, að finna
fjársjóði eða að skoða selina.
Fjöruferðirnar enduðu svo allt-
af á ís eða vöfflum hjá ömmu á
Vesturberginu. Arnar Elís var
himinlifandi með þessa ferð og
ég hlakkaði svo til að segja þér
frá henni og rifja upp minning-
arnar með þér í fjöruferðum.
Það gafst því miður ekki tími til
þess.
Ég á ótal minningar af þér
og minnist margra ferðalaga
um landið með ykkur ömmu. Þú
kenndir mér líka að spila á spil
og ég vann þig alltaf í sam-
stæðuspili, meira að segja þeg-
ar þú reyndir að svindla. Þegar
ég vann með þér í Osta- og
smjörsölunni ófá jólin kynntist
ég nýrri hlið á þér sem gerði
mig stolta. Þú varst metnaðar-
fullur í vinnunni og naust
greinilega mikillar virðingar á
vinnustaðnum.
Þú varst mjög barngóður og
náðir svo vel til allra barna.
Arnar Elís bað oft um að fá að
fara til afa Ella og vona ég inni-
lega að hann geymi minningar
um þig. Hann skilur ekki alveg
að þú sért farinn, enda bara
fjögurra ára. Ég mun gera mitt
besta til að halda minningu
þinni á lofti og segja honum og
Atla Hrafni sögur af þér.
Að lokum langar mig að
segja að þú varst mikill fjöl-
skyldumaður og fylgdist með
allri fjölskyldunni af áhuga,
stolti og umhyggju. Ég á eftir
að sakna þess að fá ekki símtal
frá þér til að athuga hvernig
allir hafi það.
Stórt skarð er höggvið í fjöl-
skylduna sem verður ekki fyllt.
Þú varst kletturinn og þín er og
verður sárt saknað. Við sem
eftir stöndum höldum utan um
hvert annað og munum hugsa
vel um ömmu fyrir þig. Elsku
afi, hvíldu í friði, minningin um
góðan mann mun lifa í hjörtum
okkar.
Birna Hrund, Tryggvi,
Arnar Elís og Atli Hrafn.
Elsku Elli afi minn hefur nú
kvatt þennan heim.
Hjartað mitt er fullt af sorg
en einnig þakklæti.
Ég er þakklát fyrir allar
samverustundirnar og væntum-
þykjuna, öll gleði og sorgar-
tárin, allar sögurnar að vestan
og allan hláturinn.
Elli afi mun alltaf eiga sér-
stakan stað í hjarta mínu.
Aldrei fellur á þig ryk
fyrir innri sjónum mínum.
Átt hef ég sælust augnablik
í örmunum sterku þínum.
(Þura í Garði)
Ég elska þig afi, hvíldu í
friði.
Þín
Hrafnhildur.
Elsku afi, þú varst tekinn frá
okkur svo snögglega 16. októ-
ber. Sorgin og söknuðurinn er
mikill en efst í mínum huga er
þakklæti. Þakklæti fyrir allar
minningarnar sem ég á með
þér í næstum 40 ár.
Það eru mikil forréttindi að
eiga mjög unga foreldra og
unga ömmu og afa. Þú varst
jafngamall og ég er núna þegar
ég fæddist, 39 ára. Ég var mik-
ið hjá ykkur á Vesturberginu
langt fram eftir aldri og á svo
margar góðar minningar frá
þeim tíma. Þú varst mikill
spilakarl og spilaðir alla tíð
mikið bridge og kenndir mér
svo mörg spil og hafðir alltaf
tíma til að spila bæði á V-21 og
í ferðalögum. Ég man eftir öll-
um slædsmyndasýningunum
sem við héldum inni í herbergi
með slökkt ljósin og skoðuðum
myndir frá því að mamma var
lítil og ég man þegar við byggð-
um hús úr spilum í tröppunum
uppi í stofu. Ég man líka alla
bíltúrana á Volvo-inum þar sem
alltaf var einn grænn Tópas-
pakki fyrir mig.
