Morgunblaðið - 01.06.2018, Blaðsíða 58
58 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. JÚNÍ 2018
Teitur Gissurarson
teitur@mbl.is
R
eynir Sigurðsson hóf sjó-
mennsku fimmtán ára.
Hann fór í Vélskólann
átján ára og starfaði sem
vélstjóri um árabil. Reyn-
ir er einn af þeim sem sigldu Arnari
HU1 frá Japan til Skagastrandar ár-
ið 1973 en í ár eru liðin 45 ár síðan
„Japanstogararnir“ tíu komu til
landsins. Ferðalagið tók um tvo
mánuði en siglt var frá Japan til Ís-
lands með viðkomu á mörgum fram-
andi stöðum. Arnar HU1 var síðasti
Japanstogarinn sem kom til landsins
en 1973 keyptu íslenskir útgerðar-
menn tíu skuttogara frá skipasmíða-
stöð í ríki sólarinnar. Reynir settist
niður með blaðamanni og sagði frá
ferðalaginu, siglingunni og áhrif-
unum sem kaupin höfðu á heimabæ-
inn Skagaströnd.
Frá Skagaströnd til Muroran
Hinn 11. ágúst 1973 lögðu sjö sjóar-
ar frá Skagaströnd upp í ferðalag til
Japans til að sækja skuttogara fyrir
heimabæinn. „Margir hverjir voru
að fara í flugvél í fyrsta skipti og
höfðu aldrei farið til útlanda,“ segir
Reynir Sigurðsson, fyrrverandi vél-
stjóri, og bendir á að sumir hafi ver-
ið örlítið órólegir í sinni fyrstu flug-
ferð.
Eftir tveggja daga ferðalag með
viðkomu í New York og Fairbanks í
Alaska lentu sjóararnir í Tókýó þar
sem ýmislegt forvitnilegt beið
þeirra. „Við vorum í nokkra daga í
Tókýó. Á hótelinu voru litasjónvörp
og útvörp í öllum herbergjum og svo
skoðuðum við nokkur búdda-
musteri,“ segir Reynir en þess má
geta að Sjónvarpið á Íslandi hóf ekki
litaútsendingar úr upptökusal fyrr
en árið 1977. Eftir nokkra daga í
Tókýó lögðu sjómennirnir sjö af stað
til Muroran, en Muroran er á Hokk-
aido-eyju í Norður-Japan. „Ferðin
þangað tók tvo sólarhringa,“ segir
Reynir en í Muroran var skipa-
smíðastöðin þar sem togarinn Arnar
var smíðaður. Þar biðu þeirra þrír
Íslendingar og var þá áhöfnin full-
mönnuð, tíu manns. „Við vorum þar í
nokkra daga. Þar fórum við í prufu-
siglingu og lærðum á bátinn,“ segir
Reynir en auk þess að venjast skip-
inu þurftu sjóararnir að venjast
menningu innfæddra. „Það var
þannig að við þurftum alltaf að þvo
okkur með handsturtu áður en við
fórum ofan í baðkarið. Þá kom hót-
elstýran, sem við kölluðum Mömmu
San, og skoðaði hvort við værum
nógu hreinir til að fara ofan í,“ segir
Reynir hlæjandi.
Hinn 22. ágúst var skipið form-
lega afhent og íslenskur fáni dreginn
að húni. „Það var smáveisla og Bolli
Magnússon skipatæknifræðingur
hélt ræðu,“ segir Reynir, en Bolli
hafði séð um smíði allra Japanstog-
aranna. „Við reyndar græddum
svakalega á því að hafa fengið síð-
asta togarann,“ segir Reynir sposk-
ur á svip. Spurður nánar út í þetta
svarar hann: „Sagan segir að í fyrsta
togaranum hafi allar kojur verið 160
sentímetrar á lengd og vaskarnir í
sextíu sentímetra hæð! Það var sem
betur fer búið að laga þetta allt í síð-
asta togaranum,“ segir Reynir en
undirstrikar þó brosandi að hann
hafi aldrei fengið þessa sögu stað-
festa.
Vikulegar kvöldvökur
Reynir og félagar leystu festar í
Japan seint í ágúst og héldu af stað
heim á leið. Við tók 52 daga sigling
en fyrsti áfangastaður var Havaíeyj-
ar í miðju Kyrrahafinu. „Það voru
oft fjörutíu gráður á daginn,“ segir
Reynir en á löngum heitum dögum
lágu skipverjarnir gjarnan í sólbaði
á dekkinu. „Þess á milli fylgdumst
við með fuglum og fiskum en mönn-
um leiddist stundum,“ segir Reynir
og bætir við að oft hafi verið haldnar
kvöldvökur á skipinu til að stytta
stundirnar. „Við vorum með kvöld-
vökur allavega vikulega. Það voru
margir fínir söngvarar og gítarleik-
arar um borð og svo urðu til ansi fín-
ir sögumenn og hagyrðingar á leið-
inni.“
Reynir, sem hefur alla tíð verið
mikill söngvari og gítarleikari, lék
sér einnig við að taka upp tónlist á
leiðinni. „Við vorum með nokkur
segulbandstæki,“ segir Reynir en
ásamt því að hafa keypt segulbands-
tæki fyrir vini og vandamenn voru
keyptir gítarar og annað dót til að
flytja heim til Íslands. „Svo spilaði
ég og söng „Bláu augun þín“ inn á
segulbandið og söng svo raddir inn á
næsta tæki,“ segir Reynir og bætir
við: „Þá var ég bara kominn með
stúdíó í miðju Kyrrahafi.“
Einungis tveimur dögum var eytt
í höfuðborg Havaí, Honolulu, en þar
var eldsneyti og vatni bætt á skipið.
Skipverjarnir eyddu dögunum á
baðströndum og í sjónum við þær en
Reynir minnist þess að í Honolulu
hafi verið mikið líf og fjör.
„Gat ekki séð hænu á
vappi í mörg ár á eftir“
Frá Havaí var haldið í átt að Mið-
Ameríku, en siglingin til Panama tók
Frá Skagaströnd til Japans og aftur
45 ár eru frá komu
Japanstogaranna til
Íslands. Kyrrahafið og
Atlantshafið voru bæði
tekin í einni og sömu
ferðinni.
Frægir Frétt sem birtist í Tímanum stuttu eftir brottför til Japan. Reynir sést
standa lengst til vinstri með höndina utan um Árna bróður sinn.
Ljósmynd/Úr einkasafni
Heitt Á kyrrahafinu var fór hitinn oft yfir 40 gráður. Þá var tíminn nýttur í að sóla sig en þeir sem áttu ekki skýlur notuðu skó til að hylja viðkvæmustu svæðin.
Athöfn Bolli Magnússon heldur ræðu við afhendingu togarans í Japan.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Víðförull Reynir hefur marga fjöruna sopið á ferðum sínum um heiminn.