Læknablaðið - 01.01.2018, Síða 33
LÆKNAblaðið 2018/104 33
Ú R P E N N A S T J Ó R N A R M A N N A L Í
Fjármögnun heilbrigðisþjónustu með sjúkratryggingum
Ólafur Ó. Guðmundsson
geðlæknir
Olafur.Gudmundsson@decode.is
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.
Reynir Arngrímsson formaður
Agnar H. Andrésson
Björn Gunnarsson gjaldkeri
Hjalti Már Þórisson
Jóhanna Ósk Jensdóttir
Magdalena Ásgeirsdóttir ritari
María Soffía Gottfreðsdóttir
Ólafur Ó. Guðmundsson
Stjórn Læknafélags Íslands
Á nýliðnu ári var nokkur umræða um fjármögnun og rekstrarform
heilbrigðisþjónustu, ekki síst í aðdraganda óvæntra alþingiskosn-
inga. Óhætt er að fullyrða að sátt ríki um það markmið laga um
heilbrigðisþjónustu að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu
heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til vernd-
ar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði, sem og að kostnað-
arhlutdeild sjúklinga sé hófleg fremur en engin.
Hér á landi vill umræðan um rekstrarform heilbrigðisþjónustu
verða villandi þegar blandað er saman fyrirkomulagi fjármögnunar
og reksturs, og kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Ríkisrekstur læknis-
þjónustu hefur ekkert með aðgengi eða gæði hennar að gera og
einkarekstur felur ekki í sér mismunun ef jafnræðis er gætt hvað
varðar aðgengi og kostnað sjúklinga. Hlutverk stjórnmálamanna
er að ákvarða greiðsluhlutfall sjúklinga sem til skamms tíma var
lægra hér á landi en í flestum löndum OECD en hefur farið hlutfalls-
lega hækkandi, eða úr um 12% heildarkostnaðar 1980 í 17% fyrir 10
árum, og er nú nærri 20%.
Margir læknar voru ósáttir við niðurlagningu sjúkrasamlaga
árið 1989, þar á meðal Ólafur Ólafsson landlæknir. Sigurður Björns-
son þá læknir á Landakotsspítala, lét hafa eftir sér í Morgunblað-
inu að verið væri að leggja niður almannatryggingakerfið og gera
greiðslur sjúkrakostnaðar að einhvers konar ölmusu hjá hinu opin-
bera. Sveitarfélögin önduðu léttar við niðurlagningu sjúkrasamlaga
en margir töldu að verið væri að rýra rétt sjúklinga.
Fjármögnun heilbrigðisþjónustu með sjúkratryggingum frekar
en beinum opinberum fjárframlögum er skynsamleg gagnsæ leið
sem sumar Evrópuþjóðir hafa farið. Sjúkratryggingar geta ver-
ið með margvíslegum hætti en eiga það sameiginlegt að þurfa að
bregðast annars vegar við hrakvali (þeir tryggja sig frekar sem eru
líklegri til að þurfa á tryggingunni að halda) til dæmis með því að
gera sjúkratryggingu að skyldutryggingu, og hins vegar freistni-
vanda sem skapast af því að hinn tryggði gætir síður að heilsu sinni.
Staða einkarekinna sjúkratrygginga er svo mismunandi eftir
löndum. Bandaríkin eru stundum tekin sem víti til varnaðar þar
sem um helmingi hærra hlutfalli þjóðarframleiðslu er varið í heil-
brigðisþjónustu en hjá þeim löndum sem næst koma eins og Hol-
land, Sviss og Svíþjóð. Fjármögnun þjónustunnar vestra er marg-
þætt, Medicare fyrir þá eldri, Medicaid fyrir tekjulága og frá 2010
með viðbótarskyldutryggingu ACA (Obamacare) en flestir eru samt
sem áður sjúkratryggðir í gegnum vinnuveitanda sinn. Meginmark-
mið Obamacare, að fleiri verði sjúkratryggðir, hefur náðst því yfir
91% Bandaríkjamanna voru sjúkratryggðir 2016 en ekki hefur geng-
ið jafn vel að ná því markmiði að minnka kostnað.
Að meðaltali nema útgjöld til einkarekinnar þjónustu í Evrópu
um 21% af heildinni en á Íslandi er þetta hlutfall um 18%. Það
Norðurlandanna sem sker sig úr er Finnland með 25% fjármagns
til einkarekinnar þjónustu en hjá hinum þremur er hlutfallið um
15-16%. Öll þessi lönd verja hlutfallslega töluvert hærra heildarhlut-
falli landsframleiðslu til heilbrigðisþjónustu en Ísland. Þegar biðlist-
ar og rekstrarhalli er viðvarandi vandi sjúkrastofnana ríkisins gætu
einkareknar sjúkratryggingar sem hingað til hafa ekki verið jafn
umfangsmiklar hér á landi og í mörgum öðrum Evrópuríkjum, orðið
eftirsóknarverðari valkostur fyrir almenning.
Það er sláandi hvað Evrópuríki fjármagna heilbrigðisþjónustu
með mismunandi hætti en tiltölulega fá (Norðurlöndin og Bretland)
gera það með sambærilegum hætti og íslensk stjórnvöld, með bein-
um ríkisframlögum í gegnum skatta. Önnur hafa farið leið félags-
legra skyldusjúkratrygginga þar sem iðgjöld tryggja fjármögnun og
réttur sjúklinga er skýr. Slíkt kerfi er eins konar nefskattur, varið
fyrir skattsvikum og misvitrum ákvörðunum stjórnmálamanna á
hverjum tíma.
Samkvæmt OECD námu heildarútgjöld til heilbrigðismála 28
Evrópuríkja árið 2015 að meðaltali 10% af landsframleiðslu, saman-
borið við 9% árið 2003, 7% árið 1990 og rúmlega 5% árið 1970. Gera
þarf ráð fyrir því að heildarútgjöld til heilbrigðisþjónustu aukist í
takt við framþróun læknavísinda og breytta aldurssamsetningu
þjóðarinnar en reyndin er samt sú að heildarútgjöld til heilbrigðis-
mála á Íslandi árið 2002 námu 10% af vergri landsframleiðslu, fóru
niður í 9% 2011 og hafa verið í kringum það síðan (9% 2015). Þessar
tölur fela í sér útgjöld til einkarekinnar og opinberrar heilbrigðis-
þjónustu.
Fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar er flókið úrlausnarefni en
löngu er tímabært að draga úr þeim ófyrirsjáanleika sem fjárlaga-
miðuð fjármögnun stjórnvalda felur í sér. Endurreisn almanna-
tryggingakerfisins í formi skyldusjúkratryggingar með jöfnu aðgengi
sjúklinga felur í sér réttindamiðaða fjármögnun og setur stjórnvöld í
það hlutverk að sjá til þess að þau réttindi verði virt.
Verið velkomin í verslun okkar
Opið virka daga kl. 8:30–17:00
Síðumúli 16 I 108 Reykjavík I Sími 580 3900 I fastus.is
fastus.is
ACCUVEIN ÆÐARSJÁIN
HJÁLPAR ÞÉR
AÐ FINNA GÓÐAN
STUNGUSTAÐ
• Getur dregið úr sársauka
við stungur
• Eykur stungunákvæmni
• Auðvelt í notkun
• Tækið er handhægt, nett og létt
• Standur fylgir fyrir
handfrjálsa notkun