Ég fór með þér og ömmu í
ófá ferðalög, bústaðarferðir í
Bifröst þar sem þú varst á
heimaslóðum eftir að hafa verið
þar í skólanum og sýndir mér
örugglega hvern einasta helli í
Borgarfirðinum. Við fórum í
tjaldútilegur m.a. í Þórsmörk
og ég man eftir einu skipti þar
sem við vorum í brjáluðu veðri
og flúðum inn í skála þegar
tjaldið okkar fauk. Þegar ég fór
með strákana mína í fyrsta sinn
í Þórsmörk í haust sagði ég
þeim frá þessari ferð. Þið
amma voruð mjög dugleg að
ferðast bæði innanlands og ut-
an og mikið þykir mér vænt um
að þið hafið heimsótt okkur
fjölskylduna til Barcelona þeg-
ar við bjuggum þar. Dásamlegt
var að fara með þér vestur og
fór ég þangað með ykkur ömmu
sem barn en þegar við fórum
með þér og allri stórfjölskyld-
unni á ættarmót á Þingeyri
2009 varstu eins og kóngur með
allt fólkið þitt með þér á þínum
uppáhaldsstað.
Þú fylgdist alltaf svo stoltur
með okkur barnabörnunum og
svo barnabarnabörnunum. Þú
hringdir reglulega til að fá
fréttir og alla afmælisdaga
varst þú með þeim fyrstu til að
hringja. Þið amma voruð alltaf
með þeim fyrstu með hamingju-
óskir á stóru stundunum, út-
skriftir, brúðkaup og börn. Mér
þótti svo vænt um að þegar ég
átti frumburðinn minn, hana
Tinnu Rut, komuð þið amma
upp á spítala með gjöf til henn-
ar en svo komst þú til mín með
pening og sagðir að þetta væri
bara handa mér, ég ætti að
gera eitthvað fyrir mig. Svona
varst þú, gjafmildur og góð-
hjartaður maður.
Þú fylgdist svo vel með
krökkunum mínum og varst
duglegur að koma á fótbolta-
mót og leiki og hvetja þau
áfram. Þið amma komuð á
Akranes í sumar að fylgjast
með strákunum og sáuð leiki í
Íslandsmóti með Tinnu. Þegar
ég sagði strákunum þessar
sorglegu fréttir að þú værir dá-
inn var það fyrsta sem Bjarki,
sex ára. spurði hvort það væri
hægt að fara í fótbolta uppi á
himninum.
Ég gat alveg séð þig fyrir
mér ef þú hefðir heyrt hann
segja þetta, þú hefðir hlegið og
þér hefði vöknað um augun og
orðið klökkur eins og þú varðst
svo oft bara af stolti. Tómas
Orri, átta ára, spurði hvort það
væri fótboltalið hjá englunum
og það er ég svo sannarlega
viss um að þú sért kominn í það
englalið og spilir fótbolta og
finnir ekki fyrir máttleysi í fót-
unum.
Elsku afi Elli, ég veit að þú
heldur áfram að fylgjast með
okkur þó að það verði með öðr-
um hætti, þú munt vaka yfir
okkur öllum. Við pössum ömmu
vel og hvert annað á þessum
erfiða tíma.
Takk fyrir allt og Guð geymi
þig, elsku afi minn.
Árdís.
Elsku afi minn.
Mikið finnst mér furðulegt
og ósanngjarnt að þurfa að
kveðja þig, ég er ekki tilbúin og
ég veit að þú varst það ekki
heldur. Bara að skrifa um þig í
þátíð á þetta blað finnst mér
vera rangt. En svona er víst
lífið. Ég er svo þakklát fyrir
síðasta samtalið okkar. Þú tal-
aðir um hve þakklátur þú værir
fyrir allt fólkið þitt og allar
heimsóknirnar til þín og ömmu.
Þú varst svo stórfenglegur
karl og besti afi sem hægt var
að hugsa sér. Staðalbúnaður
afa var til fyrirmyndar. Barna-
börnin voru varla farin að
skríða þegar þau voru búin að
læra að kíkja í nammiskálina
uppi í stofu. Og alltaf var til ís.
Hvort sem þú eða amma sá um
innkaupin sást þú allavega til
þess að nammið og ísinn færu
ofan í barnabörnin.
Takk fyrir allar frábæru
minningarnar; bústaðaferðirn-
ar, gistinæturnar og ferðirnar
vestur á firði. Stríðnispúkinn
sem þú varst. Ófáar minningar
úr æsku eru af þér gerandi ein-
hvers konar grín, ég svarandi
fullum hálsi og þú grenjaðir svo
úr hlátri. Eitt máttu vita fyrir
víst, börnin mín munu fá að
kynnast þér gegnum sögur af
þér.
Ég mun ferðast með þau á
þínar heimaslóðir vestur í
Dýrafjörð, fara með þau í Sval-
voga og að Núpi. Ég veit að þú
verður þar með okkur. Þú varst
svo stoltur af stóra hópnum
ykkar ömmu. Ósjaldan horfðir
þú yfir hópinn og sagðir svo
fleygu orðin „gott sprettur af
góðri rót“.
