Morgunblaðið - 13.12.2017, Qupperneq 19
19
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 13. DESEMBER 2017
Laugavegur Aðventan hefur sína töfra og marglit ljósin lýsa upp skammdegið. Erlendur ferðalangur klæddi af sér kuldann og tók myndir af mannlífinu í Reykjavík og töfrabirtunni.
Eggert
Flestir hagvísar
benda til að við Íslend-
ingar séum á toppi
hagsveiflunnar og að á
næstu misserum og ár-
um dragi verulega úr
vexti efnahagslífsins.
En framtíðin er óneit-
anlega björt ef haldið
er rétt á spilunum.
Aðrar þjóðir horfa til
Íslands með nokkurri
öfund.
Síðustu ár hafa verið íslensku
þjóðarbúi hagstæð. Á síðasta ári var
hagvöxtur 7,4% og það þrátt fyrir
góðan vöxt árið á undan. Vöxturinn
hefur haldið áfram á þessu ári sem
er sjöunda árið í röð sem lands-
framleiðslan eykst. Þjóðhagsspá
Hagstofunnar gerir ráð fyrir að
nokkuð dragi úr á næsta ári og hag-
vöxtur verði 3,1% og 2,5-2,6% á ári
fram til ársins 2023. Gangi spáin eft-
ir munum við Íslendingar þá hafa
notið 13 ára hagvaxtarskeiðs.
En það er langt í frá sjálfgefið að
þjóðhagsspá rætist. Óvissuþættir
eru fjölmargir eins og Hagstofan
bendir á:
Niðurstöður kjarasamninga
Breytingar á ríkisfjármála-
stefnu vegna stjórnarskipta
Gengis- og verðlagsþróun
Áhrif sterks raungengis á utan-
ríkisviðskipti
Þróun fasteignaverðs og íbúða-
markaðar
Alþjóðleg efnahagsþróun
Óhagstæðari samsetning
Vandinn sem við þurfum að horf-
ast í augu við er að samsetning hag-
vaxtar á þessu ári er allt önnur og
óhagstæðari en síðustu ár. Drif-
krafturinn er einkaneysla og að
hluta fjárfesting, en þar er einnig
viðvörunarljós. Á
þriðja ársfjórðungi
jókst atvinnuvega-
fjárfesting aðeins um
1,4% frá sama tímabili
á síðasta ári. Fyrstu
níu mánuði ársins jókst
fjárfesting atvinnuveg-
anna um 4,9%. Með
öðrum orðum: Sam-
setning hagvaxtarins
er óhagstæðari en áður
og greiningardeild Ís-
landsbanka bendir á að
áhrif af háu raungengi
séu farin að segja til sín „en hátt
raungengi hvetur til meiri einka-
neyslu vegna mikils kaupmáttar
gagnvart útlöndum, á sama tíma og
það dregur úr samkeppnishæfni
þjóðarbúsins á alþjóðavísu“.
Í Hagsjá hagfræðideildar Lands-
bankans er bent á að útflutningur
hafi ekki lagt neitt til hagvaxtar á
þriðja ársfjórðungi, ólíkt því sem áð-
ur hefur verið. „Í fyrsta sinn síðan á
fjórða ársfjórðungi 2014 dróst út-
flutningur saman milli ára. Þó að
það hafi komið á óvart að vöruút-
flutningur hafi dregist saman um
2,7% milli ára voru það ekki stærstu
fréttirnar heldur þær að þjónustu-
útflutningur dróst saman um 0,1%.
Það er í fyrsta skiptið síðan á fjórða
ársfjórðungi 2012 eða í tæp fimm ár
að samdráttur mælist í þjónustu-
útflutningi.“
Greiningardeild Íslandsbanka
vekur einnig athygli á þeirri stað-
reynd að þjónustuútflutningur hafi
ekki aukist „þrátt fyrir metsumar
hvað varðar fjölda ferðamanna.
Virðist sem hápunktinum sé náð
varðandi framlag vaxtar ferðaþjón-
ustunnar til hagvaxtar, en ævintýra-
legur vöxtur í þeim geira hefur verið
einn helsti drifkraftur hagvaxtar
undanfarin misseri.“
Í þjóðhagsspá Hagstofunnar í
nóvember segir að líklegt sé að það
hægi á fjölgun ferðamanna á þessu
ári og vísbendingar séu um að
eyðsla á mann dragist saman, meðal
annars vegna gengis krónunnar. Því
er reiknað með að sterkt raungengi
dragi „frekar úr vexti ferðaþjónustu
og annarra útflutningsgreina næstu
ár en árið 2018 er spáð 4,3% aukn-
ingu útflutnings og 3,3% aukningu
árið 2019“.
Ferðarþjónustan mun því ekki
standa undir vexti efnahagslífsins á
komandi árum með sama hætti og
hún hefur gert, a.m.k. ekki að
óbreyttu. Staða annarra útflutnings-
greina s.s. sjávarútvegs er lakari en
ella vegna gengis krónunnar. Sam-
keppnisstaða íslenskra fyrirtækja er
áhyggjuefni. Miklar launahækkanir,
hátt raungengi, háir vextir og þung-
ar opinberar álögur hafa veikt fyrir-
tækin í samkeppni jafnt á erlendum
mörkuðum sem hér innanlands.
