Jökull - 01.12.2007, Blaðsíða 110
10. Talar málin mörg og kunn,
mærðar stálið reiðir,
glatt við skála gnægta brunn
graut úr káli seiðir.
11. Stærðargapinn steypir sér
í stjörnukrapaþýfi.
Þótt hann hrapi þar og hér,
þegi tapar lífi.
12. Sá er hraustur sverðaver
sveinninn Trausti heitir.
Teprulaust á tinda fer,
tveimur raustum beitir.
13. Guðmund nefna næstan kann,
nóg sér efni velur.
Trausta stefnu hefur hann,
hrúta í svefni kvelur.
14. Aldrei bráka beinin vann
bjargs í rák þótt sigi,
iðkar skák og ótal kann
andans krákustigi.
15. Yrkir smátt og ekki hátt,
þótt ólgi dátt á keipum.
Ratar þrátt á rétta átt,
rennur fátt úr greipum.
16. Ólafi týna ekki má,
sem yrkir fína móa.
Legumina lætur sá
á loftsins vini gróa.
17. Yrkir rímur orkusnar,
alltaf skímu finnur
í kjaftaglímu um kenningar.
Kvæðasímann spinnur.
18. Rekur leiðir létt sem hind
lífs um breiða grunnið.
Á Herðubreiðar háa tind
hefur skeiðið runnið.
19. Til sveina vík eg, væna drós,
er vafðir flíkum liggja
á kaldri brík við kertaljós
og kuldans ríki byggja.
20. Sátu um nótt og sungu dátt
– svalaði óttu blærinn –.
Segir ljótt af sinadrátt,
er sækja þótti á lærin.
21. Samt þeir dunda sín við spil,
síður blundað gátu.
Þegar stundum þurftu yl,
þeir á mundum sátu.
22. Lengi sátu, lund var kát,
á lífsmungáti dreyptu.
Hreint á áti misstu mát,
mat í fáti gleyptu.
23. Súpur fljótt þeir sulgu úr pott,
síðan skjótt sig búa.
En var nótt þá ítar brott
efldir þrótti snúa.
24. Hnattamerki um himinlín
hátign sterka róma.
Sköpunarverkin skær og fín
á skararberki ljóma.
25. Þarf á landi þessu hug
að þræða granda fjalla,
til beggja handa hengiflug
og hvergi vandi að falla.
26. Stefnt var háar stjörnur á
um stuðla bláa vegi.
Litu þá um lönd og sjá
en loga sáu eigi.
27. Gengu víða gadds um tún,
gættu um hlíð og halla.
Sólin fríða syng við brún,
sýndi prýði fjalla.
108 JÖKULL No. 57