Hvíldu í friði, elsku besti Elli
afi minn, minning þín lifir.
Þín nafna,
Elísa.
Elsku afi minn.
Þú hefur alltaf reynst mér
vel og stutt mig í öllu sem ég
hef tekið mér fyrir hendur. Þú
varst einn af bestu vinum mín-
um og ég er ótrúlega stoltur af
því að vera nafni þinn. Mér
þótti alltaf vænt um þegar þú
kallaðir mig nafna. Ég á marg-
ar yndislegar minningar um
samverustundir okkar.
Það er mér minnisstætt hvað
þú hafðir gaman af því að spila
fótbolta við mig á ganginum í
Vesturberginu. Þú montaðir þig
af því að Höfrungur, liðið þitt
frá Þingeyri, hefði sigrað Man-
chester United, uppáhaldsliðið
mitt, 7-0 í gamla daga. Á meðan
þú beiðst eftir viðbrögðum mín-
um varstu með stríðnisglott
enda stutt í stríðnispúkann hjá
þér. Ég átti nú samt erfitt með
að trúa þessum orðum og
spurði hvort þetta væri til á
spólu.
Ég man hvað þú varst dug-
legur að koma í heimsókn og
taka mig í ævintýraferðir með
þér, hvort sem það var fjöru-
ferð eða ferð niður á höfn að
skoða bátana. Ferðirnar end-
uðu yfirleitt heima á Vestur-
bergi, þar sem amma bauð okk-
ur upp á bestu pönnukökur í
heimi. Einnig eru mér ofarlega
í huga keiluferðirnar, leikhús-
ferðirnar og fjölmargir lands-
leikir sem við félagarnir fórum
á saman. Ferðin á Vestfirði
sumarið 2008 var ógleymanleg.
Frábær ferð þar sem þú sýndir
okkur stoltur uppeldisslóðir
þínar.
Stuðningurinn sem þú hefur
sýnt mér er ómetanlegur. Þú
hefur verið stuðningsmaður
minn númer eitt í fótboltanum.
Ég man eftir þér á hliðarlín-
unni síðan ég byrjaði að æfa og
þú varst meira að segja oft
mættur til þess að horfa á upp-
hitun fyrir leiki. Eftir að ég
byrjaði að spila með meistara-
flokki vissi ég alltaf af þér í
stúkunni á sama staðnum. Þú
mættir ekki bara á leikina held-
ur hringdir þú alltaf í mig eftir
hvern leik til að fara yfir leik-
inn.
Dýrmætasta minningin er
líklega þegar þú og amma kom-
uð í heimsókn til Suður--
Karólínu haustið 2015. Dýrind-
isferð þar sem við borðuðum
góðan mat, slökuðum á í sólinni
og að sjálfsögðu varst þú mætt-
ur til að koma og horfa á mig
keppa. Það var svo gaman að
sjá hvað þú varst hrifinn af að-
stæðunum í skólanum og um-
hverfinu. Ég er svo þakklátur
að hafa fengið ykkur í heim-
sókn og veit að ég á eftir að lifa
lengi á mörgum frábærum
minningunum úr þeirri ferð.
Í seinni tíð fannst mér
ekkert skemmtilegra en að sitja
við eldhúsborðið á Vesturbergi
og spjalla við þig um málefni
líðandi stundar. Það var alltaf
stutt í grínið og fíflaganginn.
Það var bara svo rosalega gott
að tala við þig. Þú hringdir
nánast á hverjum einasta degi
til þess að athuga stöðuna á
mér eða bara til þess að heyra í
mér hljóðið. Það skipti engu
máli þótt ég byggi í Banda-
ríkjunum, alltaf gat ég treyst á
að fá reglulega símtal frá þér.
Þessi símtöl voru ótrúlega dýr-
mæt og það er erfitt að hugsa
til þess að þau verði ekki fleiri.
Elsku afi, orð fá því ekki lýst
hvað ég á eftir að sakna þín
mikið. Takk fyrir allt sem þú
hefur gert fyrir mig. Þú varst
yndislegur maður og ég veit þú
munt halda áfram að fylgjast
með mér. Hvíldu í friði.
Þinn nafni og vinur,
Elís Rafn Björnsson.
Kveðja til langafa.
Elsku langafi, við vorum
heppin að fá að kynnast þér og
eiga tíma með þér.
Takk fyrir allar góðu minn-
ingarnar með þér.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér
(Hallgrímur Pétursson)
Elís R. Helgason