Höfum notið uppsveiflunnar
Íslendingar hafa notið góðærisins
undanfarin ár. Skuldir fyrirtækja
hafa lækkað og ríkissjóður hefur
greitt skuldir hressilega niður.
Sömu sögu er að segja af fjöl-
skyldum. Eiginfjárstaða heimilanna
hefur ekki verið betri frá árinu 2007
eða um 137% af vergri landsfram-
leiðslu samkvæmt Hagstofunni.
Hlutfall skulda af ráðstöfunar-
tekjum heimilanna hefur lækkað
stöðugt frá árinu 2010. Eignir um-
fram skuldir hafa aukist um 68% frá
árinu 2012 samkvæmt skatt-
framtölum eða um 1.090 milljónir
króna. Þeim fjölgar sem eru með já-
kvæða eiginfjárstöðu samkvæmt
framtölum og um leið fækkar þeim
verulega sem eru með skuldir um-
fram eignir. (Vert er að hafa í huga
að hluti eigna er metinn töluvert
undir raunvirði þegar talið er fram
til skatts, s.s. hlutabréf.)
Bætt staða heimilanna endur-
speglar hagstæða þróun launa. Á
síðasta ári jukust ráðstöfunartekjur
á mann um 8,7% og kaupmáttur ráð-
stöfunartekna um 6,9%. Þetta var
þriðja árið í röð sem kaupmátturinn
jókst. Þróunin hefur haldið áfram á
þessu ári. Síðustu tólf mánuði fram í
október síðastliðinn hækkaði vísitala
kaupmáttar launa um 5,2% á sama
tíma og verðlag hækkaði aðeins um
1,9%. Kaupmáttur launa var 26,6%
hærri í október síðastliðnum en í
sama mánuði fyrir fjórum árum.
Aukin fjárfesting –
lægri skattar
Frammi fyrir minni spennu í
efnahagslífinu og auknum slaka á
vinnumarkaði er það ekki sér-
staklega skynsamlegt að auka
rekstrarútgjöld hins opinbera. Það
er líkt og pissa í skóinn; maður nýt-
ur þess í fyrstu en svo sækir kuldinn
að og kalsár myndast. En það eru
góð rök fyrir því að ráðast í arðbær-
ar fjárfestingar í innviðum – nýta
slakann á vinnumarkaði. Í þjóð-
hagsspá er bent á að mjög sterkar
vísbendingar séu um minni fjölgun
starfa og aukið atvinnuleysi. Reikn-
að er með að atvinnuleysi verði um
2,7% á þessu ári og 3% á því næsta
en aukist eftir það þegar hægir á
vexti hagkerfisins.
Þegar hægir á efnahagslífinu er
einnig skynsamlegt að huga að því
að ríki og sveitarfélög slaki á klónni
– lækki skatta og ýti þannig undir
efnahagslega starfsemi. Svigrúmið
ætti að vera fyrir hendi þegar litið
er til þess að á síðasta ári voru
tekjur hins opinbera (án stöðug-
leikaframlaga til ríkisins) um 32%
hærri að raunvirði á hvern Íslending
en aldamótaárið 2000. Útgjöld voru
46% hærri eða um 4,2 milljónir á
hverja fjölskyldu.
Tekjur ríkis og sveitarfélaga (án
stöðugleikaframlaga) námu tæpri
3,1 milljón á mann á liðnu ári eða um
12,4 milljónum á hverja fjölskyldu.
Þetta er 1,7 milljónum króna hærri
fjárhæð á föstu verðlagi á fjölskyldu
en fyrir fimm árum.
Einn af óvissuþáttum í þjóðhags-
spá Hagstofunnar er ríkisfjármála-
stefna nýrrar ríkisstjórnar Fram-
sóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og
Vinstri-grænna. Á morgun, fimmtu-
dag, kemur Alþingi saman í fyrsta
skipti frá kosningum og þá verður
fjárlagafrumvarp 2018 lagt fram. Í
framhaldinu verður fjármálastefna
næstu fimm ára kynnt.
Skoðanakannanir benda til þess
að ríkisstjórnin njóti stuðnings mik-
ils meirihluta landsmanna. Miklar
vonir eru bundnar við að hún verði
farsæl – væntingarnar eru miklar
enda hafa forystumenn ríkisstjórn-
arinnar gefið stór fyrirheit. Útgjöld
verða aukin og það hressilega í
suma málaflokka. Til þess geta stað-
ið rök en á móti er nauðsynlegt að
auka aðhald á öðrum sviðum ríkis-
rekstrar og um leið gera auknar og
skýrari kröfur um meðferð opinbers
fjár – efla eftirlit með að fjármunir
séu nýttir með hagkvæmasta hætti
sem kostur er.
Sú hraða aukning útgjalda sem
verið hefur á síðustu árum verður
ekki sjálfbær þegar dregur úr vexti
efnahagslífsins. Það getur molnað
fljótt undan ótrúlega góðri stöðu
þjóðarbúsins.
Við erum á toppnum og verðum
að fara varlega.
Eftir Óla Björn
Kárason » Sú hraða aukning
útgjalda sem verið
hefur á síðustu árum
verður ekki sjálfbær
þegar dregur úr vexti
efnahagslífsins.
Óli Björn Kárason
Höfundur er þingmaður
Sjálfstæðisflokksins.
Förum varlega, við erum á toppnum