Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.01.2018, Síða 22

Læknablaðið - 01.01.2018, Síða 22
22 LÆKNAblaðið 2017/103 að líta á hráar myndir rannsóknarinnar. Kostur þess er að ekki þarf að vinna úr myndum eftir á, en mat byggir á sjónrænu mati hliðarflæðis sem getur verið huglægt. Segulómun gefur frábærar myndir sem varpa ljósi á meingerð bráðaslags, en hún er notuð sem aðalrannsókn á fáum stöðum. Aðal vandamálið, þrátt fyrir að hægt sé að gera rannsóknina skjótt (á um 6 mínútum þar sem fjölþættir verkferlar eru notaðir),42 eru tafir vegna skimunar sjúklinga fyrir segulómunarrannsókn og skjótur forgangur á álagsmiklum sjúkrahúsum. Því hefur verið bent á að nota segulómun þegar ákvarða á meðferð í erfiðari til- fellum. Hjá sjúklingum með óvisst hliðarblóðflæði þarf að koma endurflæði á mjög skjótt.43 Töf á klínískri ákvarðanatöku, ef þarf að segulóma, gæti dregið úr árangri af opnun æða við slíkar að- stæður. Því væri betra að hverfa frá fjölþáttasegulómun og nota þess í stað TSG. Enginn vafi er á að útkoma er mun lakari hjá sjúklingum með stórt kjarnadrep, hvort sem það er metið með ASPECTS-stigun á TS án skuggefnis, mati á hliðarblóðflæði, mati á kjarnadrepi með TSG eða rúmmáli með f-SÓ. Frekari rannsóknir eru í gangi á þess- um myndrænu breytum hvað ávinning meðferðar varðar. Verið er að kanna hugsanlegt samband þessara mismunandi myndgrein- ingarþátta við árangur meðferðar. Eins og staðan er í dag hefur reynst erfitt að skilgreina hóp sjúklinga sem ekki hefur gagn af segabrottnámi.44,45 Gera þarf frekari framskyggnar rannsóknir, þar sem flestar rannsóknir útilokuðu sjúklinga með stór óaft- urkræf drep. Íhuga ætti segabrottnám hjá sjúklingum með stórt kjarnadrep og hjá sjúklingum sem koma inn nokkrum klukku- stundum frá upphafi einkenna. Svæfing eða slæving við innæðameðferð Afturskyggnar rannsóknir sýna að sjúklingar sem fá svæfingu í stað slævingar við innæðameðferð bráðs blóðþurrðarslags hafi verri horfur.46 Ein slík rannsókn sýndi að fall um >40 mm Hg í meðalblóðþrýstingi, hátt NIHSS við komu og að enduropnun æðar náðist ekki væru sjálfstæðir áhættuþættir lakari árangurs.46 Í annarri rannsókn fannst hins vegar enginn munur á útkomu, hvort sem sjúklingar fengu svæfingu eða slævingu. Í þeirri rann- sókn var hins vegar enginn munur á blóðþrýstingi hjá þeim sem fengu svæfingu í stað slævingar.47 Fjarlækningar Með tilkomu fjarskiptatækninnar varð hægt að veita heilbrigðis- þjónustu til afskekktra svæða. Í bandarísku borgarastyrjöldin um 1860 var ritsími notaður til þess að panta lækningatæki og senda slysalista.48 Síminn kom til sögunnar árið 1876 og útvarp 1895. Í fyrri heimsstyrjöldinni var þessi tækni notuð til þess að flytja læknisfræðilegar upplýsingar til og frá afskekktum stöðum. Þegar tækni og reynsla jókst var farið að nota útvarp til að aðstoða við að senda læknishjálp í Kóreustríðinu (1950-1953) og í Víetnamstríð- inu (1955-1975).49 Fjarmæling (telemetry) er sjálfsmæling og miðlun gagna frá afskekktum stöðum til móttökustöðvar til skráningar og greiningar. Eftir að sjónvarp uppgötvaðist árið 1927 voru gagn- virk samskipti möguleg. Árið 1964 var fyrsta