Morgunblaðið - Sunnudagur - 26.11.2017, Blaðsíða 6
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26.11. 2017
Þrálátur orðrómur hefur
verið um það að Charles
Manson hafi komið til Íslands
og unnið í síld hjá Haföldunni
á Seyðisfirði, líklega sumarið
1963. Hefur það verið haft
eftir íbúum eystra að hann
hafi komið vel fyrir. Þá á Man-
son að hafa verið síðhærður,
búið í tjaldi og iðulega verið
með tvær konur upp á arm-
inn. Þessi saga, eins ágæt og
hún er, á sér varla stoð í veru-
leikanum enda sat Manson
inni í Bandaríkjunum frá því í
júní 1960 fram í mars 1967.
Faðir minn er fangelsið. Faðirminn er kerfið ykkar … ég erbara það sem þið gerðuð mig
að. Ég er bara spegilmynd ykkar.“
Þessi orð lét Charles Manson falla
þegar hann var fyrir dómi í Banda-
ríkjunum árið 1971 grunaður um að
hafa tekið þátt í og lagt á ráðin um að
myrða samtals níu manns, þeirra á
meðal leikkonuna Sharon Tate, sem
var langt gengin með sitt fyrsta barn.
Sem frægt var hafði Manson skorið
stafinn „x“ í ennið á sér til að undir-
strika aðskilnað sinn frá kerfinu. Síð-
ar breyttist x-ið í húðflúraðan haka-
kross sem Manson skartaði til
dauðadags. Gjörningur sem margir
fylgjendur hans léku eftir.
Fjórir fylgjendur Mansons, með-
limir hinnar svokölluðu Manson-
fjölskyldu, myrtu Tate og fjóra aðra
með hrottafengnum hætti á heimili
hennar og eiginmanns hennar, leik-
stjórans Romans Polanskis, í Los Ang-
eles 9. ágúst 1969, að undirlagi leiðtoga
síns sem sjálfur var víðsfjarri. Eitthvað
stóðu lýsingar á þeim verknaði þó í
Manson því daginn eftir fór hann með
fjórmenningunum og tveimur til við-
bótar á heimili hjónanna Lenos og Ro-
semary LaBianca til að sýna þeim
hvernig „bera ætti sig að“. Eftir að
hafa ógnað hjónunum með riffli, bundið
á þeim hendurnar og sett koddaver yf-
ir höfuð þeirra dró Manson sig í hlé og
lét fylgjendur sína um að senda þau yf-
ir móðuna miklu. Beið úti í bíl á meðan.
Öll voru morðin liður í svonefndri
„Helter Skelter-áætlun“ Mansons.
Hana byggði hann á „duldum skila-
boðum“ á Hvítu plötu Bítlanna, ekki
síst í samnefndu lagi, á þá lund að yf-
irvofandi væri stríð milli kynþátt-
anna, hvítra og svartra, og hvíti kyn-
stofninn yrði að verða fyrri til og
ganga milli bols og höfuðs á þeim
svarta áður en það væri um seinan.
Myrti engan sjálfur
Á þessum skilningi grundvallaðist
fyrsta morðtilraun hópsins, sem
Manson stóð sjálfur að 1. júlí 1969.
Hann skaut þá svartan fíkniefnasala,
Bernard Crowe að nafni, á heimili
hans, með þeim rökum að hann hefði í
hyggju að þurrka út allt líf á Spahn-
búgarðinum, kommúnunni þar sem
Manson bjó ásamt „fjölskyldu“ sinni,
mestmegnis ungum konum. Manson
taldi sig hafa myrt Crowe en svo var
ekki; hann lifði árásina af.
Fyrstur til að falla í valinn var tón-
listarkennarinn Gary Hinman en
handbendi Mansons stakk hann til
bana 27. júlí 1969 eftir að hafa haldið
honum í gíslingu í tvo sólarhringa og
reynt að kúga úr honum fé. Hermt er
að Manson hafi litið í heimsókn á
meðan og skorið af gíslinum eyrað.
Seinasta fórnarlamb Manson-
fjölskyldunnar var áhættuleikarinn
Donald „Shorty“ Shea sem sendur
var til feðra sinna 26. ágúst 1969
vegna gruns um að hann hefði klagað
hópinn til lögreglu, fyrir bílstuld.
Böndin höfðu ekki enn beinst að
Manson og hans fólki vegna Tate- og
LaBianca-morðanna. Shea var barinn
og stunginn til bana af „fjölskyldu-
meðlimum“ en líkið fannst ekki fyrr
en átta árum síðar.
Öll fórnarlömbin voru hvít á hör-
und sem var með ráðum gert; lög-
regla átti að draga þá ályktun að
blökkumenn hefðu verið að verki og
þar með ýtt „Helter Skelter“ úr vör.
