Morgunblaðið - 22.02.2018, Side 34

Morgunblaðið - 22.02.2018, Side 34
VIÐTAL Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Laxgengur hluti áa landsins hefur frá árinu 1932 lengst um heil fjöru- tíu prósent og náttúruleg búsvæði laxa hafa lengst sem því nemur og arðurinn af lax- og silungsveiði jafn- framt aukist umtalsvert. Ástæðu þess má einkum rekja til fiskvega, eða laxastiga, sem reistir hafa verið. Og sá sem á heiðurinn af þeim flest- um síðustu áratugi er Vífill Oddsson verkfræðingur. Hann hefur hannað fjórðung allra fiskvega á landinu; suma í kunnum ám en aðrir hafa gert ár fiskgengar og komið þeim á kortið. „Mínir fiskvegir hafa lengt lax- veiðiár á Íslandi um ein tíu prósent. Og að mínu mati, og fiskifræðinga sem ég hef rætt við, hafa fiskvegir aukið laxveiði hér um fjörutíu pró- sent,“ segir Vífill. Hann bætir við að þessar fram- kvæmdir hafi aukið arð af lax- veiði umtalsvert. „Og það hefur ver- ið skemmtilegt að standa í þessu með mörgum góðum mönnum.“ Út er komin bók er nefnist Á fiskivegum og ber undirtitilinn Laxastigar og laxalíf Vífils Odds- sonar verkfræðings. Höfundur er Þór Sigfússon, tengdasonur Vífils. Margt forvitnilegt kemur fram í bókinni. Þar eru til að mynda kynnt- ar ólíkar gerðir fiskvega, svo sem þrepastigar; sprengdar eða fleyg- aðar rásir; stífur neðan hindrana til að hækka yfirborð; og fleygaðir yf- irfallsstigar en með tilkomu kraft- mikilla fleygunarvéla hefur þeim farið fjölgandi. 27 fiskvegir hafa ver- ið byggðir eftir hönnun Vífils og í ár er hálf öld síðan sá fyrsti var opn- aður. Það var í Selá í Vopnafirði og gerði fiskvegurinn hana að einni bestu veiðiá landsins. Fjölskylda Vífils stóð þá að ræktun laxastofns árinnar og gerði hann stigann í sam- starfi við föður sinn, Odd Ólafsson, yfirlækni á Reykjalundi, og tengda- föður, Gústaf Þórðarson. Átti framtíð í þessu „Pabbi og tengdapabbi voru að rækta Selá upp og fengu mig til að teikna stiga við fossinn,“ segir Vífill sem hafði þá lokið meistaranámi í byggingarverkfræði í Kaupmanna- höfn. „Á þeim tíma vann ég hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thorodd- sen og Sigurður var frábær hús- bóndi. Við verkfræðingarnir höfðum leyfi til að vinna einhver sjálfstæð verkefni á stofunni og þar vann ég teikningar að Selárstiganum en Sig- urður bað mig um að fá að hafa nafn sitt á teikningunni líka. Ég var bara ungur verkfræðingur að byrja fer- ilinn en hann sagðist hafa trú á því að ég ætti framtíð fyrir mér í þessu.“ Og það var ævintýri þegar fisk- vegurinn í Selárfossi var opnaður og laxar tóku strax að ganga upp: veiði í Selá rúmlega þrefaldaðist við það. „Það var rosalega gaman að finna fyrstu laxana fyrir ofan foss því það var búið að spá illa fyrir þessu,“ seg- ir Vífill. „Menn sögðu að áin væri of köld til að vera góð og frjósöm lax- veiðiá og svo töldu sumir að þessi mikli urriði sem var uppi í ánni myndi éta laxaseiðin – en þetta gekk frábærlega. Tíu laxar veiddust strax fyrsta árið, þrjátíu annað árið og svo voru komnir hundrað laxar fyrir of- an foss þriðja sumarið. Það var skemmtilegt kvöldið á Leifsstöðum, húsinu okkar við Selá, þegar fyrsti laxinn veiddist fyrir of- an foss. Pabbi fékk hann í Skipahyl og við pabbi og tengdapabbi skál- uðum fyrir honum.