myndbandstengið sett upp milli geðdeildar Nebraska og fylkissjúkrahússins í Nor- Tafla III. Ábendingar fyrir segabrottnámi hjá sjúklingum með aðlægar lokanir miðheilaslagæðar eða innri hálsæðar. Aldur: Ekki eru haldbær rök fyrir efri aldursmörkum við meðferð. Háum aldri fylgja verri horfur, en meðferðaráhrif eru stöðug yfir allt aldursróf. Undirliggjandi sjúkdómar: Mikilvægt er að hafa í huga núverandi lífsgæði og líkur á að halda viðunandi lífsgæðum. Erfitt getur reynst að meta þetta á bráðamóttöku, en ef vafi er á slíku er betra að stefna á meðferð. Alvarleiki slags: Sjúklingar með NIHSS ≥6 hafa kláran ávinning af meðferð. Ekki hefur verið sýnt fram á nein efri mörk á alvarleika einkenna á NIHSS-skala. Um 10% sjúklinga með vægari einkenni geta verið með stóræðalokanir og því ætti alltaf að gera TSÆ. Miklar líkur eru á að þessum sjúklingum versni síðar.30 Ef einkenni eru óvenju væg ætti að íhuga hvort lokun sé gömul. Tvíþætt æðavandamál: Sterkar vísbendingar eru um ávinning hjá þessum hópi. Umdeilt er hvort setja eigi stoðnet fyrir eða eftir segabrottnám. Almennt má segja að rökrétt sé að losa um stíflu í höfði og tryggja þannig hliðarflæði um Willis-hringinn (Circle of Willis) og meðhöndla síðar lokun í innri hálsslagæð nema ekki sé hægt að komast framhjá þeirri stíflu. Óljós ávinningur er af meðferð við aðlægum M2 lokunum. Tími: Skýr ávinningur er af segabrottnámi 0-6 klukkustundum frá upphafi einkenna. Óvíst er um ávinning eftir 6 klukkustundir. Mælt er með slembirannsókn hjá þessum hópi sjúklinga, en niðurstöður úr ESCAPE22 og DEFUSE-289 benda til ávinnings ef myndrannsóknir eru hagstæðar. Kjarnadrep • Sjúklingar með ASPECTS 6-10 stig hafa ávinning. • Ef sjúklingar eru með ASPECTS 0-5 stig er ávinningur óljós. Íhuga skal staðsetningu skemmdar, ónákvæmni í mati óljósra breytinga TS-myndar án skuggaefnis (TSÆ hjáflæði og TSG gæti hjálpað við slíkar kringumstæður). • Sjúklingar með <70 ml kjarnadrep hafa kláran ávinning. Ef kjarnadrep er >70 ml er ávinningur óviss. Íhugið staðsetningu kjarnadreps og viðnámsþrótt sjúklings (fylgisjúkdóma, þol fyrir langri endurhæfingu) og óskum viðkomandi (þol fyrir fötlun, en hafa það hugfast að viðhorf geta breyst eftir slag). Hafa í huga einkennagefandi heilablæðingar. • Flæðisvigtuð SÓ er nákvæmari en TSÆ en henni fylgir frekar tímatap sem vegur upp á móti árangri. Stórt kjarnadrep virðist hafa spágildi um horfur en hefur ef til vill ekki eins mikil áhrif á ávinning meðferðar og áður var talið. Aðrar myndgreiningarbreytur. • Mat á hliðarblóðflæði. Sjúklingar með gott hliðarblóðflæði hafa ávinning af segabrottnámi. Óvíst er um ávinning hjá sjúklingum með lélegt eða ekkert hliðarblóðflæði. Mat hliðarblóðflæðis á stöðluðum kyrrstæðum TSÆ getur valdið vanmati á hliðarblóðflæði, sem er vegna eðlis síns seinkað og því ekki til staðar við slagæðafasa rannsóknar. Fjölfasa myndun41 eða TSG myndir90 koma í veg fyrir slíkt. • Lengd æðastíflu. Ekki eru nægar vísbendingar um að stuttir blóðtappar opnist frekar til þess að réttlæta að bíða og sjá til með meðferð. Y F I R L I T S G R E I N

x

Læknablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.