„Fjölskyldumeðlimir“, Tex Watson,
Susan Atkins og fleiri, voru hand-
teknir einn af öðrum í árslok 1969 eftir
að rannsókn lögreglu vatt fram, meðal
vísbendinga sem leiddu til handtök-
unnar voru upplýsingar frá vinkonu
Atkins og tengsl orða sem ódæð-
isfólkið hafði skrifað á hurðir og veggi
með blóði fórnarlambanna á heimilum
bæði Tate og LaBianca-hjónanna og
vísuðu í Hvítu plötu Bítlanna. Að því
kom að höfuðpaurinn, Charles Man-
son, var afhjúpaður. Lykilvitni við
réttarhaldið var ein af „dætrum“
Mansons, Linda Kasabian, sem var á
vettvangi bæði þegar Tate- og LaBi-
anca-morðin voru framin. Gegn vitn-
isburði sínum naut hún friðhelgi.
Þar með lauk löngum glæpaferli
Mansons, sem var inn og út af upp-
tökuheimilum og síðar fangelsum
fram til ársins 1967 vegna smærri af-
brota, svo sem þjófnaðar, innbrota og
skjalafals. Þegar honum var veitt
lausn sumarið 1967 bað hann raunar
um að fá að sitja lengur inni, af ótta
við að spjara sig ekki utan múranna.
Þeirri beiðni var illu heilli hafnað.
Í staðinn safnaði Manson, sem þá
var 32 ára, um sig áhrifagjörnum
ungmennum, fullvissaði þau um að
hann væri sjálfur Jesús kristur og að
þau hefðu lykilhlutverki að gegna í
aðdraganda efsta dags. Þeim boðskap
hélt hann alla tíð til streitu, lét þess til
að mynda getið að dauðadómurinn,
sem kveðinn var upp yfir honum,
hefði litla þýðingu vegna þess að hann
væri þegar látinn – og hefði verið í
tæplega tvö þúsund ár.
Þeim dómi var breytt í lífstíðar-
fangelsi 1972 þegar dauðarefsing var
afnumin í Kaliforníu.
En nú er Charles Manson sumsé
loksins allur. Eða hvað?
Myrti gegn-
um aðra
Einn alræmdasti morðingi seinni tíma, Charles
Manson, sálaðist í Bandaríkjum á dögunum, þar
sem hann afplánaði lífstíðardóm fyrir níu morð.
Manson framdi raunar ekkert þeirra sjálfur en gaf
fylgjendum sínum fyrirmæli um ódæðisverkin.
AFP
„Fjölskyldufaðirinn“ Charles Manson hafði náðarvald yfir fylgjendum sínum og
gat fengið þá til að fremja hryllilega glæpi vegna þess að heimsendir væri í nánd.
Roman Polanski og
Sharon Tate árið 1968.
Ekki á
Seyðisfirði
’
Börnin sem leggja til ykkar með hnífum
eru börnin ykkar. Þið kennduð þeim, ekki ég.
Ég hjálpaði þeim bara að standa á fætur.
Charles Manson.
ERLENT
ORRI PÁLL ORMARSSON
orri@mbl.is
ÁSTRALÍA
ADELAIDE Kaþ-
ólskur skóli í borginni
hefur látið hylja
styttu sem reist hafði
verið á skólalóðinni
þar sem hún særði
blygðunarkennd
vegfarenda. Myndin
sem fylgir segir líklega
meira en þúsund
orð en styttan sýnir
ónefndan dýrling
færa ungum dreng
brauðbita.
BANDARÍKIN
LOS ANGELES Stuðningsmenn
Donalds Trump dembdu sér í vikunni
yfir leikarann LeVar Burton, sem
frægastur er fyrir að hafa leikið Kunta
Kinte í sjónvarpsþáttunum Rótum um
árið, fyrir þær sakir að hann hefði sýnt
forsetanum vanvirðingu og vanþakklæti
eftir að sá síðarnefndi losaði son hans
úr klípu í Kína. Frekar óheppilegt í ljósi
þess að LeVar Burton var þar alls ekki
á ferð, heldur nafni hans, LeVar Ball, faðir Lakers-leikmannsins
Lonzo Ball sem grunaður var um þjófnað í Kína.
BRETLAND
SOUTHAMPTON Ný rannsókn, sem vísindamenn við
háskóla borgarinnar fóru fyrir, bendir til þess að fólk sem
drekkur þrjá til fjóra kaffibolla á dag sé líklegt til að hagnast á
því heilsufarslega; það er ólíklegra til að deyja fyrir aldur fram,
svo sem úr hjartasjúkdómum. Kaffineysla dregur líka úr hættu
á sykursýki, elliglöpum og fleiru, ef marka má rannsóknina.
PÁFAGARÐUR OG KÍNA
Stjórnvöld í Kína og kirkjunnar menn í
Páfagarði hafa komist að samkomulagi um
að skiptast á listmunum í þeim tilgangi að
styrkja samskiptin sín á milli en þau þykja
hafa verið betri. Sýningar á téðum munum
verða opnaðar í Forboðnu borginni og
Anima Mundi-safninu í mars næstkomandi.