“ Vífill fékk sjálfur annan laxinn, og staðurinn var nefndur eftir honum. „Það var ákveðið að ef laxar veiddust á ónefndum stöðum yrðu þeir nefndir eftir veiðimönnunum en pabbi veiddi þann fyrsta í hyl sem þegar hafði nafn. Ég fékk minn í ónefndum stað sem nú er Vífilsfljót. Það var göngufiskur sem tók alveg niðri undir brotinu.“ Gjörbreytti Langá Það er gaman að ræða um allt sem viðkemur veiði við Vífil enda tengist hann íslenskri stangveiði á ýmsan hátt. Hann var lengi í stjórn veiðifélagsins við Selá, var stjórnar- formaður Veiðimálastofnunar í á annan áratug og hefur setið í stjórn veiðifélagsins við Langá á Mýrum frá 1980. Það var við þá góðu á sem hann teiknaði næst. „Pabbi átti hlut í Langá og stiga- gerð var byrjuð í henni. Jósef Reyn- is arkitekt hafði teiknað stóran stiga við hinn 13 metra háa Sveðjufoss og var það stærsti laxastigi landsins. Við bræðurnir unnum við hann og þar kynntist ég handbragðinu við gerð svona stiga. Við erum fimm bræðurnir og það má segja að pabbi hafi verið heppinn að eiga svo marga kraftmikla stráka sem gátu tekið þátt í ævintýrum hans. Ég teiknaði á þessum tíma ásamt Sigurjóni Helgasyni vatnsmiðlunar- stífluna við útfallið úr Langavatni og það gjörbreytti Langá. Hún var oft hálf-vatnslaus á sumrin fram að því. Þessi miðlun hefur reynst stórkost- lega.“ Og Vífill teiknaði síðan tvo fiskvegi í Langá auk þess að skapa náttúrulega leið fyrir laxinn með því að sprengja rennu á einum stað. „Svo þá fór strax að veiðast lax al- veg uppundir Langavatn.“ „Gaman að standa í þessu“ Vífill varð áttræður í desember síðastliðnum og segist hafa minnkað við sig vinnu, sé nú í fimmtíu pró- sent vinnu. Og hann heldur áfram að teikna fiskvegi, nýjustu teikning- arnar liggja fyrir framan hann. „Þetta er það nýjasta, stigi við Sól- heimafoss í Laxá í Dölum,“ segir hann og klappar á stórar arkirnar. „Þetta verður allt gert með fleygun og engin þrep steypt, allt mjög nátt- úrulegt. Ég held að þeir ráðist í þetta fyrir vestan, þetta er ekkert svo dýr framkvæmd. Fallið er ekki nema fjórir og hálfur metri en nú kemst laxinn bara að fossinum. Ég mældi þetta allt í fyrrasumar. Það er gaman að standa í þessu. Fyrst skoða ég aðstæður og fer svo að mæla. Í gamla daga fékk ég yfir- leitt fiskifræðing með mér en ann- ars fer Katrín kona mín með mér að halda stönginni og mæla með mér. Það hefur víða verið gaman að vinna með stórhuga veiðifélögum og góð- um formönnum þeirra, eins og Þor- steini Þorgeirssyni á Ytri-Nýp við Selá og Jóhannesi Guðmundssyni á Ánabrekku við Langá, sem studdu vel við framkvæmdirnar.“ Í fyrra voru gerðir tveir fleygaðir þrepastigar eftir teikningum Vífils í Miðfjarðará fyrir austan. „Fyrstu laxarnir fóru strax upp,“ segir hann. „Það er alltaf gaman að sjá slíkan árangur.