Skírnir - 01.09.2016, Blaðsíða 69
305vitnisburður um veruleikann
hafi gengið í endurnýjun lífdaga víða um heim allt frá tíunda áratug
liðinnar aldar, ekki síst sú tegund þess sem stundum er kallað
‚orðrétt leikhús‘ (verbatim theatre).2 Jafnframt er talað um, ekki
síst í hinum enskumælandi heimi, hið svokallaða memoir boom eða
minningabókasprengjuna sem lýsti sér í gríðarlegri fjölgun titla, og
hærri sölutölum en nokkru sinni fyrr, á reynslusögum þekktra og
óþekktra, sjálfsævisögulegum verkum sem fengið hafa meiri athygli
en áður hafði þekkst.3 Innrás veruleikans má sjá víðar í menning-
unni, til dæmis í miklu risi (og hnignun) svokallaðs veruleikasjón-
varps og í stafrænni væðingu umhverfis okkar, ekki síst með til -
komu samfélagsmiðla þar sem notendur keppast við að tjá sinn
‚veruleika‘ jafnharðan í orðum og myndum.4 Mikla fjölgun útgef-
inna sjálfsævisögulegra texta hér á landi síðustu ár er hægt að skoða
í þessu samhengi, í þessari ‚veruleikavæðingu‘ menningarinnar —
hún á sér margvíslegar rætur og ástæður, sem birtast í fjölbreyttri
flóru verka, sem eiga kannski það eitt sameiginlegt að hafa sterkar
sjálfsævisögulegar vísanir, eða vísanir í heim utan textans, frekar en
svipað form, stíl eða efnistök.5
Að skrifa upp lífið eða vonlaust verk skrásetjarans
Víða um heim hefur orðið vart við aukinn áhuga á alls konar heim-
ildaverkum í listum. Bækur sem liggja á mörkum heimildaverka,
skírnir
2 Sjá t.d. Forsyth og Megson 2009.
3 Julie Rak (2013) hefur fjallað um það hvernig þetta fyrirbæri birtist í Norður-
Ameríku og telur það sýna fram á að fólk þar kynnist helst sögulegum viðburðum
í gegnum reynslu einstaklingsins.
4 Sjá nánari umfjöllun í grein minni um samfélagsmiðla frá 2015.
5 Hér er einungis fjallað um brot af þessum fjölda og telst þetta því ekki á nokkurn
hátt tæmandi yfirlit. Ég hef skrifað og rætt ýmislegt á hinum og þessum stöðum
um verkin sem hér verða til umfjöllunar. Lesendur afsaki þótt hér verði því
eitthvað um endurtekningar og endursagnir af áður skrifuðu og áður sögðu. Ég
birti ritdóma um verk Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, Eiríks Guðmundssonar,
Hallgríms Helgasonar og Vigdísar Grímsdóttur á Bókmenntavefnum (bok-
menntir.is). Þá fjallaði ég um verk Auðar Jónsdóttur, Sigurðar Pálssonar, Péturs
Gunnarssonar og Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur í „Bók vikunnar“ á Rás 1
Ríkisútvarpsins. Upplýsingar um lengri greinar um þessi og fleiri verk má sjá í
heimildaskrá hér að aftan.