Morgunblaðið - 24.11.2017, Qupperneq 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 24. NÓVEMBER 2017
FALLEG OG VÖNDUÐ
LEIKFÖNG
Kíktu á netverslun okkar
bambus.is
Borgartún 3, sími 847 1660, www.bambus.is, bambus@bambus.is
bambus.is bambus.is • Opið mánudaga og fimmtudaga frá kl. 10-14
úr náttúrulegum efnivið,
tré og silki
VIÐTAL
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Þetta hefur verið ánægjulegur
tími. Ég hef kynnst mörgu góðu
fólki og eignast vini og kunningja.
Með því að vinna náið með þessu
fólki, sveitarstjórn, landeigendum
og bændum, hefur komist á sam-
band sem stuðlað hefur að þessum
góða árangri,“ segir Valur Knúts-
son, yfirverkefnisstjóri við bygg-
ingu Þeistareykjavirkjunar. Hann
kom inn í hönnunarhóp virkjunar-
innar fyrir sex árum og var ráðinn
verkefnisstjóri í byrjun árs 2013.
Landsvirkjun fékk mikið hrós
frá heimafólki og fleiri fyrir góð
samskipti og faglega vinnu við
byggingu virkjunarinnar, við at-
höfn sem efnt var til í tilefni þess
að fyrri vélin var gangsett. Valur
segir það megi ekki síst rekja til
góðra samskipta við hagsmuna-
aðila í héraði. „Landsvirkjun kom
snemma inn í verkefni sem þeir
höfðu ýtt af stað.“
Ekki má vanrækja samvinnu
Sveitarfélögin tvö sem nú
mynda Þingeyjarsveit og orkufyr-
irtæki á Norðurlandi stofnuðu fyr-
irtæki um virkjun háhitans á
Þeistareykjum á árinu 1999.
Landsvirkjun kom inn í það sex
árum seinna og eignaðist fyr-
irtækið að fullu á næstu árum.
Valur segir að unnið hafi verið
vel að undirbúningi virkjunarinnar
og sérstaklega vandað til sam-
skipta við heimafólk, meðal annars
sveitarfélögin sem eiga landið,
bændur sem nýta beitarlöndin á
Þeistareykjum, ferðaþjónustufyrir-
tæki sem eru með starfsemi þar.
„Verkefni af þessari stærð snýst
ekki aðeins um að grafa, slá upp
og steypa. Undirbúa þarf hlutina
vel og hafa góða samvinnu við fólk
og veita upplýsingar. Sá þáttur er
alveg jafn mikilvægur og hinir en
okkur hættir til að vanrækja hann
þegar ráðist er í verkefni með
skömmum fyrirvara,“ segir Valur.
Búið að græða upp
„Þetta er mannvirkjagerð á
óbyggðu svæði. Við þurftum að
byggja upp alla innviði. Byrjuðum
á veginum. Í samráði við heima-
menn var strax í upphafi sett af
stað uppgræðsluverkefni. Lands-
virkjun hefur þá stefnu að bæta
tvisvar til þrisvar sinnum það land
sem raskað er við framkvæmdir.
Við höfum grætt upp ríflega 160
hektara lands og gróðursett fjölda
plantna. Þetta verkefni er nú á
lokastigi á sama tíma og rekstur
hefst í stöðinni. Slíkt hefur sjaldan
tekist við stórframkvæmdir.
Við einsettum okkur það að
áhrif framkvæmdarinnar yrðu sem
minnst. Öll gróðurþekja sem flett
var ofan af svæðum sem fóru und-
ir mannvirki var strax lögð á man-
ir og vegkanta. Framkvæmda-
svæði voru afmörkuð fyrirfram og
verktökum gert að halda sig innan
þeirra. Með þessum ráðstöfunum
tókst okkur að hafa svæðið vel út-
lítandi þrátt fyrir allt það rask
sem slíkri framkvæmd fylgir.
Við reyndum einnig að halda
heimafólki vel upplýstu um fram-
kvæmdina. Héldum opna fundi
með íbúum á Húsavík og í Að-
aldal. Einnig vorum við með opið
hús í virkjuninni í sumar og fyrra-
sumar. Fólk gat þá séð með eigin
augum hvað við erum að gera og
látið skoðun sína í ljós, hvort sem
það var sátt eða ósátt við einstaka
þætti. Það komu yfir 300 manns í
hvort skipti. Ég tel að það hafi
haft góð áhrif,“ segir Valur.
Tókst að halda fókus
Virkjunaráformin hafa tekið
breytingum. Í upphafi var ætlunin
að byggja upp virkjanir á Þeista-
reykjum og í Bjarnarflagi við Mý-
vatn. Það breyttist á undirbún-
ingstímanum og ákveðið að ráðast
aðeins í virkjun á Þeistareykjum
og þá með einni vél. Fljótlega var
ákveðið að bæta annarri vél við og
verður hún tekin í notkun í byrjun
apríl á næsta ári.
Þeistareykir standa hátt og þar
má búast við vetrarríki. „Þess
vegna fórum við í undirbúnings-
framkvæmdir, lögðum fyrst veg-
inn, grófum grunn stöðvarhússins
og lögðum vatsveitu haustið 2014.