“ Vífill segir að hann hafi teiknað tíu til fimmtán fiskvegi sem ekki hafa verið framkvæmdir, ýmist vegna kostnaðar eða að heimamenn séu ekki sammála um að ráðast í framkvæmdir. Hann neitar ekki að sér þyki svekkjandi að sumar teikn- inganna hafi verið settar á ís. „Ein þeirra er fiskvegur við Barnafoss í Hvítá í Borgarfirði, til að koma laxi upp í Norðlingafljót. Það þarf upplýst göng til og ég hannaði það um aldamótin í sam- vinnu við Sigurð Má Einarsson fiskifræðing en ekki var samstaða um verkið meðal landeigenda. Það hefði orðið fyrsti slíki laxastiginn hér á landi.“ Meiri sportveiði í dag Vífill segir það hafa hjálpað sér frá fyrsta degi við fiskvegagerðina að hann er sjálfur veiðimaður. „Þá gerir maður sér betur grein fyrir því hvernig laxinn hagar sér,“ segir hann. „Ef fiskvegir virka ekki þá er vandamálið yfirleitt það að fiskurinn finnur ekki stigann strax og stund- um alls ekki. Annars má geta þess að það tekur átta til tíu ár að fá laxa- stiga til að skila eðlilegum afköstum, eða tvær kynslóðir laxa. Til að flýta því ferli í Selá þá settum við áður gönguseiði fyrir ofan fossana sumr- in þegar við vorum að byggja stig- ana,“ en þess má geta að árið 2010 var gerður fleygaður þrepastigi við svokallaðan Efrifoss í Selá. Og um Langá og Selá segir Vífill: „Það eru mínar ár. Ég veiði í báðum en er hættur að fara í aðrar. Við för- um einu sinni á sumri í Vopnafjörð en ferðirnar voru þrjár til fjórar á sumri hér áður. Margt hefur breyst við Selá og þar er komið mjög fínt veiðihús en fjölskyldan á enn gamla veiðihúsið á Leifsstöðum sem við fáum að nýta þegar við veiðum þar.“ Hann segir bæði laxagengd og veiðisiði hafa þróast vel hér á landi. „Þetta er orðin meiri sportveiði í dag en var, með aukinni fluguveiði og veiða-og-sleppa. En ég vil nú gjarnan að Íslendingar geti tekið sér einn og einn lax í soðið … En veiðiréttur skiptir gríðarlegu máli fyrir bændur víða, eins og í Borgarfirði og Húnavatnssýslunum þar sem hann heldur búskap í góðu horfi á mörgum býlum. Svo koma veiðimenn til landsins og kringum þetta er mikilvæg ferðaþjónusta sem skilar milljörðum króna.“ Og Vífill teiknar enn fiskvegi, og segir möguleika víða á að lengja og bæta ár. „Enn er hægt að lengja nokkrar góðar ár verulega, þótt mjög mikið hafi verið gert og nýjar leiðir verið opnaðar fyrir laxinn með afar góðum árangri,“ segir hann. „Fyrstu laxarnir fóru strax upp“  Fiskvegir sem Vífill Oddsson verkfræðingur hefur hannað lengdu laxveiðiár landsins um tíu prósent  „Enn er hægt að lengja nokkrar góðar verulega,“ segir Vífill  Áttræður og teiknar enn Morgunblaðið/Einar Falur Verkfræðingurinn „Enn er hægt að lengja nokkrar góðar ár verulega, þótt mjög mikið hafi verið gert og nýjar leiðir verið opnaðar,“ segir Vífill. Sá fyrsti Fiskvegurinn við Selárfoss frá 1968. „Það var búið að spá illa fyrir þessu,“ segir Vífill en stiginn virkaði strax. Stíflan Vatnsmiðlunarstíflan við Langavatn gjörbreytti sum- arrennslinu í Langá og hefur „reynst stórkostlega“. Hjónin Vífill og Katrín Gústafsdóttir, eiginkona hans, við Selá á góðum degi. Feður þeirra stóðu að uppbyggingu árinnar. 34 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. FEBRÚAR 2018

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.