Læknablaðið - 01.01.2018, Page 27
LÆKNAblaðið 2018/104 27
„Mitt í öllum harðindunum, þrátt fyrir alla dýrtíð og styrjöld,
byrja nú íslenskir læknar árið með þessari félagsstofnun, víllaus-
ir og alls ósmeykir, til að búa í haginn fyrir komandi ár.“ Þannig
skrifaði Guðmundur Hannesson fyrsti formaður Læknafélags
Íslands og forvígismaður í félagsmálum lækna í Læknablaðið
skömmu eftir stofnun félagsins. Læknafélag Íslands var stofnað
14. janúar 1918 á fundi í Læknafélagi Reykjavíkur en stofnun fé-
lagsins átti sér meira en 20 ára aðdraganda.
Á síðasta áratug 19. aldar voru starfandi tæplega 50 læknar á
öllu landinu. Hver hafði sitt hérað, yfirleitt eina sýslu eða bæjar-
félag, en nokkrir störfuðu sem aukalæknar, voru í afleysingum
eða önnuðust hluta af héraði fyrir héraðslækninn, og síðan voru
kennarar við læknaskólann. Læknar höfðu ekki með sér neitt
félag, ekki frekar en aðrir hópar eða starfsstéttir, en gera má ráð
fyrir því að undir aldamótin 1900 hafi flestir þeirra þekkst enda
var stærstur hluti þeirra á svipuðum aldri og höfðu gengið í
gegnum svipað menntunarferli. Landlæknir var yfirmaður heil-
brigðismála og hafði sem slíkur samband við alla lækna landsins
en hann var í senn yfirmaður þeirra og kollegi. Það þarf því ekki
að koma á óvart að það var landlæknir sem hafði forgöngu um
að stofnað yrði sérstakt læknafélag. Jónas Jónassen landlæknir
boðaði lækna landsins til fundar í Reykjavík 27. júlí 1896 í þeim
tilgangi að ræða ýmis mál. Alls mættu 12 læknar auk hans og var
fundurinn nefndur „fyrsti íslenski læknafundurinn“.
Læknafélag Íslands í hundrað ár
Á dagskrá þessa fyrsta almenna læknafundar voru meðal
annars breytingar á skipan læknishéraða, kjör lækna, landsspít-
ali, læknaskólinn, bólusetningar, starfsskýrslur og bókfærsla
lækna, vitfirringastofnun, lyfjasölumál og lyfjaskrá og stofnun
íslensks læknafélags. Þessi fyrsti læknafundur er athyglisverður
fyrir margra hluta sakir og þarna komu fram þau viðhorf sem
helst voru ríkjandi meðal lækna á þessum tíma. Ályktað var
um flest mál en um „stofnun íslensks læknafélags“ fréttist ekk-
ert. Í nefndinni um læknafélagið sátu Guðmundur Hannesson
héraðslæknir á Akureyri, Guðmundur Björnsson héraðslæknir
í Reykjavík og Björn Ólafsson augnlæknir. Stefnt var að því að
halda næsta fund sumarið 1898 „ef ekkert sérstakt hindraði“.
Ekkert varð úr þeim fundi sem auglýstur hafði verið 26. júlí 1898
en þremur dögum síðar, eða 29. júlí 1898, hittust níu læknar úr
Reykjavík og nágrenni á fundi til að ræða tillögu um stofnun
læknafélags sem nefndin sem kosin var á fundinum tveimur
árum fyrr hafði gert tillögur um. Samþykkt var að stofna félagið
og lög félagsins og codex ethicus voru prentuð til þess að aðr-
ir læknar gætu kynnt sér málið. Í stjórn félagsins voru kosnir
Jónas Jónassen landlæknir, Guðmundur Björnsson héraðslæknir
í Reykjavík, sem hafði setið í undirbúningsnefndinni, og Guð-
mundur Magnússon kennari við Læknaskólann. Félagið varð
aldrei neitt nema nafnið eitt en formlega séð var stofnað íslenskt
læknafélag 29. júlí 1898.
Af þessu fyrsta félagi íslenskra lækna voru engar spurnir
næstu árin og það næsta sem fréttist var af fundi lækna í Reykja-
vík 2. október 1909. Þá komu læknar saman til að ræða væntan-
lega stofnun sjúkrasamlags í Reykjavík og hvernig læknar gætu
brugðist við kröfum þess um samninga við lækna fyrir sína
félagsmenn. Í framhaldi af þeim umræðum var síðan stofnað til
Læknafélags Reykjavíkur þann 18. október 1909 á Hótel Íslandi
af 9 læknum. Árið 1909 var að frumkvæði Oddfellow-reglunnar
stofnað sjúkrasamlag í Reykjavík en reglan var í forystu fyrir
Jón Ólafur Ísberg
sagnfræðingur
innanríkisráðuneytinu
joli@centrum.is