Við vissum að við þyrftum að geta
steypt upp stöðvarhúsið á einu
sumri og gert það að mestu fok-
helt. Verktakinn náði að loka hús-
inu að mestu fyrir veturinn og
byrjað var á gufuveitunni. Það
hjálpaði okkur að haustið var gott
og raunar síðasta haust einnig.
Það var ekki sjálfgefið. Þegar
við hófum undirbúningsfram-
kvæmdir 25. maí 2014 þurftum við
til að mynda að ryðja veginn og
framkvæmdasvæðið. Við stöðvar-
húslóðina var snjódýptin einn og
hálfur metri.
Við vorum heppin að geta nýtt
haustin vel en heppnin nýtist ekki
nema einstakir verkþættir hafi
verið vel skipulagðir. Við þökkum
þetta líka góðu starfsfólki Lands-
virkjunar og góðri samvinnu við
verktaka.
Við ætluðum að vera tilbúin 1.
október síðastliðinn en ákváðum
að hliðra því til um tvo mánuði
vegna tafa sem komu upp í
tengslum við leyfismál fyrir há-
spennulínur. Það er gaman að
geta verið með svona stórt verk-
efni tilbúið á réttum tíma,“ segir
Valur.
Hann viðurkennir að stundum
hafi hann fengið fiðrildi í magann
þegar upp komu vandamál sem
gátu haft áhrif á framgang verks-
ins, til dæmis vegna lagningar há-
spennulína. „Við settum okkur það
markmið að vinna að okkar verk-
efni, því sem við gátum stýrt, og
ljúka því á tilsettum tíma. Áhyggj-
ur af verkþáttum sem maður sjálf-
ur getur ekki stýrt dreifir athygl-
inni frá viðfangsefnunum og getur
orðið til þess að manni mistekst.
Við undirbjuggum vissulega neyð-
araðgerðir þegar vandræði komu
upp með línulagnir en þurftum
blessunarlega ekki á þeim að
halda,“ segir Valur.
Svæðið nýtt af varfærni
Við upphaf framkvæmda var til
reiðu nægt gufuafl fyrir 58 mega-
vatta virkjun, eða fyrir meira en
eina 45 MW vél. Í ár voru boraðar
4 holur til viðbótar og segir Valur
að prófanir bendi til að næg gufa
sé komin fyrir seinni vélasamstæð-
una sem nú er verið að setja upp.
Áætlað hefur verið að háhita-
svæðið geti borið mun meiri nýt-
ingu, eða allt að 200 MW. Fram-
haldið hefur þó ekki verið ákveðið.
„Við munum nota reynsluna af
rekstri stöðvarinnar í nokkur ár til
þess að sjá hvernig háhitasvæðið
bregst við nýtingunni, áður en við
tökum næstu skref. Landsvirkjun
vill nálgast nýtingu jarðhitasvæða
af varfærni og tryggja að nýting
þeirra verði sjálfbær.“
Eftir að seinni vélasamstæðan
hefur verið tekin í gagnið, í byrjun
apríl, verður unnið að lokafrágangi
á svæðinu, til dæmis malbikun
plana. Verklegum framkvæmdum
lýkur þá um haustið. Við tekur
uppgjör á verkinu og frágangur
pappíra.
Verð betri maður
Valur býr á Akureyri og hefur
starfað hjá Landsvirkjun í rúma
tvo áratugi. Lengst af starfandi
hann við undirbúning endurbóta á
eldri vatnsaflsvirkjunum fyrirtæk-
isins. „Jarðvarminn var ný áskor-
un. Maður lærir eitthvað nýtt,
kynnist nýjum aðstæðum og fólki,
og verður betri maður ef maður
nýtir reynsluna,“ segir hann.
Heppni nýtist með góðu skipulagi
Yfirverkefnisstjóri Þeistareykjavirkjunar segir að góð samvinna við heimamenn sé lykillinn að
góðum árangri Verkefnishópurinn hélt sínu striki þrátt fyrir breytingar á verkefninu og ógnanir
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Þeistareykjastöð Mikið verkefni hefur orðið að veruleika á skömmum tíma. Undirbúningur fyrir nýtingu auðlindarinnar hefur þó staðið lengi yfir.
Stjórnstöð Flóknum vélbúnaði er stýrt með tölvum úr stjórnherbergi
Þeistareykjastöðvar. Sérstaklega vel er fylgst með í upphafi.
Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
Verkefnisstjóri Valur Knútsson sagði frá sjálfbærri nýtingu Þeistareykja-
svæðisins þegar fyrri vél stöðvarinnar var gangsett.
Þeistareykjastöð
» Nýja virkjunin á Þeistareykj-
um er 17. aflstöð Landsvirkj-
unar. Hún er þriðja jarð-
varmastöð fyrirtækisins og sú
fyrsta sem Landsvirkjun byggir
frá grunni. Hinar eru Kröflu-
stöð og gamla gufustöðin í
Bjarnarflagi.
» Þeistareykjastöð verður 90
megavött en er reist í tveimur
45 MW áföngum. Fyrri véla-
samstæðan var gangsett form-
lega fyrir viku og tengd flutn-
ingskerfi Landsnet. Seinni
vélasamstæðan verður gang-
sett í byrjun apríl.