Morgunblaðið - 09.06.2018, Blaðsíða 20
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Borgarráð hefur samþykkt að
fyrirhuguð bygging háhýsis á lóð á
horni Skúlagötu og Frakkastígs,
svokölluðum Skúlagötureit, verði
lækkuð um eina hæð. Verður húsið
sjö hæðir í stað átta eins og áform
voru um í fyrstu.
Íbúar í nágrenninu höfðu mót-
mælt þessari byggingu harðlega.
Töldu þeir að byggingin myndi
skerða útsýni frá nálægum íbúðum
og varpa skugga á svalir og úti-
svæði næstu íbúða.
Eins og fram hefur komið í
Morgunblaðinu gerði Skipulags-
stofnun athugasemdir og kom með
ábendingar við deiliskipulag fyrir
Skúlagötureitinn í apríl sl., alls tólf
talsins. Skipulagsfulltrúinn í
Reykjavík svarar bréfi Skipulags-
stofnunar. Hann tekur undir sumt
en hafnar öðru.
Ein athugasemd Skipulags-
stofnunar laut að því að ósam-
ræmis gætti í tillögunni við heim-
ildir um hæðir húsa í gildandi
aðalskipulagi. Skipulagsfulltrúinn
svarar því til að hin auglýsta tillaga
hafi gert ráð fyrir því að á reitnum
mætti koma fyrir allt að átta hæða
byggingu.
„Heimildin fyrir þeirri hæð er
ekki nægjanlega skýr í aðal-
skipulagi og því er gerð ívilnandi
breyting á auglýstri tillögu og um-
rædd nýbygging lækkuð um eina
hæð,“ segir skipulagsfulltrúinn.
Hann tekur ekki undir athuga-
semdir Skipulagsstofnunar um að
fyrirhuguð uppbygging sé í ósam-
ræmi við byggðamynstur svæðisins.
Byggingin muni falla nokkuð vel að
núverandi háhýsabyggð við Skúla-
götu og ef eitthvað sé verði hún til
bóta fyrir heildarsvip og ásýnd göt-
unnar.
Tillagan verður auglýst í B-
deild Stjórnartíðinda í kjölfarið á
samþykkt borgarráðs og öðlast þá
gildi.
Umdeilt hús við Skúla-
götu lækkað um eina hæð
Mynd/VA arkitektar
Skúlagatan Hvíta húsið er það sem mjög hefur verið deilt um. Svona
mun það líta út í umhverfinu eftir að hafa verið lækkað um eina hæð.
Mun verða sjö
hæðir í stað átta
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 9. JÚNÍ 2018
DAGUR
ÍSLENSKRAR
NÁTTÚRU
Tilnefningar óskast til
viðurkenninga umhverfis-
og auðlindaráðuneytis
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir
tilnefningum til tvennra verðlauna sem afhent
verða á Degi íslenskrar náttúru, 16. september.
Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlinda-
ráðuneytisins verða veitt fjölmiðli, ritstjórn,
blaða- eða fréttamanni, dagskrárgerðarfólki,
ljósmyndara eða rithöfundi fyrir framúrskarandi
umfjöllun um umhverfismál og/eða íslenska
náttúru undangengna tólf mánuði
(tímabilið ágúst 2017 – ágúst 2018).
Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í
Brattholti verður veitt einstaklingi sem hefur
unnið markvert starf á sviði náttúruverndar.
Tilnefningar ásamt rökstuðningi skal senda í
síðasta lagi 24. ágúst 2018 á umhverfis- og
auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík,
eða á netfangið postur@uar.is
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Sala á nýjum íbúðum norðan við Út-
varpshúsið í Efstaleiti hefst um
helgina. Íbúðirnar eru hluti af
öðrum áfanga nýs hverfis.
Félagið Skuggi byggir íbúðirnar.
Þær verða afhentar næsta sumar.
Hilmar Ágústsson, framkvæmda-
stjóri Skugga, segir um að ræða 49
íbúðir í Efstaleiti 27 og Lágaleiti 1
og 3, sem sé ný gata meðfram Út-
varpshúsinu að norðan.
Nýju íbúðirnar eru 35-112 fer-
metrar og kosta 28 til 69 milljónir.
Hægt er að kynna sér íbúðirnar á
vefnum Efstaleitid.is.
Má ætla að söluverðmæti þeirra
sé á þriðja milljarð króna.
Greiðar samgöngur
Íbúðirnar 49 rísa vestast á svo-
nefndum A-reit. Þar verða 160 íbúð-
ir þegar reiturinn er fullbyggður og
138 bílastæði. Bílastæði fylgja flest-
um íbúðum. Hins vegar verður
hægt að kaupa stæði, auk þess sem
boðið verður upp á deilibíla. Áform-
að er að A-reiturinn verði full-
byggður haustið 2019. Næsti sölu-
áfangi á A-reit hefur ekki verið
tímasettur. Hilmar segir nýja hverf-
ið fjölskylduvænt.
„Það verður fallegur garður í
miðjunni með góðar tengingar við
almenningssamgöngur og hjóla-
stíga. Þar verður leiksvæði og
hreyfistöð fyrir almenning. Kaffihús
verður opnað inn í garðinn og marg-
vísleg þjónusta er í boði í nágrenn-
inu. Við horfum til þess að fyrstu
kaupendur geti nálgast skóla og
þjónustu í kring. Þá er þetta mjög
hentugt svæði fyrir eldri borgara.
Til dæmis er félagsstarf og þjónusta
fyrir eldri borgara í Hvassaleiti og á
Sléttuvegi.“ segir Hilmar.
Fyrsti áfanginn í uppbyggingu
hverfisins var bygging 72 íbúða í
Jaðarleiti 2-8. Afhending íbúðanna
er hafin og segir Hilmar að nú séu
aðeins sex þeirra óseldar. Jaðar-
leitið er sunnan við Útvarpshúsið.
Síðasti áfanginn í uppbyggingu
hverfisins verður bygging 130 íbúða
á B-reit sem verða afhentar um ára-
mót 2019/2020. Sá reitur er austan
við A-reitinn. Svæðið verður fullfrá-
gengið vorið 2020. Samtals verða
um 360 íbúðir á reitunum þremur
þegar hverfið er fullbyggt.
Nýjar íbúðir í Efstaleiti koma í sölu
Tölvuteikningar/Fractial Mind
Samverustaður Kaffihús verður opnað í hverfinu. Það mun snúa inn að garði sem verður milli húsanna í Efstaleiti.
Fjölbreytni Útlit húsanna er brotið upp með reglubundnum hætti.
Skuggi hefur sölu 49 nýrra íbúða
norðan við Útvarpshúsið í Reykjavík
Garður og kaffihús í nýju hverfi
Nýtt götuhorn Íbúðir í nýja hverfinu verða af ýmsum stærðum.
Hönnun Dæmi um íbúð í hverfinu.
Opið Gólfsíðir gluggar verða í boði.